Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Þriðjudaginn 16. desember 2008, kl. 15:41:42 (2401)


136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:41]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að sú breyting sem hér er lögð til varðandi ráðstöfun á söluhagnaði af Símanum breyti ekki því að það var rétt að selja það fyrirtæki á þeim tíma sem það var gert. Það frumvarp sem forveri minn, Halldór Ásgrímsson, flutti á sínum tíma um ráðstöfun þess fjármagns var hins vegar umdeilanlegra, það var umdeilanlegt hvort það ætti að setja um söluhagnaðinn sérstök lög vegna þess að þrátt fyrir þau þurfti á hverju ári að veita fé samkvæmt þeim lögum eins og þarf með allar ráðstafanir fjár úr ríkissjóði.

Öll árin sem liðin eru síðan höfum við þurft að ráðstafa fénu öðruvísi en gert var ráð fyrir í þessum lögum. Núna horfum við náttúrlega framan í gjörbreyttar aðstæður og þá er hreinlegast, í stað þess að breyta lögunum eða hverfa frá þeirri stefnu sem mörkuð var í lögunum á ári hverju, að fella lögin úr gildi. Það breytir þó ekki því að peningarnir sem fengust fyrir Símann hafa nýst okkur vel og koma nú til annarra nota en þessara. Það breytir heldur ekki því að öll verkefnin sem voru í þessum lögum sérstaklega tilgreind verða áfram aðnjótandi fjárveitinga úr ríkissjóði og í öll þessi verkefni verður ráðist þó að það verði ekki gert með nákvæmlega sama hætti og þau lög gerðu ráð fyrir.

Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns vil ég af því tilefni segja við hann að ég hef ekki svar á reiðum höndum varðandi matvælaverðið og áhrif þessara breytinga á búvörusamningum á það verðlag. Það er eðlilegt að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd kanni það sérstaklega.