136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[15:31]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka umfjöllun hv. félags- og tryggingamálanefndar um þetta frumvarp. Það er ekki langt síðan það kom inn í þingið og nefndin hafði því ekki langan tíma til að fjalla um málið en ég sé á nefndarálitinu að nefndin hefur sett fram þetta álit samhljóða, þ.e. þeir nefndarmenn sem voru við afgreiðslu málsins en þar var ekki viðstaddur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem m.a. hefur gert athugasemdir við þetta frumvarp og lagt fram ýmsar spurningar, líkt og aðrir þingmenn, aðallega þó hv. þm. Jón Magnússon.

Mér finnst fullkomlega eðlilegt að við þessar aðstæður í þjóðfélaginu komi þingmenn hér upp, ræði stöðuna og leggi fram ýmsar spurningar um t.d. ákvæði og beitingu öryggisákvæðis sem hér hefur mikið verið rætt um. Ástandið á vinnumarkaðnum er þess eðlis að það er fullkomlega eðlilegt að um það sé spurt.

Þetta frumvarp kveður á um að við lengjum aðlögunartímann sem við beittum áður, hann er lengdur í þrjú ár, til 2012, og við getum síðan framlengt þann aðlögunartíma til 2014. Þetta er það sem við leggjum til í þessu frumvarpi. Ég tel mikilvægt þegar við ræðum frumvarpið núna, hvaða tillögur eru lagðar til og hvernig þetta var árið 2006, sem mönnum hefur orðið tíðrætt um, þegar við heimiluðum fleiri ríkjum frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks, að menn hafi í huga hvernig þessar ákvarðanir eru teknar. Þær eru aldrei teknar einhliða af félagsmálaráðherra eða ríkisstjórn, hvort beita skuli aðlögunarákvæðum, heldur fer samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins yfir málið, leggur mat á stöðuna á vinnumarkaði og leggur síðan fram afstöðu sína til þess hvort beiti eigi aðlögunarákvæðum. Það var t.d. gert 2006 og um það hefur verið rætt hvort eðlilegt hefði verið að beita þá þessum ákvæðum gagnvart þessum átta ríkjum. Þá voru aðilar vinnumarkaðarins ásamt ríkisstjórninni og þá félagsmálaráðuneytinu samhljóma í því að það skyldi vera með þeim hætti að heimila frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins í þeim ríkjum sem þá var ákveðið að veita frjálsa för hingað til landsins.

Það eru ekki sambærilegir tímar núna og voru 2006 eins og hv. þm. Jón Magnússon hefur komið inn á. Við beittum þessu ákvæði ekki þá og við getum ekki snúið því til baka þó að einhverjir teldu það æskilegt núna og farið að beita einhverjum aðlögunarákvæðum. Það er hreinlega ekki heimilt gagnvart EES-samningnum að beita þeim núna gagnvart þessum ríkjum sem var heimiluð frjáls för 2006.

Margir hafa haldið því fram, og margir með réttu, að koma útlendinga hingað til lands á vinnumarkaðinn á uppgangstímum hafi stuðlað verulega að auknum hagvexti hér á landi. Er ég sammála því en ég legg líka áherslu á að við hefðum átt að búa okkur miklu betur undir komu útlendinga á þennan vinnumarkað okkar en við gerðum á þessum árum. Ég tel að verulega hafi verið úr því bætt frá árinu 2006, m.a. höfum við sett lög um starfsmannaleigur og þjónustuviðskipti, sett hefur verið áætlun að því er varðar innflytjendur og nú eru í undirbúningi lög um innflytjendur. Þetta hefðum við auðvitað átt að gera miklu fyrr.

Nú óskaði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson eftir því við félagsmálaráðuneytið — nefndin stóð öll að því að beina ákveðnum fyrirspurnum til félags- og tryggingamálaráðuneytisins, ekki síst varðandi beitingu hins almenna öryggisákvæðis 112. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, og ég tel að félagsmálaráðuneytið hafi svarað því mjög ítarlega og rökstutt það af hverju við beitum þessu aðlögunarákvæði núna og af hverju við förum ekki í það að beita þessu öryggisákvæði 112. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Ég tel að það hefði ekki verið skynsamlegt við þær aðstæður sem núna eru uppi í samfélaginu, einmitt núna, að beita 112. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, einfaldlega vegna þess að þó að atvinnuástandið sé slæmt á okkar mælikvarða og stefni í aukið atvinnuleysi, kannski 7–7,5% í janúar, erum við engu að síður með hliðstætt atvinnuleysi og er í mörgum löndum. Ég undirstrika að við eigum að vera vel á verði með aðilum vinnumarkaðarins, fylgjast vel með þróuninni og sjá hvort á einhverjum tímapunkti sé ástæða til að beita þessu öryggisákvæði 112. gr. sem ég tel ekki rétt að gera á þessu augnabliki.

