Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 125. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 135  —  125. mál.




Frumvarp til laga



um ábyrgðarmenn.

Flm.: Lúðvík Bergvinsson, Ögmundur Jónasson, Jón Magnússon, Pétur H. Blöndal, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðni Ágústsson, Ágúst Ólafur Ágústsson.



I. KAFLI
Markmið, gildissvið og framsal.
1. gr.

    Markmið þessara laga er að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og að stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar.

2. gr.

    Lög þessi gilda um stofnanir og fyrirtæki sem stunda útlánastarfsemi, þ.m.t. viðskiptabanka, sparisjóði, greiðslukortafyrirtæki, tryggingafélög, lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og Lánasjóð íslenskra námsmanna, þegar veitt er lán eða önnur lánafyrirgreiðsla með því skilyrði að lántaki útvegi ábyrgðarmann til tryggingar efndum.
    Með ábyrgðarmanni er átt við einstakling sem skuldbindur sig persónulega eða með veðsetningu tilgreindra eigna sinna enda sé aðaltilgangur ábyrgðar ekki í þágu hans eigin atvinnurekstrar.
    Ábyrgð er annaðhvort einföld ábyrgð eða sjálfskuldarábyrgð. Sé í ábyrgðarsamningi ekkert tekið fram um hvers konar ábyrgð sé að ræða skal hún álitin einföld.
    

3. gr.

    Lánveitandi skal tilkynna ábyrgðarmanni um framsal réttinda sem reist eru á ábyrgðinni eða láni því sem ábyrgðin stendur til tryggingar á.
    Lög þessi gilda um framsalshafa eftir því sem við á.

II. KAFLI
Stofnun, efni og form ábyrgðarsamninga.
4. gr.

    Lánveitanda ber skylda til að meta hæfi lántaka til að standa í skilum með það lán er ábyrgðar er krafist fyrir. Greiðslumat skal byggt á viðurkenndum viðmiðunum.
    Lánveitandi skal með skriflegum hætti ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar.
    Með sama hætti skal lánveitandi ráða ábyrgðarmanni frá því að undirgangast ábyrgð ef aðstæður ábyrgðarmanns gefa tilefni til.

5. gr.

    Fyrir gerð ábyrgðarsamnings skal lánveitandi upplýsa ábyrgðarmann skriflega um þá áhættu sem ábyrgð er samfara. Í því felst meðal annars að veita upplýsingar um:
     a.      almennar reglur sem um ábyrgðir gilda,
     b.      greiðslugetu lántaka,
     c.      lán það sem ábyrgð er ætlað að tryggja og í hvaða tilgangi það er tekið,
     d.      gildistíma ábyrgðar,
     e.      höfuðstól ábyrgðar, hlutfall eða hámarksfjárhæð sem henni er ætlað að tryggja,
     f.      hvort ábyrgð standi til tryggingar vanskilakostnaði og hvernig hann er reiknaður út,
     g.      tryggingar sem lántaki hefur útvegað hjá öðrum en ábyrgðarmanni og virði þeirra,
     h.      önnur lán lántaka hjá viðkomandi lánveitanda og stöðu þeirra,
     i.      hvort ábyrgðarmaður geti orðið sér úti um ábyrgðartryggingu í stað ábyrgðar,
     j.      leiðir sem ábyrgðarmanni standa til boða til að fá leyst úr ágreiningi vegna ábyrgðar,
     k.      önnur þau atriði sem eðlilegt er að ábyrgðarmaður sé upplýstur um.
    Ábyrgðarmaður á rétt á að fá afhent eintak af ábyrgðarsamningi og lánssamningi sem ábyrgðin stendur til tryggingar á áður en hann gengst undir ábyrgð.

6. gr.

    Ábyrgðarsamningur skal vera skriflegur. Í honum skal getið þeirra upplýsinga sem nefndar eru í 5. gr. og skoðast þær sem hluti samningsins.
    Lánveitandi getur ekki einhliða breytt skilmálum ábyrgðarsamnings, þ.m.t. lánssamnings, ábyrgðarmanni í óhag. Ákvæði þetta gildir þó ekki um breytingar á vöxtum eða eðlilegum kostnaðarliðum sem lánveitandi hefur rétt til að breyta samkvæmt lánssamningi sem ábyrgð stendur í tengslum við.
    

