Fjáraukalög 2008

Mánudaginn 22. desember 2008, kl. 16:11:19 (2923)


136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[16:11]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar að á síðustu árum og áður en skólarnir komu yfir til menntamálaráðuneytisins, hafi þeir safnað umtalsverðum halla. Skólarnir eru fámennir, kostnaðurinn mikill og rannsóknir miklar enda merkilegt starf sem á sér þar stað á mörgum sviðum þannig að í nokkur ár var ekki tekið á rekstrarvanda háskólanna.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni og flestum hér inni að auðvitað vil ég sjá meira fjármagni varið til menntamála og rannsókna, það hefur verið stóraukið á síðustu árum. En við þurfum bæði að huga að breyttum tímum og rekstri hverrar stofnunar fyrir sig

Ég nefni sem dæmi að fyrir nokkrum árum, þremur árum, ræddum við í þingsal, m.a. hv. þingmaður, vandamál Háskólans á Akureyri. Tekið var á þeim málum. Farið var í rekstrarumbætur og í dag stendur skólinn mun betur en áður. Það var sársaukafullt en við fórum í það og í dag höfum við m.a. halaklippt skólann af því að við sjáum raunhæfar áætlanir liggja fyrir um stjórnun og stefnumótun skólans.

Það sama má segja um Háskólann á Hólum. Það er engin tilviljun að við setjum nú 170 millj. til viðbótar til Háskólans á Hólum. Það er vegna þess að fyrir liggja áætlanir um hvernig hægt er að styrkja kjarnastarfsemina á Hólum og við munum, ef aðilar eru sammála, tengjast þeim í grasrótinni mun betur, tengja Bændasamtökin og fleiri hagsmunaaðila mun betur við skólann á Hólum. Þetta á eftir að gera enn betur með Landbúnaðarháskóla Íslands. Ljóst er að við munum þurfa að taka á málum hans með það í huga að koma rekstrinum í lag og til að styrkja starfsemina þar, sem er merkileg fyrir margra hluta sakir. Þannig að það er af og frá að verið sé að leggja til að koma fram með tillögu sem stuðli að því að starfinu á Hvanneyri verði hætt, síður en svo. Það dugar hins vegar ekki, herra forseti, að setja fjármagn í svona starfsemi án þess (Forseti hringir.) að menn átti sig á hvert skuli haldið til lengri tíma litið.