Fjárlög 2009

Mánudaginn 15. desember 2008, kl. 12:58:30 (2269)


136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:58]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að tekjuáætlunin á að liggja fyrir í 3. umr. Hins vegar er um svo mikla gjörbyltingu á fjárlagafrumvarpinu og gjaldahlið þess að ræða frá því það kom til 1. umr. að það hefði verið í takt við góð vinnubrögð að tekjuáætlunin lægi fyrir til að hægt væri að fjalla um þau mál.

Varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég sagði að það hefði ekki endilega þurft en samningur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og skilmálar hans var eini valkosturinn sem stillt var upp af hálfu ríkisstjórnarinnar. Margir hagfræðingar og sérfræðingar hafa bent á að það hefði átt að skoða aðrar leiðir.

Það sem ég gagnrýni var og er að ekki voru skoðaðar aðrar leiðir eða samsetning á öðrum möguleikum heldur farið alfarið og eingöngu í faðm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (Forseti hringir.) og krafna hans.