136. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[01:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ekki er undarlegt þó að menn séu farnir að blanda saman málum í ræðustól þegar klukkan er korter gengin í tvö og hér hefur staðið yfir heilmikil umræða í allan dag um þingsályktunina og fleiri mál. Margir hafa tekið til máls og ég vil þakka fyrir ágæta umræðu. Mörg sjónarmið og spurningar hafa komið fram en tíminn sem ég hef til að svara er mjög takmarkaður. Ég ætla að reyna að halda sæmilegum þræði í því sem ég segi en bið þingmenn að virða mér til vorkunnar (Gripið fram í.) ef það tekst ekki nógu vel.

Við verðum að hafa í huga þegar við fjöllum um Icesave-reikningana að bankaútibúin í Bretlandi og Hollandi höfðu sömu stöðu og bankar á Íslandi og þeir sem lögðu fé sitt inn á reikninga þar sömu stöðu og fólk sem lagði peninga inn á reikninga á Íslandi. Réttarstaðan var alveg sú sama þar til kom að hruninu og allir þessir aðilar áttu að geta gengið að því sem vísu að á bak við innstæður þeirra væru innlánstryggingar í sjóði — þar til kom að hruninu. Þá ákváðum við með neyðarlögunum, til þess að tryggja það að hér yrði yfirleitt bankastarfsemi í landinu, að flytja öll innlend innlán inn í nýju bankana og skilja hitt eftir í gömlu bönkunum og láta þá, ef svo má segja, sigla sinn sjó. Við ákváðum að gera það.

Það losar okkur ekki undan allri ábyrgð gagnvart því sem eftir varð í gömlu bönkunum. Bent hefur verið á að þetta væri eins og að skilja útibúið á Raufarhöfn frá nýjum banka sem yrði settur upp hér í Reykjavík. Þetta var gert með tilvísun til neyðarástands en var nauðsynlegt til þess að hér yrði yfirleitt til einhver innlend bankastarfsemi í landinu og íslenskir innlánseigendur hafa aðra stöðu en erlendir í þessu tilliti. Þetta er tilvísun til neyðarástands. En eins og ég segi, undanskilur það okkur ekki allri ábyrgð gagnvart þeim sem lögðu inn á reikninga í útibúunum í Bretlandi.

Við höfum fært þau rök í málinu og vísað bæði til tilskipunar Evrópusambandsins og þeirra laga sem gilda um innlánstryggingar að þær næðu til þess þegar einstaka bankar fara á hliðina en ekki þegar heilt fjármálakerfi fer á hliðina og fyrir því má færa ágæt rök. En auðvitað hlýtur maður að velta fyrir sér hver eigi að borga brúsann? Er það fólkið sem lagði inn á reikninga útibúanna í Bretlandi eða eru það bresk stjórnvöld? Af hverju ættu þau að bera skaðann frekar en við? Engin sérstök rök eru fyrir því að einhver annar en við eigi að bera skaðann. Þetta voru útibú á vegum íslenskra banka, rekin í Bretlandi, og fólk lagði í góðri trú inn í þau og við getum ekki vísað allri ábyrgð frá okkur. Við höfum fært þau rök að tilskipunin og lögin geri ekki ráð fyrir þessu en við höfum ekki haft erindi sem erfiði í málflutningnum. Eins og komið hefur fram er enginn sammála okkur hvað þetta varðar (Gripið fram í.) og m.a. hafa þessi 27 Evrópusambandsríki sem og EES-ríkin sagt tilskipunina gilda með sama hætti á Íslandi og alls staðar annars staðar og enginn hafi dregið það í efa nema Íslendingar.

Til þess að við fáum úr málinu skorið fyrir dómstólum, eins og við höfum reynt að gera, þurfa báðir deiluaðilar að fallast á það að senda málið í dómstólameðferð, annar aðilinn getur ekki farið með málið fyrir dómstóla. Engu máli skiptir hvort um er að ræða Evrópudómstólinn eða Alþjóðadómstólinn í Haag, samþykki beggja deiluaðila um slíka málsmeðferð verður að liggja fyrir. Ekki er verið að taka af okkur réttinn, ef svo má segja, heldur er viðurkennt þegar um deilur að þjóðarétti er að ræða að báðir aðilar verða að samþykkja að fara með málið fyrir dómstóla.

