Eftirlaunalög o.fl.

Föstudaginn 21. nóvember 2008, kl. 10:36:47 (1334)


136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

eftirlaunalög o.fl.

[10:36]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég beini orðum mínum til hæstv. utanríkisráðherra sem formanns Samfylkingarinnar og spyr hana hreint að því hvort henni finnist sú framkoma, leyfi ég mér að segja, ríkisstjórnarinnar, Samfylkingarinnar gagnvart þjóðinni vera boðleg þegar við blasir á hverjum einasta degi að það er mikill ágreiningur á milli stjórnarflokkanna og fulltrúar Samfylkingarinnar, bæði óbreyttir þingmenn og hæstv. ráðherrar, ástunda gaspur, ég kalla það gaspur meðan ekki er hægt að sjá að verið sé að vinna neitt í málum. Það er borið á borð fyrir þjóðina að Samfylkingin vilji þetta og Samfylkingin vilji hitt. Þetta er alger nýjung í íslenskum stjórnmálum og þjóðin stendur frammi fyrir gríðarlega miklum vanda en það sem hún horfir upp á hjá stjórnarheimilinu er mikil ósamstaða.

Ég bæti því svo við, hæstv. forseti, að í morgun birtist reyndar má segja gleðifrétt því að þar kemur fram að búið sé að ná samstöðu um svokölluð eftirlaun æðstu embættismanna og að slíkt frumvarp hafi verið tekið fyrir í ríkisstjórn eða átti að taka fyrir í ríkisstjórninni í morgun. Þetta er mál sem stjórnarandstaðan hefur ekki verið upplýst um og það samstarf sem átti sér stað við stjórnarandstöðuna virðist hafa verið rofið. En miðað við þessa stuttu frétt sýnist mér að það sé að fæðast frumvarp sem er í líkingu við frumvarp sem hæstv. utanríkisráðherra hafnaði fyrir líklega tveimur árum síðan þegar Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra og reyndi að ná samkomulagi um framlagningu frumvarps til breytinga á þessum lögum en þá hafnaði hæstv. utanríkisráðherra frumvarpi (Forseti hringir.) sem miðað við fréttina er í líkingu við það sem nú er til umræðu.