Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 16:52:42 (1966)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

verslun með áfengi og tóbak.

209. mál
[16:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak sem snúa að álagningu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi og tóbak. Breytingarnar taka mið af áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5035/2007, frá 17. nóvember 2008, sem fjallar um fyrirkomulag álagningar á áfengi og tóbak hjá ÁTVR.

Niðurstaða umboðsmanns er sú að núgildandi lagaumhverfi heimili ekki að álagning ÁTVR sé ákveðin með þeim hætti sem nú er gert. Í kjölfarið hefur umboðsmaður beint þeim tilmælum til fjármálaráðherra að hugað verði að því að endurskoða fyrirkomulag álagningar ÁTVR og að kanna hvort nauðsynlegt sé að leggja til á vettvangi Alþingis að núgildandi ákvæðum laga nr. 63/1969 verði breytt í kjölfar álitsins.

Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er styrkari stoðum skotið undir núverandi framkvæmd álagningar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi og tóbak. Ekki er því um efnislegar breytingar að ræða að því undanskildu að lagt er til að sama álagning verði á áfengi í reynslusölu og á öðru áfengi. Að auki er með frumvarpinu lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins geti innheimt sérstakt þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem leiðir af töku nýrrar vöru til sölu.

Frumvarpið miðar að því að lögin öðlist þegar gildi.

Verði frumvarpið að lögum er áætlað að það muni ekki leiða af sér aukin kostnað fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.