Fjáraukalög 2008

Þriðjudaginn 16. desember 2008, kl. 20:52:22 (2452)


136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[20:52]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú þarf hæstv. fjármálaráðherra að tala skýrar. Í fyrsta lagi vil ég segja að það veldur mér vonbrigðum að hann skuli leyfa sér að firra sig ábyrgð í þessu máli með þeim hætti sem hann virðist gera í andsvari sínu. Í öðru lagi vil ég að hann svari því hvaða nefnd hann er að tala um. Er hann að tala um nefndina sem gerði Breiðavíkurskýrsluna sem liggur hér fyrir á þskj. 683 í máli 429 frá síðasta þingi? Eða er hann að tala um einhverja aðra nefnd sem hafi gert tillögu að þessari upphæð við hæstv. ráðherra?

Ég tel að hæstv. ráðherra þurfi að skýra hér betur um hvaða nefnd hann er að tala og ég óska líka eftir því að fá að sjá með hvaða hætti gert er ráð fyrir að kostnaður skiptist, þ.e. annars vegar til þeirrar nefndar sem á að meta þá vistmenn sem koma til greina við bótagreiðslurnar og hins vegar til bótagreiðslnanna sjálfra.

Ég tel upplýsingarnar sem koma fram í texta frumvarpsins ófullnægjandi.