Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 5. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 5  —  5. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að stofna samvinnu- og efnahagsráð Íslands.

Flm.: Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Magnús Stefánsson, Birkir J. Jónsson, Bjarni Harðarson, Höskuldur Þórhallsson.


    Alþingi beinir því til forsætisráðherra að koma á fót samvinnu- og efnahagsráði um efnahagsmál sem vettvangi stjórnmálaflokka og helstu hagsmunaaðila til að ræða og leita leiða til að styrkja íslenska atvinnuvegi og efnahag þjóðarinnar til frambúðar. Í ráðinu skulu sitja forystumenn allra þingflokka, þ.e. formenn og varaformenn, ásamt fulltrúum atvinnulífs, launþega, sveitarfélaga, fjármálafyrirtækja og Bændasamtaka Íslands.

Greinargerð.


    Íslenskt efnahagslíf glímir nú við mjög mikla erfiðleika. Þessir erfiðleikar stafa að talsverðu leyti af áföllum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Margt bendir hins vegar til þess að þeir stafi einnig að hluta til af sérstökum aðstæðum í íslensku efnahagslífi og efnahagsstjórn sem ekki hefur tekið nægilegt tillit til þessara aðstæðna.
    Afar brýnt er að tekið verði á þessum efnahagsvandkvæðum af festu og ákveðni. Jafnframt eru vandkvæðin svo djúptæk og víðfeðm að á þeim verður ekki fundin viðunandi lausn nema þjóðin í heild taki höndum saman. Takist það ekki munu afleiðingarnar verða dýpri efnahagskreppa, meiri kjaraskerðing og stærri áföll heimila og atvinnulífs en ásættanlegt er.
    Í ljósi þessara alvarlegu aðstæðna leggja flutningsmenn fram þingsályktunartillögu um að þegar í stað verði myndaður sérstakur samráðsvettvangur sem hafi það verkefni að leita hagfelldustu leiða út úr þeim efnahagskröggum sem þjóðin hefur ratað í. Þann hóp skipi:
     1.      Forystumenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi (formenn og varaformenn).
     2.      Fulltrúar atvinnulífsins.
     3.      Fulltrúar launþega.
     4.      Fulltrúar sveitarfélaga.
     5.      Fulltrúar fjármálafyrirtækja.
     6.      Fulltrúar Bændasamtaka Íslands.
     7.      Fulltrúar sjávarútvegsfyrirtækja.
    Þessum hópi til fulltingis verði:
     1.      Sérfræðingar á sviði efnhagsmála frá Seðlabanka Íslands.
     2.      Sérfræðingar á sviði efnhagsmála frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.
     3.      Aðrir innlendir og erlendir sérfræðingar eftir þörfum hverju sinni.
    Ráðinu verði falið að samræma leiðir út úr efnahagsvandanum og leggja grunn að styrku íslensku efnahagslífi til frambúðar með það að leiðarljósi að styrkja útflutning og framleiðslu atvinnulífsins og þjóðarsparnað. Hlutverk hópsins er fagleg úrlausn þess að ná jafnvægi í þjóðarbúskap Íslendinga og hefja það brýna úrlausnarefni yfir pólitíska togstreitu.
    Ísland er ekki lengur eyland í efnahagslegum skilningi. Með auknu frelsi í flæði fjármagns og vinnuafls milli Íslands og annarra landa eru Íslendingar orðnir virkir þátttakendur í hinu alþjóðlega efnahagslífi. Jákvæðar afleiðingar þessa eru miklar, enda hefur íslenskt efnahagslíf tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum, til hins betra, með auknum viðskiptum, hærri kaupmætti, meiri velmegun og fleiri tækifærum til verðmætasköpunar. Á móti kemur að Íslendingar eru næmari fyrir ástandi og sveiflum á alþjóðlegum mörkuðum en nokkru sinni fyrr. Þessa sjást glöggt merki nú þegar hvert áfallið á fætur öðru dynur á hinu alþjóðlega fjármálakerfi.
    Í því sem hér fer á eftir verður fyrst gerð grein fyrir helstu atburðum sem átt hafa sér stað á erlendum mörkuðum en síðan litið hingað heim og skoðuð áhrif þessara hræringa fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf.

