Kolvetnisstarfsemi

Föstudaginn 19. desember 2008, kl. 23:34:20 (2734)


136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[23:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðallega bregðast við tvennu í máli hv. formanns iðnaðarnefndar og framsögumanns nefndarálitsins. Það er í fyrsta lagi athugasemd um málsmeðferð vegna þess að hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna kolvetnisstarfsemi eins og það er orðað. Hér er verið að gera tillögu um breytingu á sex lagabálkum. Þar af er í raun aðeins einn sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið á meðan fimm heyra undir umhverfisráðuneytið.

Þetta er fyrst og fremst athugasemd um vinnubrögð og ekkert síður má beina þessu til forseta Alþingis úr því að hann er sestur hér í forsetastól að löggjöf sem heyrir undir marga málaflokka sérstaklega eins og hér stendur á þar sem obbinn af þeim breytingum sem verið er að leggja til heyrir undir aðra nefnd en þá sem fékk málið til umfjöllunar þá vil ég leyfa mér að gera athugasemdir við þann tíma og þá möguleika sem hv. umhverfisnefnd hefur haft til þess að fjalla um þetta mál og þær lagabreytingar sem heyra undir þá nefnd. Ég hefði talið að menn þyrftu að huga aðeins að breytingum á vinnubrögðum þegar svona háttar til og vil leita eftir viðbrögðum hv. formanns iðnaðarnefndar við þessu atriði.

Hitt er svo að því er varðar skipulagsþátt málsins því hér leggur nefndin til að breytingarnar sem fyrirhugaðar voru á skipulags- og byggingarlögunum falli allar brott. Þá leyfi ég mér að spyrja hvernig nefndin sér þá fyrir sér skipulagi þessa svæðis fyrir komið eða er ekki meiningin að það verði unnið neitt skipulag af svæðinu áður en það fer í það ferli sem er gert ráð fyrir að verði farið af stað með hér eftir áramótin? Mér finnst alla vega mikilvægt að fá það fram í þessari umræðu hvernig nefndin sér það fyrir sér.