136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra -- endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[10:50]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það dróst upp úr hv. þm. Ögmundi Jónassyni að þau forréttindi eða réttindaávinnsla sem hann vill að verði afnumin sé meiri en nemur því sem aðrir hafa í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það er bara ekki rétt hjá hv. þingmanni og hann veit það, hann veit að hann er að segja ósatt. Hann segir ósatt vegna þess að hann vill hafa þetta mál sem pólitískan ávinning fyrir sinn flokk. (Gripið fram í: Það er rétt.)

Réttindaávinnsla fyrir 4% iðgjald er 1,9%. Alþingismenn greiða 5% af launum sínum í iðgjald og fá þá alveg jafnmikið í ávinnslu eða 2,375%. Það er hægt að lækka þessi 5% niður í 4%, þá er þetta sama. Þetta eru nákvæmlega sömu réttindi, þó að einu leyti frábrugðin þ.e. að þeir sem borga í A-deild LSR og eru farnir að taka út lífeyri sinn geta aflað sér annarra tekna án þess að það skerði lífeyrinn. Það mun ekki eiga við um alþingismenn. Þær lífeyrisgreiðslur verða skertar vegna annarra tekna. Það er sérregla sem gildir um engan annan í þjóðfélaginu og ég spyr, virðulegi forseti: Hvers vegna á jafnrétti hv. þm. Ögmundar Jónassonar bara að gilda á þennan veginn? Af hverju á ekki hið sama að gilda um alþingismenn að þessu leyti og alla aðra í þjóðfélaginu?

Hann svaraði því ekki í gær. Hann heldur áfram í dag að segja ósatt. Hann er í þeim pólitíska leik að reyna að breiða út ósannindi um kjör alþingismanna af því að hann heldur sig hafa einhvern ávinning af því að tala niður stöðu alþingismanna. Það eru fleiri en hann sem leika þennan ljóta leik og menn eiga að fara að hætta því og fara að segja satt, virðulegi forseti, um þessi mál og hætta að skrökva, hv. þm. Ögmundur Jónasson.