Náttúruverndaráætlun 2009--2013

Mánudaginn 08. desember 2008, kl. 18:18:58 (1879)


136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[18:18]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Mig langar í örfáum orðum að fara yfir þá þingsályktunartillögu sem hæstv. umhverfisráðherra hefur lagt fram, sem er náttúruverndaráætlun fyrir árin 2009–2013. Það er margt ansi athyglisvert í þessari áætlun og mörgu af því sem fram kemur í áætluninni þurfum við að hrinda í framkvæmd.

Mig langar samt sem áður að nefna það hér, eins og kom reyndar fram í framsögu hæstv. ráðherra, að þessi áætlun byggir á verndun. Það kom fram jafnframt í máli ráðherra að verið væri að vinna að rammaáætlun 2009 eða rammaáætlun 2 — hún hefur jafnan gengið undir því heiti — sem er um nýtingu á vatnsafli og jarðvarma. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt við vinnu umhverfisnefndar sem nú fer í hönd eftir hátíðarnar að reyna að tengja þessa tvo þætti saman þannig að það megi verða sem best sátt í okkar samfélagi um verndunina og nýtinguna.

Jafnframt má benda á að náttúruverndaráætlun 2004–2008 varðar auðvitað landeigendur. Það er gríðarlega mikilvægt og nauðsynlegt að sjálfsögðu að landeigendur viðkomandi lands eða landsvæða sem um ræðir séu með og taki þátt í þeirri náttúruverndaráætlun sem um ræðir þannig að þeir sjái sér hag í því að vera með og láta þessar áætlanir ganga sem best eftir.

Við sem stundum eru kölluð hér þeir aðilar sem vilja nýta auðlindirnar, orkuna á Íslandi til atvinnuuppbyggingar, til gjaldeyrissköpunar — það er þannig með þann hóp fólks að það er oft og tíðum ekkert síðri náttúruverndarsinnar en aðrir. Við viljum bara ná fram sátt milli þessara tveggja aðila um að það megi nýta náttúruauðlindir landsins sem best en jafnframt þarf að huga að vernduninni á þeim svæðum þar sem það er nauðsynlegt.

Ég vil jafnframt benda á varðandi þær áætlanir sem við erum að samþykkja á Alþingi að náttúran sjálf er kannski sá þáttur sem hefur mest áhrif á framgang hinna ýmsu vistkerfa og þeirra aðstæðna sem skapast. Í þessari náttúruverndaráætlun sem hér liggur fyrir er talað til dæmis um friðun á Langasjó og lagt til, og það hefur margoft verið rætt um það, að leggja hann undir Vatnajökulsþjóðgarð. En ég vil minna á að Skaftá rann á fyrri tíð í gegnum Langasjó og þar hafa orðið þær breytingar í umhverfinu að nú rennur Skaftá ekki gegnum Langasjó og þar hefur myndast gríðarlega fallegt svæði sem Langisjór er í dag.

En það er ekki víst að það verði ekki frekari breytingar á hálendi Íslands sem geta breytt þeirri miklu náttúrufegurð sem nú er. Við þurfum að hafa þetta í huga þegar við vinnum að þeim áætlunum sem hér liggja fyrir.

Ég vil taka undir orð formanns umhverfisnefndar. Nú hefur þetta mál verið lagt fyrir þingið og umhverfisnefnd fer að vinna málið og það verður bara ánægjulegt að fá tækifæri til þess að taka þátt í þeirri vinnu og mega freista þess að ná sátt milli nýtingar og verndunar hvað þetta varðar.