Kolvetnisstarfsemi

Föstudaginn 19. desember 2008, kl. 23:48:35 (2742)


136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[23:48]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil strax í upphafi að það komi skýrt fram að þingmenn Vinstri grænna styðja náttúrufarsrannsóknir, hafa gert það í öllum þeim tilvikum sem ég þekki til og munu væntanlega gera áfram. Við leggjum mjög mikla áherslu á grunnrannsóknir á náttúru Íslands og þegar þrengir að fjárhagslega er það auðvitað spurning um forgangsröðun.

Hæstv. ríkisstjórn hefur forgangsraðað þannig í rannsóknum hjá Veðurstofu Íslands og hvað varðar skipulagsþáttinn í stjórnsýslunni hjá Umhverfisstofnun að hún hefur skorið niður framlag til olíuleitar á Drekasvæðinu, annars vegar framlag til veðurfarsrannsókna og hins vegar framlag til að styrkja stjórnsýsluþátt Umhverfisstofnunar og Veðurstofu Íslands.

Herra forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti mínu í hv. iðnaðarnefnd. Ég vil byrja á því að vekja athygli á því að klukkuna vantar nú 9 mínútur í miðnætti. Það er 19. desember, á morgun er 20. desember. Enn er ekki búið að afgreiða fjárlög fyrir næsta ár. Fjáraukalög hafa heldur ekki verið afgreidd. Þetta tengist því kannski að bankarnir hrundu og 6. október voru sett neyðarlög og hefur það sett mark sitt á öll störf þessa þings. Við höfum í dag rætt ítarlega afleiðingarnar af þessu og þær ráðstafanir sem hæstv. ríkisstjórn grípur til. Við höfum gagnrýnt að 10 þúsund kr. verða teknar um hver einustu mánaðamót af 90% lífeyrisþega í landinu út allt næsta ár. Við höfum gagnrýnt að 1.100 millj. kr. eru sóttar í nýja sjúklingaskatta. En allt þetta, bankahrunið, kreppan, nýir sjúklingaskattar, álögur á almenning, atvinnumissir og tekjutap, yfirvofandi gjaldþrot heimila og nauðungarsölur, hreyfir ekki við hæstv. iðnaðarráðherra. Hann veit ekki af þessu. Þess vegna skiptir höfuðmáli korteri fyrir jól að þröngva í gegn illa unnu, illa undirbúnu og vanreifuðu máli — um hvað? Um leit og vinnslu á olíu og jarðgasi á Drekasvæðinu. Ég vil nefna, herra forseti, strax í upphafi að ég get ekki kallað olíu og gas kolvetni. Ég fæ — ég vil viðurkenna það — hálfgerðan aumingjahroll í hvert skipti sem það er gert vegna þess að þetta er svo mikið rangnefni. Hins vegar vannst ekki tími til að ræða það í hv. iðnaðarnefnd, það lá svo mikið á að taka málið úr nefndinni að ekki náðist einu sinni að ræða það. Ég er með tillögur um hvernig má breyta þessu og ég hyggst gera grein fyrir þeim á eftir og ég mun óska eftir því, herra forseti, að málið verði tekið aftur fyrir í nefnd milli 2. og 3. umr. meðal annars vegna þess og fleiri tillagna til breytinga sem ég hefði viljað koma á framfæri í málinu.

Ég vil líka gagnrýna að málið var tekið út úr nefndinni eftir að þingfundur hafði verið settur á Alþingi. Þess vegna gekk ég út. Óheimilt er að halda nefndarfundi á meðan á þingfundi stendur og því gekk ég út og hafði því ekki tækifæri til að koma að tillögum mínum til breytinga og bóta á þessu ágæta frumvarpi.

Hér ræðum við sem sagt frumvarp sem tekur til breytinga á einum sex lagabálkum sem varða svokallaða kolvetnisstarfsemi, þ.e. leit, rannsóknir og vinnslu á jarðolíu og jarðgasi í efnahagslögsögunni. Þetta eru nokkrir lagabálkar sem allir nema einn heyra undir umhverfisráðuneytið. Sá eini sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið eru lög sem fyrst voru sett 2001 en var breytt talsvert með lögum nr. 49/2007, um sama efni, sem varða jarðolíu og jarðgas í efnahagslögsögunni.

