Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 22. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 22  —  22. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar.

Flm.: Árni Johnsen, Lúðvík Bergvinsson, Guðni Ágústsson, Kjartan Ólafsson,


Björk Guðjónsdóttir, Grétar Mar Jónsson, Bjarni Harðarson.



    Alþingi ályktar að skora á samgönguráðherra að fela Siglingastofnun að hefja nú þegar undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar þannig að höfnin geti þjónustað 60–80 þús. tonna skip, allt að 225 metra löng.

Greinargerð.


    Fyrirhuguð er mikil uppbygging í Þorlákshöfn á næstu árum á sviði iðnaðar, stóriðju og matvælaiðnaðar. Því er mikilvægt að íslensk stjórnvöld hafi á takteinum hugmyndir að stærð og gerð hafnar á næstu missirum. Þorlákshöfn er eina þjónustuhöfnin fyrir allt Suðurlandsundirlendið þar sem mjög mikil uppbygging atvinnurekstrar á sér nú stað.
    Árnessýsla og Rangárvallasýsla eru mjög ört vaxandi athafnasvæði og ein hin mesta uppbygging á landinu er í Árnessýslu. Erlend stórfyrirtæki í ýmsum greinum stóriðju standa nú í viðræðum við bæjaryfirvöld í Ölfusi um uppbyggingu þar. Slík uppbygging mun hafa mikla og jákvæða þýðingu fyrir Suðurland og landið allt. Því skiptir miklu máli að geta brugðist við eftirspurninni með stuttum fyrirvara. Nær 100 stór flutningaskip og farþegaskip koma nú þegar árlega til Þorlákshafnar og mikil aukning er fyrirsjáanleg auk alls fiskiskipaflotans sem Þorlákshöfn þjónustar, bæði lítil og stór skip.