III. KAFLI
Réttarsamband lánveitanda og ábyrgðarmanns.
7. gr.

    Lánveitandi skal senda ábyrgðarmanni tilkynningu skriflega svo fljótt sem kostur er:
     a.      um vanefndir lántaka,
     b.      ef veð eða aðrar tryggingar eru ekki lengur tiltækar,
     c.      um lát lántaka eða að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta,
     d.      um önnur atvik sem breyta forsendum ábyrgðar ábyrgðarmanni í óhag,
     e.      eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir.
    Ábyrgðarmaður verður ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða öðrum vanskilakostnaði lántaka sem fellur til eftir gjalddaga nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni var sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun.
    Lánveitandi getur ekki þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins.

8. gr.

    Ekki verður gerð aðför í fasteign þar sem ábyrgðarmaður býr eða fjölskylda hans ef krafa á rót sína að rekja til persónulegrar ábyrgðar.
    Lánveitandi getur ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi ábyrgðarmanns ef krafa hans á rót sína að rekja til persónulegrar ábyrgðar nema hann geri sennilegt að um sviksamlegt undanskot eigna ábyrgðarmanns hafi verið að ræða.

IV. KAFLI
Takmarkanir á ábyrgð.
9. gr.

    Hafi lánveitandi keypt tryggingu vegna hugsanlegs greiðslufalls lántaka og greiðsluskylda fellur til samkvæmt skilmálum tryggingar takmarkar sú greiðsla ábyrgð ábyrgðarmanns sem nemur þeirri fjárhæð sem greidd er inn á lánið.
    Ef lánveitandi vanrækir að lýsa kröfu í gjaldþrota- eða dánarbú lántaka lækkar krafa á hendur ábyrgðarmanni sem nemur þeirri fjárhæð sem ella hefði fengist greidd úr þrota- eða dánarbúi lántaka.
    Nauðasamningur eða önnur eftirgjöf sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka hefur sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni.

V. KAFLI
Brottfall ábyrgðar eða annarra tryggingarráðstafana.
10. gr.

    Ábyrgðarmaður verður ekki skuldbundinn af ábyrgðarsamningi hafi lántaki aldrei orðið skuldbundinn til að inna greiðslu af hendi samkvæmt samningi við lánveitanda.
    Ef lánveitandi samþykkir að veð eða aðrar tryggingarráðstafanir sem gerðar voru til að tryggja efndir samnings skuli ekki lengur standa til tryggingar, og breytingin hefur í för með sér að staða ábyrgðarmanns er þá mun verri en hún var, er ábyrgðarmaður ekki lengur bundinn af samningi sínum.
    Ef lánveitandi veitir lántaka greiðslufrest er ábyrgðarmaður ekki bundinn af samningi sínum hvað varðar ábyrgð á efndum þeirrar greiðslu nema lánveitandi geti sýnt fram á að gjaldfresturinn hafi ekki haft áhrif á greiðslugetu lántaka.

VI. KAFLI
Reglugerðarheimild.
11. gr.

    Viðskiptaráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd laga þessara.