Í nefndaráliti á þskj. 403 kemur fram að minni hlutinn telur að breytingarnar sem frumvarpið tekur til og varða skipulagsmál, brunavarnir og mengunarvarnir hefðu með réttu átt að vera á forræði umhverfisráðuneytisins og umhverfisnefndar þingsins sem því miður var einungis veittur umsagnarréttur þar um. Ég gerði athugasemd við þetta strax við 1. umr. málsins og tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að þetta eru ekki vinnubrögð sem eru til bóta í störfum þingsins. Ég tel að sú ráðstöfun að veita umhverfisnefnd einungis umsagnarrétt um þessa stóru lagabálka sé óásættanleg, enda kom í ljós að umhverfisþættir málsins eru mjög vanreifaðir og illa undirbúnir af frumvarpshöfundum, sem eðlilega komu úr iðnaðarráðuneyti.

Mat minni hlutans er að hér sé fremur farið fram af kappi en forsjá og enda þótt þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu í meðförum nefndarinnar séu til hins betra, hefði nefndin að ósekju mátt leggja meiri vinnu í þær og vinna þær í náinni samvinnu við aðrar nefndir þingsins til að fá betri niðurstöðu. Engin haldbær rök hafa komið fram um nauðsyn þess að afgreiða frumvarpið fyrir jólahlé og það held ég að hæstv. forseta þingsins eigi að vera ljóst enda þótt hér sé sett á 2. umr. á þessum ókristilega tíma. Það eina sem hefur verið gefið upp um það er yfirlýsing ráðuneytisins eftir að fulltrúar ráðuneytisins höfðu verið þráspurðir í hv. iðnaðarnefnd um af hverju lægi svona mikið á, af hverju Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að mynda var aðeins veitt innan við vika í umsagnarfrest um málið. Af hverju lá svona mikið á? Svarað var að búið væri að „tilkynna“ að leyfi til olíuleitar á svonefndu Drekasvæði verði boðin út 15. janúar. Það hafði verið tilkynnt. Það er nefnilega það. Ég vildi óska, herra forseti, að allar þær ákvarðanir og tilkynningar sem hafa verið gefnar út nú á haustmánuðum og fyrr, fengju nú staðist. En því miður er því ekki svo farið í íslensku þjóðlífi í dag, því miður. En þessu má ekki hagga og það er mjög eftirtektarvert. Ég tel að þrýstingur af því tagi sem kom fram frá hv. iðnaðarráðuneyti á vinnu þingnefndar sé mjög ómálefnalegur og að mínu áliti rakalaus. Ljóst er einnig að ná hefði mátt betri sátt um lausn ágreinings, sem frumvarpið vissulega kveikti og hv. formaður iðnaðarnefndar kallaði draug áðan, með víðtækara samráði og meiri vinnu en hinn knappi tímarammi ráðuneytisins leyfði.

Við skulum líka átta okkur á því, herra forseti, að hraðinn við þessa afgreiðslu er ekki í neinu samræmi við þann veruleika sem við blasir og vandséð er að olíuvinnsla hefjist á Drekasvæðinu eða annars staðar í lögsögu Íslendinga fyrr en eftir nokkur eða jafnvel allmörg ár. Minni hlutinn hvetur til þess í nefndaráliti að menn gæti hófs í yfirlýsingum sínum og kyndi ekki um of undir væntingar um skjótfenginn gróða af olíuiðnaði og mikinn fjölda starfa sem honum kunni að fylgja.

