Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 11. desember 2008, kl. 16:48:51 (2136)


136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

stjórn fiskveiða.

207. mál
[16:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 280, 207. mál en þar er um að ræða breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Breytingarnar snúa annars vegar að því að lagt er til að framlengdur verði gildistími ákvæðis til bráðabirgða I í lögunum sem veitir ráðherra heimild til að úthluta tilteknum hluta heildarafla til áframeldis í þorski. Hins vegar er lagt til í frumvarpinu að framlengdur verði gildistími ákvæðis til bráðabirgða V í lögum um frest aðila til að ráðstafa krókaaflahlutdeild, þannig að hún rúmist innan tiltekinna marka sem sett eru í 2. og 3. mgr. 13. gr. laga í lögum um stjórn fiskveiða.

Ljóst er að miklar væntingar eru bundnar við eldi á sjávarfiski og því nauðsynlegt að styrkja frekari tilraunir á því sviði. Er því í 1. gr. frumvarpsins lagt til að heimild þessi fyrir ráðherra til úthlutunar þorskeldiskvótans verði framlengd til loka fiskveiðiársins 2014/2015 eða um fimm fiskveiðiár. Með því móti verður kleift að efla frekari tilraunir og marka stefnu til lengri tíma sem er nauðsynlegt í þessari atvinnugrein.

Þá er í frumvarpinu lagt til að frestur aðila til að ráðstafa krókaflahlutdeild, þannig að hún rúmist innan settra marka, verði lengdur um þrjú ár eða til 1. september 2012. Ástæða þess að þetta er lagt til er sú, að vegna sérstakra aðstæðna í íslensku efnahagslífi um þessar mundir og öllum eru ljósar er mjög erfitt að fjármagna viðskipti með krókaflahlutdeildir og því lítill markaður fyrir þær. Þeir aðilar sem enn eru yfir tilsettum mörkum eiga þannig takmarkaða möguleika til þess að komast undir tilskilin mörk. Með því að fresta gildistöku umrædds bráðabirgðaákvæðis er aðilum veittur frekari aðlögunartími. Vænta má að sá frestur geri þeim kleift að komast undir tilsett mörk eftir að markaður fyrir krókaflahlutdeildir hefur opnast að nýju.

Gert er ráð fyrir að ákvæði laganna öðlist þegar gildi. Ákvæði a-liðar 1. gr. mun hins vegar koma til framkvæmda þegar gildistími ákvæðis til bráðabirgða I rennur út þann 1. september 2010, eða við upphaf fiskveiðiársins 2010/2011, og ákvæði 2. gr. þegar gildistími ákvæðis til bráðabirgða V rennur út þann 1. september 2009 eða við upphaf fiskveiðiársins 2009/2010.

Hæstv. forseti. Ég tel mikilvægt að mál þetta fái framgang og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og umfjöllunar hjá hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.