Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 13. nóvember 2008, kl. 12:18:20 (1080)


136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

lífsýnasöfn.

123. mál
[12:18]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið til 1. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 110/2000, um lífsýnasöfn, með síðari breytingum. Megintilgangur frumvarpsins er að gera greinarmun milli lífsýna sem eru tekin annars vegar í vísindaskyni og hins vegar sem hluti af þjónustu við sjúklinginn og hluti af rannsóknum til greiningar sjúkdóma. Frumvarpið byggir á lögum frá árinu 2000 þannig að komin er ákveðin reynsla á framkvæmd þessara þátta við meðhöndlun lífsýna. Ég sé það í greinargerð með frumvarpinu að mjög stór hópur sérfræðinga hefur komið að samningu frumvarpsins sem hefur þekkingu á því hvernig þessu verður best fyrir komið og hvaða vanda verið er að leysa með frumvarpinu.

Þetta er eitt af þeim frumvörpum sem eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis og taka á ákveðnum praktískum þáttum í framkvæmd en það er erfitt fyrir nefndina að setja sig inn í þau mál nema að kynna sér þau rækilega. Ég mun beita mér fyrir að hv. heilbrigðisnefnd muni skoða málið til hlítar. Hlutverk heilbrigðisnefndar varðandi frumvarpið er fyrst og fremst að fara yfir það og skoða ákveðna þætti, svo sem að persónuverndarsjónarmiða sé gætt, jafnframt að meðhöndlun sýna sé í samræmi við viðurkenndar reglur um slíkt og um leið að réttinda sjúklinga sé gætt. Síðast en ekki síst þarf að skoða málið í samhengi við að það geti stuðlað að auknum vísindarannsóknum hér á landi. Þar fari þá saman þarfir vísindasamfélagsins og sjónarmið sjúklinga varðandi persónuvernd.

Frumvarpið er fremur tæknilegt en ég sé það bæði af þeim sérfræðingum sem komið hafa að samningu frumvarpsins og þeim sem gáfu umsögn um það meðan frumvarpið var til athugunar innan heilbrigðisráðuneytisins að það hljóti að vera vel ígrundað. Hv. heilbrigðisnefnd mun taka frumvarpið til skoðunar, fá til sín gesti og ræða það.