VII. KAFLI
Gildistaka.
12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta hefur áður verið flutt, síðast á 128. löggjafarþingi, en er nú lagt fram í nokkuð breyttri mynd. Í því er lögð áhersla á vernd ábyrgðarmanna og formfestu og fagleg vinnubrögð við gerð lánasamninga þar sem krafist er ábyrgðarmanna. Finna má þess mörg dæmi úr íslensku viðskiptalífi að forsenda þess að samningar hafi tekist með lánveitendum og lántökum er að þriðji aðili, einstaklingur, hefur endurgjaldslaust tekist á hendur ábyrgð. Afleiðingar slíkra gerninga hafa oft verið mjög íþyngjandi fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild. Á þetta sérstaklega við í tilvikum þar sem ábyrgðarmenn hafa ekki getað tekið upplýsta ákvörðun um þá áhættu sem þeir takast á herðar með því að gangast í persónulega ábyrgð vegna fjárskuldbindinga þriðja manns.
    Það er undirliggjandi sjónarmið í samningarétti að aðilar samnings hafi báðir hag af því að samningur sé efndur eftir efni sínu. Þetta sjónarmið byggist á þeirri forsendu að staða aðila sé jafnsterk við samningsgerð. Ef staða annars er sterkari getur hinn aðilinn haft þörf fyrir aukna vernd til að fyrirbyggja að hann undirgangist ósanngjarna samningsskilmála. Mætti nefna í því samhengi þá aðstöðu þegar einstaklingar kaupa vöru eða þjónustu til persónulegra nota og viðskiptin eru liður í atvinnustarfsemi seljanda. Eru slík viðskipti að jafnaði nefnd neytendaviðskipti og eru í lögum ýmis ákvæði sem ætlað er að treysta réttarstöðu neytandans gagnvart seljanda þegar svo ber undir, sbr. t.d. lög nr. 121/1994, um neytendalán, lög nr. 42/2000, um þjónustukaup, lög nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga, lög nr. 48/2003, um neytendakaup, og að ógleymdri 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
    Frumvarp þetta byggist öðrum þræði á sjónarmiðum um neytendavernd, auk kröfunnar um vönduð vinnubrögð fjármálafyrirtækja. Nauðsyn reglna frumvarpsins birtist m.a. í aðstöðumun sem jafnan er á stöðu ábyrgðarmanna annars vegar og lánveitenda hins vegar. Í flestum tilvikum er öll sérfræðiþekking í lánsviðskiptum hjá lánveitanda og má í því sambandi benda á að nýverið hefur Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna greint frá því að um 16% þeirra sem þangað hafa leitað á árinu 2006 vegna fjárhagsvandræða kenni um vankunnáttu í fjármálum. Þar að auki hafa ábyrgðarmenn yfirleitt engan fjárhagslegan hag af því að gangast í ábyrgð og ástæður þess að þeir gera það er oftar en ekki krafa lánveitenda um auknar tryggingar eða þrýstingur frá fjölskyldumeðlimum, vinum og kunningjum sem erfitt getur verið að standast þar sem afkoma og afdrif lántaka geta verið undir því komin að umbeðin fyrirgreiðsla fáist.
    Aðrar röksemdir fyrir framlagningu frumvarpsins eru þær að ofnotkun ábyrgða er ekki í takti við hugmyndir sem búa að baki hlutafélagaforminu um takmarkaða ábyrgð hluthafa né heldur sjónarmið um að aðili samnings beri eðlilega áhættu af viðsemjanda sínum. Einnig má halda því fram að ábyrgðarfyrirkomulagið samræmist ekki nægilega vel einni af meginreglum veðréttarins um sérgreiningu verðmæta sem leggur bann við allsherjarveðsetningu, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð. Loks má benda á að ekki nýtur við nákvæmra upplýsinga um hvort umfang vanskila sé það mikið að réttlætt geti það sérstaka fyrirkomulag um ábyrgðir sem Íslendingar búa við í dag og sem ekki á sér hliðstæðu í þeim löndum sem Ísland ber sig saman við.
    Íslensk lög hafa ekki að geyma almennar reglur um ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga eða hvernig staðið skuli að slíkri samningsgerð. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa því að mestu mótað eigin reglur um samskipti sín og ábyrgðarmanna. Í skýrslu nefndar frá því í nóvember 1996, sem viðskiptaráðherra skipaði til að fara yfir framkvæmd ábyrgðarveitinga, kemur fram að gera megi ráð fyrir að um 90.000 einstaklingar yfir 18 ára aldri séu í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum þriðja aðila. Það eru um 47% allra Íslendinga á þessum aldri. Í áliti nefndar um réttindi og skyldur í viðskiptum neytenda við fjármálafyrirtæki frá maí 2004 kemur fram að ábyrgðarmönnum í landinu hafi fækkað síðan og séu um 75.000. Ekki nýtur við nýrri upplýsinga um fjölda ábyrgðarmanna.
