Málefni tveggja hælisleitenda

Þriðjudaginn 25. nóvember 2008, kl. 14:39:04 (1484)


136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

málefni tveggja hælisleitenda.

[14:39]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það hryggir mig mjög að heyra að mönnunum skuli hafa verið vísað úr landi því það er algjörlega ljóst að þeir eiga ekki afturkvæmt til heimalands síns og það er ekki hægt að vísa þeim neitt annað, nema þá að hæstv. ráðherra hafi séð svo um að þeim hafi verið vísað út í opinn dauðann og ég vona að svo sé ekki.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningu minni um hvort verið væri að huga eitthvað að málum þeirra hælisleitenda sem ekki er hægt að vísa aftur til heimalanda og er synjað um hæli í löndunum í kringum okkur en eins og ég nefndi áðan þá er það stækkandi hópur í nágrannalöndum okkar og ég nefndi Noreg.

Við þurfum að taka á málefnum þessa hóps. Það er að myndast hópur hér. Ég veit núna um þrjá einstaklinga sem svona er ástatt um og því vil ég að við tökum á málefnum þessa fólks sérstaklega og vil fá að heyra hvort hæstv. ráðherra hefur það til skoðunar í ráðuneytinu.