Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 60. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 60  —  60. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skipafriðunarsjóð.

Flm.: Magnús Stefánsson, Atli Gíslason, Guðbjartur Hannesson,


Guðjón A. Kristjánsson, Kristján Þór Júlíusson, Birkir J. Jónsson.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra og menntamálaráðherra að vinna að stofnun skipafriðunarsjóðs. Markmið sjóðsins verði verndun gamalla fiskiskipa.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 135. þingi (236. mál).
    Íslenskt samfélag hefur öldum saman byggst að miklu leyti á útgerð og sjósókn. Saga sjávarútvegsins er um margt merkileg og því afar mikilvægt að vernda sem best það sem honum tengist. Á umliðnum árum hefur nokkurt átak verið gert í þeim efnum og byggð hafa verið upp söfn víða á landinu þar sem mikið er lagt upp úr því að varðveita gömul fiskiskip og annað sem tengist sjósókn og sjávarútvegi. Þá hafa einstaklingar og félagasamtök lagt sig fram um það sama. Ríkissjóður hefur ekki stutt markvisst við þessa uppbyggingu þótt gerðir hafi verið nokkrir samningar við söfn um slík mál. Sem dæmi má nefna endurbyggingu Kútter Sigurfara á Akranesi og Síldarminjasafnið á Siglufirði. Alþingi hefur samþykkt fjárheimildir til endursmíði gamalla fiskiskipa í nokkrum mæli undanfarin ár, einkum vegna frumkvæðis einstakra aðila sem hafa lagt mikið undir við að varðveita gömul fiskiskip. Slíkt er kostnaðarsamt þar sem m.a. þarf að endursmíða gömul og illa farin skip, byggja yfir þau húsnæði til varðveislu o.s.frv.
    Það hlýtur nánast að vera skylduverkefni núlifandi kynslóða að beita sér fyrir varðveislu þessa mikilvæga menningararfs. Nú þegar hefur margt glatast af þessum arfi, mörg fiskiskip hafa þegar orðið tímans tönn að bráð. Hins vegar er mögulegt að bjarga ýmsu og til þess þarf að vinna markvisst að verkefninu.
    Húsafriðunarsjóður hefur unnið að varðveislu gamalla húsa, sem er mikilvægt og virðingarvert, en það er ekki síður mikilvægt að huga að varðveislu fiskiskipa. Til dæmis væri mikilvægt að Þjóðminjasafnið kæmi að því verkefni að varðveita fiskiskip, en þess þarf að gæta að skipin verði varðveitt á þeim stöðum víða um landið þar sem þau hafa verið notuð til sjósóknar.
    Þetta mál þolir ekki mikla bið og mikilvægt er að ríkisvaldið komi myndarlega að verkefninu með markvissum hætti.