Ég vil einnig nota tækifærið og minna á ábyrgð Íslendinga í umhverfismálum, ekki síst hvað varðar lofthjúp jarðar og breytingar á honum. En sú ábyrgð verður að vera í fyrirrúmi þegar teknar eru ákvarðanir sem varða orkuvinnslu og orkunýtingu til langs tíma og ég minni á að Íslendingar eru samábyrgir varðandi umhverfisvernd á heimskautasvæðum gegnum Norðurheimskautsráðið en hér er einmitt fjallað um olíuvinnslu eða gasvinnslu í Norður-Íshafinu. Stjórnvöld mega nefnilega ekki missa sjónar á mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa og sjálfbærri nýtingu þeirra þótt olíuvinnslufyrirtæki utan úr heimi, hugsanlega frá Rússlandi og Kína, banki upp á og vilji auka framleiðslu sína með samstarfi við Ísland um rannsóknir á landgrunninu. Minni hlutinn tekur undir það í nefndarálitinu að ekki sé sjálfgefið að Íslendingar leggi út á þær brautir að bora eftir olíu á botni Norður-Íshafsins og ákvörðun um útboð á leyfum til slíks hefði þurft mun ítarlegri umfjöllun en tímapressan frá iðnaðarráðuneytinu leyfði.

Herra forseti. Hér er rætt frumvarp um auðlindir í sameign þjóðarinnar. Það er eins og ætíð mjög vandmeðfarið hvernig hagsmuna eigendanna, þ.e. almennings, skuli gætt, bæði hvað varðar leyfisveitingarnar sem slíkar, framsal á nýtingu auðlindarinnar og gjaldtöku fyrir nýtinguna. Minni hlutinn gerir í áliti sínu ekki athugasemdir við þær breytingar sem eru gerðar á gjaldtökuheimildum fyrir leyfi til rannsókna í 11. gr. en bendir þó á að í stað þess að taka stighækkandi gjald gæti ríkið myndað eignarhluta í slíkum fyrirtækjum. Ábendingar um þetta komu fram í umræðum þegar lögunum var breytt síðast í mars 2007 og aftur núna í 1. umr. en ekki gafst tóm til þess í hv. iðnaðarnefnd að ræða það.

Ég vil vekja athygli á 5. gr. frumvarpsins þar sem er nýmæli sem heimilar ráðherra að stofna til hlutafélags til að gæta hagsmuna ríkisins á olíu- og/eða gasvinnslu. Í frumvarpinu er tekið mið af norska ríkishlutafélaginu Petoro AS sem ólíkt StatoilHydro tekur ekki beinan þátt í olíuvinnslu. Þessi leið til að gæta hagsmuna Íslands við olíuvinnslu er ekki einboðin og minni hlutinn bendir á hinn mikla og óumdeilda ávinning Norðmanna af uppbyggingu norska ríkishlutafélagsins StatoilHydro en Norðmenn stýrðu frá upphafi olíuvinnslu sinni í farveg sem miðaði að því að byggja upp þekkingu og aðkomu innlendra aðila að rannsóknum og vinnslu olíu. Þar í landi hafa menn ekki verið feimnir við að beita ríkisvaldinu til að tryggja að í höndum Norðmanna sjálfra yrði til öflugur iðnaður á því sviði. Danir á hinn bóginn völdu að fara aðra leið þegar þeir framseldu réttindi sín í Norðursjó til einkaaðilans Mærsk. Í Danmörku hefur þess vegna ekki byggst upp viðlíka iðnaður og þekking sem í Noregi. Þetta eru atriði sem hefðu þurft nánari skoðunar við í nefndinni sem og félagsformið en til þess gafst einfaldlega ekki tóm.

Ég verð að segja að það kom þeirri sem hér stendur algerlega í opna skjöldu þegar skyndilega var boðaður fundur í hádegishléi í hv. iðnaðarnefnd til þess að taka málið út. Það hafði ekki verið boðað. Þvert á móti hafði þarsíðasta fundi nefndarinnar lokið undir því fororði að reynt yrði að athuga hvort ekki mætti vinna þetta mál betur eftir áramótin.

En þrátt fyrir þennan knappa tímaramma og þrátt fyrir þau handarbaksvinnubrögð sem vissulega voru viðhöfð við undirbúning málsins er ljóst að í meðförum nefndarinnar urðu ágætar breytingar á frumvarpinu og veitti þar ekki af. Ég vil í því sambandi sérstaklega nefna aðkomu hv. þm. Bjarkar Guðjónsdóttur sem kom með mjög margar og góðar ábendingar sem fengu vinnslu og frágang sem breytingartillögur. Um þær var samstaða í nefndinni.

