Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 43. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 43  —  43. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á aðgengi í gömlu íbúðarhúsnæði.

Flm.: Ellert B. Schram, Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að fela félags- og tryggingamálaráðherra að gera úttekt á mikilvægi þess að bæta aðgengi í gömlu íbúðarhúsnæði á Íslandi svo að fötluðum, öldruðum, barnafólki og öðrum sem þess þarfnast verði gert mögulegt að búa lengur í íbúðum sínum en nú er hægt eða festa kaup á hentugum íbúðum í eldra húsnæði.

Greinargerð.


    Í desember 1993 var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna samþykkt samhljóða tillaga um alþjóðlegar reglur varðandi einstaklinga með hvers konar fötlun. Þessum staðalreglum er ætlað að tryggja öllum sem eiga við einhvers konar hömlun að stríða fulla þátttöku og jafnrétti í daglegu lífi.
    Í reglunum er gerð skýr grein fyrir réttindum, möguleikum og ábyrgð ásamt ákveðnum tillögum um hvernig einstakar þjóðir geta rutt úr vegi ýmsum hindrunum sem verða á vegi einstaklinga sem búa við hvers konar fötlun og á þann hátt náð að skapa aðgengilegt samfélag.
    Hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndum hefur á allrasíðustu árum sprottið upp mikil og vaxandi umræða um aðgengi í gömlu íbúðarhúsnæði. Þegar rætt er um gamalt íbúðarhúsnæði er einkum átt við húsnæði sem byggt var áður en sett voru inn í skipulags- og byggingarlög þessara landa skýlaus ákvæði um aðgengi fyrir alla.
    Lagasetningu um þessi efni var yfirleitt lokið á Norðurlöndum um eða upp úr 1970. Eftir þann tíma má segja að í flestum nýbyggingum sé tekið tillit til aðgengis fyrir alla.
    Umræðan um aðgengismál nú snýst því eins og áður segir að mestu um íbúðarhúsnæði sem byggt var fyrir gildistöku framangreindra laga. Eigendur og rekstraraðilar þessa húsnæðis standa nú frammi fyrir því mikla og vandasama verkefni að gera miklu fleiri íbúðir einnig aðgengilegar fyrir gamalt fólk, hreyfihamlaða og barnafólk þannig að þeir sem þess óska eigi þess kost að búa lengur en ella í rótgrónu og öruggu umhverfi. Fyrir þessu eru ýmis gild rök:
          Gömlu fólki fjölgar mikið. Ekki síst er fjölgunin hröð hjá þeim sem ná mjög háum aldri.
          Vilji mjög margra stendur til þess að búa áfram í íbúðum sínum ef þeim er gert það kleift.
          Þjóðhagslegur ávinningur er sannanlega mjög mikill.
    Verði framangreindar hugmyndir að veruleika gefast möguleikar á að hafist verði handa við margvíslegar aðgerðir til að bæta aðgengi íbúa að íbúðum í gömlu húsnæði á Íslandi. Slíkt er ekki aðeins þjóðfélagslega hagkvæmt heldur tryggir það einnig bætt lífsskilyrði og aukin lífsgæði allra þeirra sem njóta munu góðs af slíkum aðgerðum.