136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemdir við nokkur stóryrði sem komu fram í máli hv. þingmanns áðan og er ekki alveg innstæða fyrir. Í fyrsta lagi sagði hv. þingmaður að þetta mál hefði verið rekið án samráðs við þing jafnt í aðdraganda sem og frágangi. Ég vil taka fram að það er alrangt. Ítrekað hefur verið rætt um þetta mál í þingsölum undir ýmsum liðum jafnt í fyrirspurnum og í utandagskrárumræðu.

Á vettvangi utanríkismálanefndar hefur þetta mál verið rætt og það er auðvitað hinn rétti vettvangur fyrir mál um viðkvæma samninga við önnur ríki á meðan þau standa yfir. Þar hefur þetta ítrekað verið rætt og kynnt hvernig málið hefur þróast. Allar aðgerðir stjórnvalda hafa verið kynntar mjög nákvæmlega. M.a. voru þessi umsömdu viðmið kynnt þar áður en frá þeim var gengið við Evrópusambandið þannig að það er ekki hægt að halda því fram, virðulegi forseti, að ekki hafi verið haft um þetta samráð við þing. Þvert á móti var þetta rætt við utanríkismálanefnd. Henni var kynnt þetta í samræmi við 24. gr. þingskapalaga áður en gengið var frá samningnum. Hér er því beinlínis rangt með farið og ég taldi rétt að þetta kæmi fram.

Hv. þingmaður sagðist telja að Ísland hefði fullveldisrétt til þess að leggja þetta mál fyrir dómstóla. Ég ítreka það sem ég sagði áðan í ræðu minni. Ekkert ríki sem á í deilu við annað ríki á sjálfstæðan rétt á að fara með mál fyrir dómstóla heldur þarf samþykki beggja. Þetta er grundvallarregla þjóðaréttar. Þess vegna fóru t.d. þorskastríðin eins og þau fóru vegna þess að við féllumst aldrei á að fara með landhelgisdeiluna fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag eins og Bretar kölluðu eftir. Hvað er hv. þingmaður þá að segja? Að íslensk stjórnvöld hafi þarna verið algjörlega úti á þekju og hefðu átt að fara með allt málið fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag? Það hefði nú verið upplit á hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra, Lúðvíki Jósefssyni, ef hann hefði fengið að heyra þessa lögskýringu. (Gripið fram í: Það væri nú betra að hann væri hér.)