Alþjóðleg fjármálakreppa.
    Síðustu ár og áratugir hafa einkennst af gríðarlegum vexti í fjármálakerfi heimsins. Ástæður þessa eru margar og ólíkar. Falli Sovétríkjanna fylgdu miklar hræringar í Evrópu þar sem margar þjóðir tóku upp markaðshagkerfi að vestrænum hætti, auk þess sem efnahagsveldi ýmissa ríkja í Asíu jókst einnig með aukinni markaðsvæðingu. Þá hafa ýmsar tæknibreytingar, svo sem í fjarskiptum og upplýsingatækni, gert það að verkum að framleiðni hefur aukist. Sökum alls þessa hefur mikið fjármagn verið í umferð og vaxtastig verið mjög lágt á sama tíma og verðbólga í Evrópu og Bandaríkjunum hefur verið lítil.
    Almennt má segja að vandræðin með undirmálslán í Bandaríkjunum marki upphafið að þeim vandræðum sem einkennt hafa fjármálalíf heimsins undanfarið eitt og hálft ár en vandinn virðist reyndar miklu djúpstæðari. Í ljós hefur komið að óvissa varðandi virði margra annara fjármálalegra eigna og -gjörninga var stórum meiri en markaðsaðilar höfðu reiknað með og virði þeirra því minna en talið var, sérstaklega á tímum veikleika í fjármálakerfinu. Þetta olli og veldur enn miklum vandkvæðum í hinu alþjóðlega fjármálakerfi, sem ekki er enn séð fyrir endann á.
    Þegar fjármálastofnanir héldu að sér höndum með lánveitingar brugðust flestir helstu seðlabankar heimsins við með því að auka sjálfir lánsfé í umferð, bæði með því að lána fjármálastofnunum beint og með því að víkka út skilgreiningar á veðhæfni þeirra eigna sem notaðar eru við lánveitingar seðlabankanna til fjármálastofnana. Sumir hinna veigamestu í þeirra hópi, svo sem seðlabankar Bandaríkjanna og Bretlands, lækkuðu jafnframt vexti sína svo um munaði.
    Þrátt fyrir þetta hafa ýmsar meiri háttar alþjóðlegar fjármálastofnanir hins vestræna heims lagt upp laupana. Þeirra á meðal má nefna Northern Rock, Bear Stearns, Lehman Brothers og Merril Lynch. Þegar harðnaði enn á dalnum á íbúðamarkaði í Bandaríkjunum varð ljóst að fasteignalánasjóðirnir Freddy Mac og Fannie Mae gætu ekki staðið við skuldbindingar sína. Þessi fasteignalánasjóðir voru í einkaeigu en nutu ríkisábyrgðar. Bandaríska ríkið tók þessa sjóði að lokum yfir. Einnig greip ríkissjóður í taumana þegar ljóst var að tryggingarisinn AIG riðaði á barmi gjaldþrots. Ríkið lagði 85 milljarða bandaríkjadala til fyrirtækisins og tók yfir tæplega 80% hlutafjársins. Svo stórtækar aðgerðir hafa ekki sést á fjármálamörkuðum í langan tíma. Ástæður þeirra eru þær að þau fyrirtæki og sjóðir sem hér um ræðir eru stærri en svo að hægt sé að láta þau stefna í gjaldþrot. Slíkt hefur alvarlegar afleiðingar fyrir fjármálastöðugleika heimsins. Fjárfestingarbankarnir stóru Morgan Stanley og Goldman Sachs hafa endurskipulagt starfsemi sína og nú fengið leyfi til að starfa sem viðskiptabankar, fyrst og fremst til að geta þannig notið verndar seðlabanka Bandaríkjanna í ríkari mæli.
    Nú liggur fyrir Bandaríkjaþingi frumvarp um 700 milljarða dala stuðning við fjármálakerfið en óvíst er hvernig endanleg útfærsla muni líta út. Á sama tíma hafa seðlabankar í Evrópu, Bandaríkjunum, Japan og víðar reynt að taka höndum saman til að auka lánsfé í umferð og eyða óvissu á mörkuðum.

Horfur í efnahagsmálum Íslendinga.
    Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þeim umbrotum sem átt hafa sér stað á hinum alþjóðlegu mörkuðum. Hér á landi hafa hlutabréfavísitölur fallið um 50–60%, sem er miklu meira en í nágrannaríkjunum, þar sem helstu hlutabréfavísitölur hafa fallið um 10–20%. Aðgangur íslenskra fyrirtækja, banka og ríkisins að lánsfé hefur versnað mjög síðustu missiri sem hefur aftur haft í för með sér að flest fyrirtæki hafa þurft að fjármagna starfsemi sína hér innanlands. Vextir eru hér hins vegar gríðarháir og standa atvinnulífi mjög fyrir þrifum. Þá hefur gengi íslensku krónunnar hríðfallið undanfarin missiri og ekki síst síðustu vikur, sem dregur úr eftirspurn heimilanna og ýtir undir verðhækkanir á aðfluttum neysluvörum. Traust á gjaldmiðli landsmanna er lítið og fer dvínandi. Það eykur enn á rekstrarerfiðleika fyrirtækja. Kaupmáttur heimila hefur þegar minnkað mjög mikið og alls ekki útlit fyrir að það ástand fari batnandi á næstu missirum. Veruleg hætta er á stórauknu atvinnuleysi.
    Samkvæmt nýútkomnum spám greiningadeilda tveggja viðskiptabanka (Landsbanka og Glitnis) má gera ráð fyrir stöðnun á þessu ári og nokkrum samdrætti á hinu næsta. Óvissa í þessum spám er þó mikil. Margt bendir til þess að þjóðin sé nú að sigla inn í djúpa kreppu þar sem ekki er ólíklegt að landsframleiðsla minnki um 5%, kaupmáttur heimila um 5–10%
og atvinnuleysi verði verulegt.
    Við þessar aðstæður er hætta á hruni í fjármálakerfinu (áföllin eru þegar hafin með gjaldþroti eða þroti ýmissa fjármálafyrirtækja og -sjóða). Sérstakur áhættuþáttur sem lítið hefur verið ræddur er húsnæðismarkaðurinn. Nú á sér stað verðlækkun á húsnæði sem dregur niður verðbólgutölur. Frekari verðlækkun á húsnæði gæti haft geigvænlegar afleiðingar í för með sér, bæði fyrir heimilin í landinu og fjármálakerfið. Ef verð húsnæðis lækkar umtalsvert verða veð ófullnægjandi. Það kallar þegar á samdrátt í útlánum bankanna. Verði þeir að leysa til sín húsnæði verða þeir fyrir tapi. Það tap bætist ofan á tap eigenda húsanna sem oft á tíðum missa allt sitt. Afleiðingin er keðjuverkun samdráttar í útlánum og kaupmætti og eftirspurn sem getur rekið hagkerfið niður í enn dýpri myrkur.
    Sjaldan hefur verið brýnna að leggja pólitískar þrætur til hliðar og er tillaga þessi til þess fallin að ná þverpólitískri sátt með mikilsverðu framlagi helstu fjármálasérfræðinga um þá ábyrgð sem fylgir því að skipa forystusveit íslensku þjóðarinnar á Alþingi.