136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það þýðir ekkert, hvorki fyrir mig né fyrir hv. þm. Pétur H. Blöndal, að ganga í ræðustólinn síðla árs 2008 og segja: Við gátum ekkert gert. (Gripið fram í.)

Það er ekki þannig að við séum fórnarlömb í þessu máli, hv. þm. Pétur H. Blöndal, það er alls ekki þannig. Við berum ábyrgð í þessu máli, en það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það gera Evrópusambandsríkin líka. Það hefur sýnt sig eins og fjármálaráðherra Breta hefur sagt í breska þinginu að kerfið sem búið var til var líka gallað og þess vegna er þetta mál sameiginleg ábyrgð. Þess vegna er hæstv. utanríkisráðherra að sækja hér umboð til að ganga til viðræðna um sameiginlega lausn málsins, um það sem við ætlum að leggja til til að leysa það vegna þess að við berum á því ábyrgð og það sem nágrannaríki okkar ætla að leggja til í þeim leiðangri. Það er gríðarlega brýnt að nágrannaþjóðir okkar sýni skilning og staðfesti skilning sinn á því hversu gríðarlegt verkefni þetta er fyrir íslenska þjóð með því að þar séu sett takmörk við því hversu miklar endurgreiðslubyrðar sé hægt að leggja á Ísland eða endurskoðunarákvæði ef rýrara fæst úr eignunum en ráð var fyrir gert eða ófyrirsjáanlegir atburðir verða eins og að neyðarlögin verði vefengd eða eitthvað slíkt, varnaglar til að hér verði ekki bundnir þeir baggar sem við ekki getum borið.