Af hverju tel ég ekki rétt að gera það? Vegna þess að það getur haft ákveðnar afleiðingar í för með sér. Ég veit ekki til þess að þessu öryggisákvæði hafi verið beitt annars staðar, en það kemur fram í svari sem félags- og tryggingamálaráðuneytið sendi félags- og tryggingamálanefnd hvaða afleiðingar það gæti haft ef gripið yrði til þess að beita öryggisráðstöfunum samkvæmt 112. gr. samningsins. Ég ætla að lesa orðrétt upp, með leyfi forseta:

„Hefði það því í för með sér að meginreglur um frjálsa för um Evrópska efnahagssvæðið giltu ekki tímabundið hvað Ísland varðar. Jafnframt skal hafa í huga að öðrum aðildarríkjum er heimilt að grípa til gagnaðgerða ef öryggisráðstöfun veldur misvægi milli réttinda og skyldna samkvæmt samningnum.“

Þó að við getum beitt þessu ákvæði einhliða er áhættan sem við erum að taka sú að önnur ríki muni beita okkur gagnaðgerðum og þá er hætta á að það hefði áhrif á frjálsa för Íslendinga til þessara landa. Þetta held ég að við verðum að hafa í huga. Af því að hér var vikið að þessu öryggisákvæði sem fylgdi upptöku EES-samningsins man ég eftir því að það var mikið rætt. Ég var ein af þeim sem treystu mjög á þetta öryggisákvæði sem er í samningnum og taldi mikilvægt fyrir okkur að hafa slíkt öryggisákvæði til að grípa til ef ástæður væru til. Ég man alveg eftir umræðunni og að margir horfðu mjög til þessa ákvæðis.

Mér fannst menn tala um að túlkunin á þessu væri eitthvað þrengri núna en var áður. Ég tel að svo sé ekki. Hverjir taka ákvörðun um að beita þessu ákvæði? Mér fannst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson líta þannig á að félagsmálaráðherra gæti einhliða ákveðið að beita þessu öryggisákvæði, en hér er um það afdrifaríkt ákvæði að ræða að það yrði aldrei gert einhliða af félags- og tryggingamálaráðherra. Ef því yrði á annað borð beitt yrði það gert í fullu samráði við aðila vinnumarkaðarins og slík ákvörðun yrði ekki tekin nema að undangengnu slíku samráði og með samþykki aðila vinnumarkaðarins um að aðstæður væru með þeim hætti að ástæða væri til að beita þessu mikilvæga ákvæði. Það yrði skoðað sérstaklega í utanríkisráðuneytinu og einnig auðvitað í ríkisstjórninni allri ef grípa ætti til þess.

Sú greinargerð sem þeir þingmenn sem hafa rætt hér hafa væntanlega haft aðgang að — að vísu á Jón Magnússon ekki sæti í félagsmálanefnd en hann hefur auðvitað fullan aðgang að svari okkar í félags- og tryggingamálanefnd þar sem við fórum m.a. yfir aðstæður núna á íslenskum vinnumarkaði og hvers vegna við teldum ekki rétt að beita þessu ákvæði núna. Ég tel ekki ástæðu til að fara yfir það og lesa það bréf en ég held að það svari fullkomlega ýmsum þeim spurningum sem hér hafa komið fram.

Staðan núna á íslenskum vinnumarkaði að því er varðar útlendinga er að þeir voru 17–18 þús. þegar mest var en í árslok er búist við að þeim hafi fækkað niður í 10 þús.

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað að þetta er mikilvægt ákvæði sem við eigum að skoða grannt ef aðstæður versna mjög á vinnumarkaði en við verðum að hafa það í huga hvaða afleiðingar það hefur að beita þessu ákvæði.