Þar vil ég nefna fyrst og fremst þá leið Norðmanna að tryggja í norskum lögum að þjónusta við þá sem leita að, rannsaka eða vinna jarðolíu eða jarðgas fari fram frá höfn í Noregi. Ákvæði þessa efnis var tekið inn í breytingartillögur og var samstaða um það í nefndinni. Þar er m.a. átt við áhafnaskipti og annað þess háttar en það hafði hv. iðnaðarráðuneyti láðst að athuga við undirbúning málsins. Þessa breytingu tel ég mjög til bóta og alveg sjálfsagða.

Í meðförum nefndarinnar var einnig litið til fordæmis Færeyinga sem stofnað hafa menntunar- og rannsóknarsjóð með framlögum frá olíuleitarfyrirtækjum. Þar um var einnig samstaða í nefndinni að rétt væri að fara svipaða leið hér á landi. Sú sem hér stendur telur það til mikilla bóta en hefði samt kosið, og kom því á framfæri í nefndinni, að slíkum fjárframlögum væri ætlað að renna til þess að efla rannsóknarsjóði, rannsóknarstofnanir og háskóla sem fyrir eru. En um það náðist ekki samstaða í nefndinni og það var í rauninni lítið rætt að öðru leyti en því að hv. formaður iðnaðarnefndar sagði: Ég er bara algerlega ósammála. Og þar sem var málið útrætt.

Stærsti hluti frumvarpsins hins vegar sem komið hefur fram fjallar um lög sem eru á forræði umhverfisráðuneytis. Þar er um að ræða útvíkkun á starfsemi ýmissa eftirlitsstofnana sem fara með skipulagsmál, mengunarvarnir og brunavarnir.

Það er auðvitað ljóst að rannsóknir og vinnsla á jarðolíu og jarðgasi geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á lífríki úthafsins sem og lífríki strandsvæða. Það er mjög mikilvægt að lög um hollustuhætti og mengunarvarnir taki til þeirrar starfsemi sem hér er fjallað um en einnig til flutnings jarðolíu og unninnar olíu í efnahagslögsögunni. Á það skortir að mínu mati. Sama á í rauninni við um ákvæði laga um brunavarnir en þó var bent á það í meðförum nefndarinnar að Brunamálastofnun hafi ekki þvingunarúrræði gagnvart þeim aðilum sem hér um ræðir og fá leyfi til þess að rannsaka eða vinna olíu eða gas.

Minni hlutinn gerir í áliti sínu ekki athugasemdir við þessi atriði að öðru leyti en því að það hefði farið betur á því að fjalla um andrúmsloftið, þ.e. taka einnig til mengunar í lofti, ekki aðeins í hafi og hafsbotni en til þess vannst ekki tími í nefndinni. Eins og ég hef áður sagt var mikill hraði og mikil pressa á vinnu nefndarinnar.

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram vörðuðu helstu athugasemdir sem nefndinni bárust aðkomu Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna. Vegna þeirra tillagna sem gerðar voru um skipulag, útgáfu framkvæmdar- og byggingarleyfa og eftirlit, vegna þess litla undirbúnings annars vegar og þess kapps hins vegar sem iðnaðarráðuneytið lagði á að hraða afgreiðslu málsins gafst nefndin í rauninni upp fyrir því verkefni að breyta skipulags- og byggingarlögum þannig að þau tækju til olíuvinnslu eða leitar.

Það var í rauninni skipt um hest í miðri á og í tillögu meiri hluta nefndarinnar er öllum ákvæðum sem lúta að þessum atriðum einfaldlega kippt út úr frumvarpinu og þessu efni vísað til frekari vinnu í iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti. Þeirri vinnu á að ljúka fyrir 1. janúar 2010. Minni hlutinn telur algerlega ófullnægjandi að sveitarfélögum og ráðuneytum sveitarstjórnarmála skuli ekki tryggð bein aðkoma að þeirri vinnu. Vil ég nú rökstyðja með nokkrum orðum.

