Hlutverk og horfur sveitarfélaga í efnahagskreppu

Fimmtudaginn 13. nóvember 2008, kl. 16:36:45 (1109)


136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

hlutverk og horfur sveitarfélaga í efnahagskreppu.

[16:36]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér líður eiginlega bara illa yfir því hvað vinstri grænum líður hræðilega illa og hef ugg í brjósti mér vegna þess hvað þeim líður í raun illa. (Gripið fram í.) Svartsýni og bölmóður. (Gripið fram í.) Ég hef hlustað á tvær neikvæðar ræður í dag og er búinn að sitja á fjármálaráðstefnu í allan heila dag. Önnur var flutt áðan af hv. fyrirspyrjanda og hin var flutt af flokksbróður hans á fjármálaráðstefnunni. (Gripið fram í.)

Ástandið er ekki svona kolsvart. Ég held að fyrir höndum sé mikið verkefni hjá okkur alþingismönnum, sama hvar í flokki við stöndum — og eins sveitarstjórnarmönnum — að standa saman og vinna að þeim verkefnum sem þarf að vinna. Það er mjög mikið unnið í málefnum sveitarfélaga eftir þeirri aðgerðaáætlun sem gerð hefur verið. Það er rangt hjá hv. þingmanni að ekkert samráð sé um það. En það getur vel verið að vinstri grænir vilji hafa einn fund fyrir hádegi og annan eftir hádegi í samráði alla daga. Ég er ekki sammála því að þess þurfi.

Verið er að vinna farsællega að þessu. Sett var fram plan 17. október sem unnið er eftir. Ég skýrði frá nokkrum atriðum sem við erum þegar búin að gera. Eitt er reglugerðarbreyting (Gripið fram í.) sem kemur fram í frumvarpi sem verður lagt fram vonandi strax eftir kjördæmaviku og svo má lengi telja.

Varðandi 1.400 milljónirnar er rétt að það bíður afgreiðslu Alþingis, ekki á hinu nýja fjárlagafrumvarpi heldur endurskoðun þess, svo að ég leiðrétti mig hvað það varðar. En ég tók eftir því að sveitarstjórnarmenn voru mjög ánægðir með það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði í lok ræðu sinnar í morgun. Ég vísa því til föðurhúsanna að ekki sé unnið með sveitarfélögunum enda kom það fram, virðulegi forseti, hjá formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga í morgun að hann fagnaði því og var ánægður með það samstarf og verður áfram unnið með þeim hætti.

Ég mun beita mér fyrir því að fundir með samráðsnefnd og öðrum ráðuneytum verði haldnir með forustu Sambands íslenskra sveitarfélaga eins og þeir hafa óskað eftir (Forseti hringir.) og mun ekki standa á því.