    Í lok síðustu aldar tíðkuðust ábyrgðir hér á landi í mun meiri mæli en þekktist meðal nágrannaþjóða okkar og til að stemma stigu við ástandinu var fyrir atbeina stjórnvalda gert sérstakt samkomulag milli tiltekinna lánveitenda og Neytendasamtakanna um notkun ábyrgða. Samkomulagið var undirritað á árinu 1998 og var yfirlýst markmið þess að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga og að lánveitingar yrðu miðaðar við greiðslugetu greiðanda og hans eigin tryggingar. Samkomulagið var endurskoðað árið 2001. Í áliti fyrrgreindrar nefndar frá 2004 kemur fram að samkomulagið hafi öðlast viðurkenningu sem almennar leikreglur á lánamarkaði.
    Samkomulagið um notkun ábyrgða hefur eflaust átt sinn þátt í því að ábyrgðum hefur fækkað frá árinu 1996 en aðrir þættir eins og breytt viðhorf almennings, starfsemi Neytendasamtakanna og tilkoma úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki hafa einnig skipt máli. Þá hefur umræða á Alþingi haft talsvert um það að segja að lánastofnanir hafa viljað skoða þessi mál frekar. Eftir sem áður benda tölur um fjölda ábyrgðarmanna frá árinu 2004 til þess að mikið verk sé enn óunnið. Flutningsmenn telja að verulegum árangri verði ekki náð nema með setningu lagareglna um notkun ábyrgða.
    Rauði þráðurinn í frumvarpinu er sá að ábyrgðarmaður skuli vera upplýstur um þá áhættu sem í ábyrgð felst áður en hann gengst undir hana. Slík vinnubrögð eru til þess fallin að styrkja virði þeirra lánasamninga sem lánveitendur gera. Í frumvarpinu er þetta gert með því að skylda lánveitanda til að viðhafa vissa formfestu við undirbúning, stofnun og framkvæmd samninga um ábyrgðir. Nægir í því sambandi að nefna ákvæði frumvarpsins sem snerta greiðslumat lántaka, skriflegan ábyrgðarsamning, tilkynningaskyldu og breytingar á skilmálum ábyrgðar. Þá hefur við samningu frumvarpsins verið tekið tillit til dómsúrlausna á sviði íslensks réttar sem gengið hafa um ábyrgðir, sbr. t.d. Hrd. nr. 163/2005, Hrd. nr. 3/2003 og Hrd. nr. 152/2002. Í Hrd. nr. 163/2005 var sjálfskuldarábyrgð ógilt með vísan til 36. gr. samningalaga þar sem lánveitandi lét undir höfuð leggjast að framkvæma greiðslumat í samræmi við 3. mgr. 3. gr. samkomulags um ábyrgðir og upplýsa að því búnu ábyrgðarmann um slæma skuldastöðu lántaka. Í Hrd. nr. 3/2003 var veðleyfi ógilt með vísan til sömu lagagreinar vegna þess að lánveitandi lét hvorki kanna hinar sérstöku aðstæður ábyrgðarmanns sem var andlega vanþroska né greiðslugetu lántaka. Í Hrd. nr. 152/2002 taldi rétturinn að ábyrgðarmaður sem gefið hafði út víxil til tryggingar á yfirdrætti hefði mátt treysta því að sú yfirdráttarheimild yrði ekki hækkuð án samþykkis hans.
    Gildissviði frumvarpsins er ætlað að taka jafnt til þess þegar einstaklingar gangast persónulega í ábyrgðir og þegar þeir veita veð í tilgreindum eignum sínum til tryggingar á efndum lántaka. Helstu nýmæli frumvarpsins eru að fasteign ábyrgðarmanns, þar sem hann heldur heimili, skuli undanþegið aðför og að gjaldþrotaskipta verði ekki krafist á búi ábyrgðarmanns að greindum skilyrðum. Þess háttar vernd á sér fyrirmynd í rétti annarra þjóða og hefur verið rökstudd með vísan til þeirrar samfélagslegu upplausnar sem fylgir því þegar fjölskylda ábyrgðarmanns á sér ekki lengur samastað. Þessi nýmæli eru einskorðuð við persónulegar ábyrgðir en eiga ekki við þegar ábyrgðarmaður veitir veð í tilgreindri eign.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Eins og fram kemur í greinargerð er markmið frumvarpsins hið sama og markmið samkomulagsins um ábyrgðir á skuldum einstaklinga sem ætlað er að draga úr vægi ábyrgða og miða lánveitingar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar. Að öðru leyti vísast til þess sem rakið er í almenna hluta greinargerðarinnar.