Þannig háttar að Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisvaldið hafa um árabil deilt um forræði á skipulagi strandsvæðanna. Lögsaga sveitarfélaganna til skipulags nær samkvæmt núgildandi lögum aðeins á haf út innan netlaga, það er 115 metrar frá stórstraumsfjörðuborði. Það segir sig sjálft, eins og hv. formaður iðnaðarnefndar nefndi áðan, það skiptir sveitarfélögin mjög miklu hvaða starfsemi og framkvæmdir það eru sem leyfðar eru uppi í landsteinum. Þær geta haft mjög víðtæk áhrif eins og dæmin sanna, ekki aðeins frá fiskeldi sem hv. formaður iðnaðarnefndar nefndi, heldur einnig frá efnistöku. Við horfum upp á mjög mikla landeyðingu og skemmdir í Kollafirðinum og með Hvalfirðinum vegna mjög mikillar efnistöku rétt utan við landsteinana.

Sveitarfélögin sem sendu inn umsagnir sem og Samband íslenskra sveitarfélaga en fulltrúar þeirra komu á fund nefndarinnar lögðust eindregið gegn ákvæðum frumvarpsins um breytingar á skipulagslögum. Þeir töldu að með því væri verið að festa í sessi mjög umdeilt atriði sem verið hefur í nefnd, væntanlega á vegum félagsmálaráðuneytis upphaflega en ætti að vera komið núna á forræði samgönguráðuneytis. En frá árinu 2002 hefur þessi nefnd starfað án þess að nokkur niðurstaða hafi þar fengist.

Sveitarfélögin hins vegar hafa lagt fram aðra tillögu og gerðu það á fundi hv. iðnaðarnefndar 10. desember síðastliðinn. Sú tillaga byggir á norsku fordæmi og er þess eðlis að sveitarfélag hafi forræði til skipulags með ströndum þannig að skipulagssvæðið nái til þess hafsvæðis sem er innan einnar sjómílu utan við grunnlínupunkta. Það þýðir að allir flóar og firðir og vogar yrðu þveraðir og sveitarfélögin fengju aðkomu. Það væri skipulagsskylt á sama hátt og er með land.

Þetta tel ég mjög góða tillögu og var ekki annað að skilja á mönnum í hv. iðnaðarnefnd en að svo væri. Hins vegar lá svo mikið á að koma þessu máli frá að það var ekki einu sinni hægt að óska eftir umsögnum formlega um þessa tillögu, hvað þá að kalla fyrir nefndina fulltrúa frá samgönguráðuneyti sem fer með málefni sveitarstjórna í landinu til þess að fá uppgefið hvar vinna nefndarinnar væri stödd.

Ég gagnrýni í nefndaráliti minni hlutans að ekki skuli einu sinni hafa gefist tími til þess að leita álits Sambands íslenskra sveitarfélaga eða ráðuneytis sveitarstjórnarmála um þá niðurstöðu sem meiri hluti nefndarinnar komst að sem er að Orkustofnun skuli leita umsagnar viðkomandi sveitarfélags eða sveitarfélaga ef leyfi berst um leit eða vinnslu á olíu eða gasi innan við eina sjómílu utan við netalög. Þetta er auðvitað allt önnur hugmynd og hugsun en sú sem sambandið lagði fram um eina sjómílu utan grunnlínupunkta.

Eins og segir í nefndaráliti mínu, herra forseti, er þetta algerlega ófullnægjandi niðurstaða að mati minni hlutans og hann harmar að ekki gefist tími til þess að leita álits Sambands íslenskra sveitarfélaga eða ráðuneytis sveitarstjórnarmála um þetta atriði.

Ég hlýt að gera grein fyrir lokaorðum í þessu áliti mínu en þar er ítrekað að minni hlutinn telur að málið sé ekki fullunnið, að þrýstingurinn frá iðnaðarráðuneytinu sé ekki í samræmi við þær kröfur sem verið er að gera til vandaðrar vinnu í nefndum þingsins. Ég bendi á að málið varðar ekki aðeins iðnaðarnefnd heldur einnig umhverfisnefnd, samgöngunefnd og efnahags- og skattanefnd sem enn hefur ekki lokið umfjöllun um það sem til hennar heyrir í þessu efni.

