Endurskipulagning Fjármálaeftirlitsins

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 13:36:03 (2516)


136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

endurskipulagning Fjármálaeftirlitsins.

[13:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég lýsi fullum skilningi á þeirri stöðu sem upp kom við setningu neyðarlaganna þegar settir voru inn í skilanefndir á tveimur sólarhringum 15 einstaklingar til að taka við þessu vandasama verkefni. En síðan eru liðnar 10 vikur og enn eru í skilanefndunum — og það er búið að skipta um a.m.k. fjóra af þessum 15 einstaklingum — 13 af 15 sem rekja má beint til starfa í bönkunum, til starfa fyrir bankana eða til starfa hjá endurskoðunarskrifstofum sem nú vinna fyrir bankana og/eða unnu fyrir þá.

Það er alveg ljóst að þessi vinnubrögð Fjármálaeftirlitsins, að spyrja nefndarmenn í skilanefndunum hvort þeir telji sig hæfa, dugir ekki. Fjármálaeftirlitið nýtur ekki trausts þegar það vandar ekki (Forseti hringir.) vinnubrögð sín betur. Ég tel að það eigi að skipta um starfslið þar.