Fjáraukalög 2008

Þriðjudaginn 16. desember 2008, kl. 21:23:18 (2457)


136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[21:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þessar skýringar séu ónákvæmar hvað varðar ísbjörninn. Kostnaðurinn var meiri en þar kemur fram og ég skal gera ráðstafanir til að það verði útskýrt betur í hv. nefnd.

Varðandi vatnslögnina til Vestmannaeyja er þetta framlag til Vestmannaeyjabæjar til að Vestmannaeyjabær geti síðan vegna þessa framlags tryggt það að vatnskostnaður í Vestmannaeyjum verði ekki óheyrilega hár og langt umfram það sem annars staðar gerist.

Varðandi síðan spurningar hv. þingmanns um færslurnar er það álitamál frá þessu ríkisbókhaldslega sjónarmiði hvar beri að færa þann kostnað sem á okkur hefur fallið að undanförnu eða mun falla á okkur fyrirsjáanlega eða líklega, þá kannski helst vegna bankanna. Þó að við tölum um þá eins og þeir séu fallnir eru þeir ekki orðnir gjaldþrota. Og þótt það sé búið að stofna þessa nýju banka er ekki enn þá ljóst hvert eiginfjárframlagið þarf að vera og það er ekki gert ráð fyrir því að það verði innt af hendi fyrr en á næsta ári og þegar mat á bönkunum hefur farið fram verður ljóst hvert framlagið er.

Það eru enn þá spurningarmerki í þessu og við erum að vinna úr þeim. Eins og fram hefur komið hér áður í kvöld munum við væntanlega verða með fullmótaðar tillögur um það áður en afgreiðslu þeirra tveggja frumvarpa sem við höfum rætt hér í dag og í gær lýkur.