Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 91. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 97  —  91. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um gengisjöfnun á námslánum og námsstyrkjum til íslenskra námsmanna erlendis.

Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Árni Þór Sigurðsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að tryggja lífskjör námsmanna erlendis og sjá til þess að þeim verði tryggð gengisjöfnun á námslánum og námsstyrkjum. Í því skyni beiti ráðherra sér fyrir breytingum annars vegar á úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hins vegar á úthlutunarreglum styrkja úr sjóðum á vegum Rannsóknamiðstöðvar Íslands.

Greinargerð.


    Við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífi þjóðarinnar sveiflast gengi íslensku krónunnar gríðarlega og er gengið nú í sögulegu lágmarki. Veldur þetta námsmönnum erlendis miklum þrengingum, sem hægt væri að bæta úr með því að breyta úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) og rannsóknasjóða Rannsóknamiðstöðvar Íslands (RANNÍS) á þann veg að í þeim verði ákvæði um gengisjöfnun. Í tillögu þessari er lagt til að menntamálaráðherra verði falið að tryggja breytingar á úthlutunarreglum þessara sjóða með það að markmiði að kjör námsmanna erlendis verði tryggð og dregið verði úr áhrifum af gengissveiflum.
    Íslenskir námsmenn geta sótt um og fengið lán fyrir framfærslu sinni og skólagjöldum meðan stundað er nám sem telst lánshæft samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, og reglum settum á grundvelli þeirra. Um íslenska námsmenn sem stunda nám sitt erlendis gildir það að LÍN gefur upp tölur yfir grunnframfærslu námsmanna í hverju landi fyrir sig og einnig í stærstu borgunum. Eru þær grunnframfærslutölur settar fram í mynt viðkomandi námslands á grundvelli gengis þann 1. júní ár hvert, þ.e. í júní áður en nýtt skólaár hefst.
    Þegar námsmaður hefur náð tilskildum námsárangri að lokinni skólaönn greiðir LÍN námslán til viðkomandi námsmanns í íslenskum krónum. Þegar greiðslan fer fram er hinni erlendu upphæð sem grunnframfærslan miðast við umbreytt í íslenskar krónur á gengi gjaldmiðils þann dag.
    Til að framfleyta sér á hverri skólaönn hefur viðkomandi námsmaður í flestum tilfellum fengið bankalán sem miðast við þá grunnframfærslu sem upphaflega var gefin upp. Þegar kemur að greiðslu eru allar líkur til þess að gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni hafi tekið verulegum breytingum og annaðhvort gert framfærslu íslensks námsmanns auðveldari eða erfiðari. Vegna þessara sveiflna getur námsmaður staðið uppi með skuld við viðskiptabanka sinn og greiðslan sem koma á til móts við skuldina nær ekki upp í þá fjárhæð vegna breytinga á gengi. Þetta getur valdið námsmönnum miklum erfiðleikum.
    Þetta fyrirkomulag á sér stoð í úthlutunarreglum sjóðsins sem eru gefnar út og endurskoðaðar árlega. * Með þessari tillögu er því beint til menntamálaráðherra að úthlutunarreglurnar verði endurskoðaðar þannig að námsmenn erlendis fái greidd námslán sín í samræmi við framfærslukostnað í námslandi á meðaltalsgengi viðkomandi gjaldmiðils miðað við íslenska krónu á því tímabili sem nám erlendis tekur til. Með þessum hætti telja flutningsmenn að hægt sé að minnka til muna þau óþægindi sem námsmenn í útlöndum verða fyrir vegna gengissveiflna.
    Á það skal auk þess bent að í 3. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna segir að veita skuli framfærslulán sem nægja til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði á meðan á námi stendur. Færa má fyrir því rök að LÍN bregðist því hlutverki sínu ef útborguð lán standa ekki fyllilega undir náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur vegna gengissveiflna. Á þetta hefur hins vegar reynt í úrskurði málskotsnefndar LÍN nr. L-06/2004 þar sem því var hafnað að það fyrirkomulag sjóðsins að greiða út námslán fyrir framfærslukostnaði erlendis í íslenskum krónum á gengi gjaldmiðils þann dag bryti gegn 3. gr. laganna. Er tillaga þessi sett fram til að taka af allan vafa um vilja löggjafans í þessu efni.
    Hér eru einnig lagðar til hliðstæðar breytingar á úthlutun styrkja frá Rannsóknamiðstöð Íslands. RANNÍS hefur á að skipa allnokkrum sjóðum sem stofnunin hefur umsjón með að úthluta úr. Vísinda- og tækniráð, fyrir hönd RANNÍS, veitir og tekur ákvörðun um eftirtalda styrki: styrki úr Rannsóknasjóði, úr Tækniþróunarsjóði, úr Tækjasjóði og úr Rannsóknarnámssjóði. Úr þessum sjóðum eru veittir ýmsir styrkir undir margvíslegum formerkjum. Allt eru þetta styrkir sem ekki þarf að endurgreiða og lúta þeir þannig að einhverju leyti öðrum lögmálum en lán frá LÍN sem eru endurgreidd með vöxtum. Í reglum um úthlutun styrkja á vegum RANNÍS er í öllum tilfellum talað um styrki í íslenskum krónum og ekki koma fram neinar reglur um umreikning styrkja í erlenda mynt ef rannsókn eða rannsóknanám fer fram erlendis.
    Styrktargreiðslur til námsmanna erlendis eru aðallega úr Rannsóknarnámssjóði en hann veitir nemum í rannsóknatengdu framhaldsnámi og nemum í doktorsnámi styrki til framfærslu. Miðar sjóðurinn við að mánaðarlaun meistaranema séu 200 þús. kr. á mánuði í allt að 12 mánuði, samtals 2,4 millj. kr., og greiðslur til doktorsnema nemi um 250 þús. kr. á mánuði í allt að þrjú ár, samtals að hámarki um 9 millj. kr. Ekki eru settar fram sérstakar reglur um greiðslur til nemenda erlendis og ekki miðað við sérstakan framfærslukostnað í erlendri mynt.
    Augljóst er hins vegar að gengissveiflur geta valdið styrkþegum RANNÍS sams konar vandræðum og námsmönnum erlendis sem taka lán hjá LÍN. Því er hér beint til menntamálaráðherra að tryggja breytingar á úthlutunarreglum RANNÍS þannig að sama fyrirkomulag verði haft á greiðslum úr Rannsóknarnámssjóði til námsmanna erlendis og það fyrirkomulag sem lagt er hér til um greiðslur frá LÍN.
Neðanmálsgrein: 1
*     Grein 5.2.2. hljóðar svo: „Námslán eru að jafnaði reiknuð út í mynt viðkomandi námslands. Tekjum og styrkjum er breytt í mynt námslands miðað við gengi 1. júní 2008. Þegar lán eða hlutar þess koma til útborgunar er upphæðinni sem greiða á út breytt í íslenskar krónur miðað við daggengi við útborgun.“