Evrópusambandsríkin hafa einfaldlega ekki viljað fallast á það vegna þess að þau telja að enginn vafi leiki á þessu, tilskipunin hafi verið í gildi síðan 1994 og aldrei risið neinn ágreiningur um hana. Enginn hefur dregið í efa að tilskipunin gildi með sama hætti alls staðar og þar af leiðandi eru ríkin ekki tilbúin til að fallast á rök okkar. Það er staðan sem við erum í og það sem gerðist. Og menn spyrja hvað hafi breyst hjá okkur. Í fyrsta lagi breyttist það að upphaflega höfðu Bretar farið fram á að við ábyrgðumst ekki bara lágmarksgreiðsluna í breskum útibúum heldur miklu hærri upphæðir og það vildum við auðvitað ekki gera. Hitt sem breyttist var að á fundi fjármálaráðherranna í Brussel kom upp hugmynd um að setja upp sáttanefnd með fimm löglærðum aðilum frá EFTA, ESA, framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins, Ráðherraráðinu og Seðlabanka Evrópu. Hugmyndin var að niðurstaða nefndarinnar væri bindandi, en fyrir hvorugan aðilann hefði verið gott að binda sig í því máli og Evrópusambandið hefur í rauninni ekki heimild til að hlíta slíkum bindandi úrskurði. Það breytti ekki því að lögfræðiálitið sem kom út úr þessu var okkur í óhag.

Þetta er veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir og við þær aðstæður komumst við að þeirri niðurstöðu að ekki sé annað í málinu en að leita pólitískra lausna og semja um málið, fyrst og fremst við Breta og Hollendinga. Það sem við fáum fram í viðmiðunum sem við höfum sameinast um er að sérstakt tillit verði tekið til þeirra aðstæðna sem hér ríkja og að þessi ríki séu tilbúin til að hafa það í huga í lánveitingum sínum til okkar. Það getur komið fram í lánstíma, í því hvernig endurgreiðslum er háttað og hvert eigi að vera hlutfall t.d. endurgreiðslna. Það getur komið fram í vöxtunum, í því að þetta geti komið til sérstakrar skoðunar ef tilskipuninni hjá Evrópusambandinu verður breytt og menn komast að þeirri niðurstöðu að innlánstryggingarsjóðirnir geti ekki einskorðast við einstök þjóðríki heldur þurfi að vera sameiginlegir á þessu sameiginlega svæði þar sem fjármálastofnanir vinna. Allt þetta hlýtur auðvitað að koma til skoðunar.

Sumir hv. þingmenn hafa haldið því fram hér í umræðunni að þetta hafi farið leynt og verið eitthvert leyndarmál og þingmenn hafi ekki verið upplýstir um þetta. Ég vil leyfa mér að mótmæla því vegna þess að a.m.k. tvisvar hefur þetta verið kynnt mjög ítarlega í utanríkismálanefnd. Ég gerði það m.a. á föstudegi, sama dag og ríkisstjórnarfundur var haldinn þar sem fjallað var um þetta. Þann tiltekna föstudag vonuðumst við til þess að málið yrði til lykta leitt í samningaviðræðum og biðum fram á kvöld eftir því að niðurstaða fengist og höfðum vonast eftir að geta gert grein fyrir henni á þeim degi en það tókst ekki. Það var ekki fyrr en seint á laugardegi sem niðurstaða fékkst í málið og sagt var frá henni á sunnudegi. Ekki hefur því staðið á því að halda fólki upplýstu um málið. Ég sagði að tvisvar hefði verið komið inn í utanríkismálanefnd og staða samningaviðræðnanna verið kynnt, en það hefur líklega verið þrisvar.

Í umræðunni hefur líka komið fram og verið spurt út í hvaða tenging sé á milli þessa máls og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hvaða skilyrði setti sjóðurinn og af hverju tók hann málið í gíslingu? Skýringin er sú að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti það sem skilyrði að áður en hann gæti afgreitt umsókn frá okkur yrði búið að klára lánsfjármögnunina. Sjóðurinn ætlaði að koma með tiltekinn hluta og svo þurftum við að ná hinu í tvíhliða samningum. Við náðum ekki lokafjármögnuninni í Evrópu á meðan við höfðum ekki leitt Icesave-deiluna til lykta vegna þess að Evrópusambandsríkin, Svíþjóð, Danmörk og Noregur — sem er EES-ríki — voru ekki tilbúin til að tryggja okkur lánsfé í IMF-áætlunina nema við leystum fyrst þessa tilteknu deilu. Þannig hanga málin saman. Ekki var hægt að loka fjármögnun Alþjóðagjaldeyrissjóðsáætlunarinnar nema með lánum í gegnum tvíhliða samninga við Evrópusambandsríkin og þau voru ekki tilbúin til að lána okkur nema Icesave-deilan væri til lykta leidd.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki getað svarað nema litlum hluta af þeim spurningum og sjónarmiðum sem hér hafa verið sett fram í dag. Mér þykir það miður en tími minn er bara búinn en ég verð að vonast til að hægt sé að leita svara við þessu inni í utanríkismálanefnd þegar málið fer þar til umfjöllunar eða þá hér í síðari umræðu um málið.