Þessar nefndir hefðu þurft að fá tóm til þess að fara yfir málið í sameiningu. Ég óskaði eftir því sérstaklega bæði hér við umræðu og eins í hv. iðnaðarnefnd en við því var ekki orðið. Ég bendi á að þing mun væntanlega koma saman 12. janúar á nýju ári. Víst er að sú sem hér stendur telur að ekki verði héraðsbrestur þótt fyrirhugað útboð á olíuleitarleiðum dragist um einn mánuð eða svo því að hér er ekki verið að tjalda til einnar nætur, samanber reynslu Færeyinga af olíuleit á sínu landgrunni sem hefur staðið nú um allmörg ár.

Minni hlutinn vill freista þess að fá málinu breytt á milli umræðna og mun óska eftir því að það verði tekið inn í nefndina á milli umræðna og að það verði unnið þar með þeim hætti að þingið hafi af því fullan sóma. Leitað verði umsagna frá sveitarfélögunum við þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu.

Ég vil að lokum, herra forseti, fjalla nokkuð um notkun orðsins „kolvetni“ í þessu sambandi. Í daglegu tali og í orðabókum tekur þetta orð, kolvetni, til sykra sem er sérstakur efnaflokkur sem tengist næringarfræði og er væntanlega að finna einnig í lögum um matvælafræði eða matvælaiðnað.

Þannig er að orðið kolvetni var nú kannski ekki mjög þekkt eða algengt í málinu fyrir nokkrum árum þangað til Atkinskúrinn svokallaði hélt innreið sína í landið. Þá fór annar hver maður — eða á ég kannski að segja kona — að afla sér upplýsinga um kolvetni og áhrif þeirra á meltingu og holdafar. Nokkuð hefur verið fjallað hér um aðkomu fyrrverandi ríkissáttasemjara, Ásmundar Stefánssonar, að bankakrísunni á vegum forsætisráðherra en sá ágæti maður gaf einmitt út ágæta bók um svokallaðan Ásmundarkúr sem fjallaði um kolvetnissnautt fæði.

Ég sagði áðan að ég fengi hálfgerðan aumingjahroll í hvert skipti sem þetta rugl kemur hér upp á borð vegna þess að það er varla til nokkuð ólíkara en efnaflokkurinn sykrur, sem ég get uppfrætt hv. þingmenn um að skiptast í einsykrur, tvísykrur og fjölsykrur og tek fram að ég hef kennt þennan efnaflokk sem og reyndar hinn, olíur og gös, jarðolíur og jarðgös, við Menntaskólann í Reykjavík. Ég hefði svo gjarnan viljað óska eftir því að hv. iðnaðarnefnd hefði gefið sér tíma til þess að breyta þessu orðalagi. Ég hef lagt mig í framkróka um að kalla eftir umsögnum og athugasemdum við það atriði frá þar til bærum aðilum, frá íslenskri málnefnd og Stofnun Árna Magnússonar, frá Háskóla Íslands, Raunvísindastofnun og afla upplýsinga þar um á vísindavefnum. Þar ber allt að sama brunni, sem sagt að ekki megi rugla saman efnaflokkum sem nefnast kolvetni og á ensku heita „carbohydrates“ eða „karbóhýdröt“ eins og þetta var nú kallað á íslensku annars vegar og hins vegar „vetniskol“ sem á ensku eru „hydrocarbons“.

Herra forseti. Þetta er nú kannski smæsta atriðið í þeim athugasemdum sem ég hef við þetta frumvarp og varðar aðallega vinnubrögð sem eru bara ekki boðleg. Við getum staðið hér og sagt að brýna efnahagslega nauðsyn beri til þess að taka ákvarðanir í skyndi, að taka ákvarðanir á næturfundum, að taka ákvarðanir eins og gert var með neyðarlögunum. En, herra forseti, fyrir þessu er bara engin afsökun. Maður hlýtur að spyrja hvort það geti verið hégómleikinn einber sem ræður því að þinginu gefst svona snautlegur tími til þess að fjalla um þetta stóra mál.

Við höfum orðið vör við það í þingsölum undanfarna daga að hæstv. iðnaðarráðherra kallar sjálfan sig olíumálaráðherra. Það kann að vera skýringin. Þess vegna nefni þetta hégómleika og spyr hvort það geti ráðið hér för. Ef svo er þykir mér það nú enn verra en annað.