Um 2. gr.


    Nokkrum erfiðleikum er bundið að henda reiður á öllum þeim stofnunum og fyrirtækjum sem stunda útlánastarfsemi af einhverjum toga. Er farin sú leið að tilgreina í dæmaskyni helstu lánveitendur sem frumvarpinu er ætlað að taka til án þess þó að girða fyrir að aðrir aðilar geti fallið þar undir. Útlánastarfsemi er í sumum tilvikum aðeins stunduð til hliðar við aðra atvinnustarfsemi eins og raunin er hjá tryggingafélögum og lífeyrissjóðum eða sem þáttur í félagslegu kerfi hins opinbera. Ekki þykir þó ástæða til að gera greinarmun á þörf ábyrgðarmanns fyrir réttarvernd þegar slíkir aðilar eiga í hlut eins og þegar um almennar lánastofnanir ræðir.
    Helsta afmörkun á gildissviði frumvarpsins er komin undir því í hvaða tilgangi ábyrgð er veitt. Ef ábyrgðarmaður veitir ábyrgð í þágu eigin atvinnurekstrar er litið svo á að ábyrgðarmaður hafi ekki þörf fyrir jafn ríka vernd og ákvæði frumvarpsins mæla fyrir um. Þar með er þó ekki sagt að þeir sem gangast í ábyrgð í þágu eigin atvinnurekstrar hafi ekki þörf fyrir neina vernd. Við mat á því hvort skilyrðið um atvinnurekstur er uppfyllt verður einkum að líta til þess hvort ábyrgðarmaður hafi þegið sanngjarnt endurgjald fyrir að gangast í ábyrgð.
    Almennt á ekki að skipta máli hvort lántaki sem gengist er í ábyrgð fyrir er einstaklingur eða lögaðili og í hvaða tilgangi lán er tekið. Sérstök álitamál geta þó risið vegna tengsla ábyrgðarmanns við lántaka. Þegar lántakinn er félag sem ábyrgðarmaður er viðriðinn geta komið til skoðunar atriði sem varða áhrif ábyrgðarmannsins innan þess og undir merkjum hvaða félagsforms það er rekið. Sé lántaki til að mynda einkahlutafélag í eigu ábyrgðarmanns eða sameignarfélag sem hann á ásamt öðrum eru líkur á því að hann hafi undirgengist ábyrgð í þágu eigin atvinnurekstrar.
    Frumvarpið tekur bæði til þess þegar einstaklingur gengst persónulega í ábyrgð og þegar hann veitir veð í eignum sínum til tryggingar á efndum. Þegar um persónulega ábyrgð ræðir standa að meginstefnu til allar eignir viðkomandi til tryggingar efndum lánsins en þegar veitt er veð er það jafnan tilgreind eign eða eignir. Um samningsveð gilda sérstök lög, nr. 75/1997. Persónuleg ábyrgð getur ýmist verið í formi einfaldrar ábyrgðar eða sjálfskuldarábyrgðar og má um muninn á þessu tvennu vísa til almennra reglna kröfuréttarins. Frumvarpið gerir ráð fyrir að lánveitandi geri ábyrgðarmanni ljóst í hverju þessi munur er fólginn áður en hann tekst á hendur ábyrgð.
    

Um 3. gr.


    Til að fyrirbyggja að ábyrgðarmaður glati mótbárurétti gagnvart framsalshafa ber lánveitanda að tilkynna ábyrgðarmanni um framsal ábyrgðar eða láns sem ábyrgð stendur fyrir. Ákvæði frumvarpsins taka til framsalshafa eftir því sem við á.

Um 4. gr.


    Forsenda þess að lánveitandi geti rækt skyldur sínar gagnvart ábyrgðarmanni er að hann hafi lagt mat sitt á greiðslugetu lántaka. Má um þetta vísa til Hrd. nr. 163/2005. Flutningsmenn telja óþarft að slá föstum þeim viðmiðum sem leggja ber til grundvallar við greiðslumat enda getur framkvæmd í þeim efnum verið háð blæbrigðum meðal lánveitenda. Aðalatriðið er að matið sé forsvaranlegt og byggist á viðurkenndum viðmiðunum. Bendi niðurstaða greiðslumatsins til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar skal lánveitandi með skriflegum hætti ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð. Lánveitandi skal einnig ráða skriflega frá ábyrgð ef aðstæður ábyrgðarmanns sjálfs gefa tilefni til. Má um þetta atriði vísa til dóms í Hrd. nr. 3/2003.

Um 5. gr.


    Greinin kveður á um upplýsingaskyldu lánveitanda við samningsgerð. Markmiðið með greininni er að ábyrgðarmaður geri sér grein fyrir þeirri fjárhagslegu áhættu sem hann undirgengst samfara undirritun ábyrgðarsamnings. Upptalningin er ekki tæmandi um hvaða upplýsingar þurfa að liggja fyrir við gerð ábyrgðarsamnings. Aðalatriðið við skýringu á því hvort lánveitandi hafi uppfyllt skyldu sína er komin undir því hvort upplýst hafi verið um öll þau atriði sem áhrif geta haft á áhættumat ábyrgðarmanns.
    Vanræksla lánveitanda við samningsgerð getur leitt til þess að ábyrgðarmaður sé ekki bundinn við samning sinn, a.m.k. ekki ef vitneskja um atriði hefði getað haft áhrif á ákvörðun ábyrgðarmanns um að takast á hendur ábyrgð. Sönnunarbyrðin um að vanræksla hafi engin áhrif haft á ákvörðun ábyrgðarmanns um að takast á hendur ábyrgð hvílir á lánveitanda.

Um 6. gr.


    Samkvæmt þessari grein er það gildisskilyrði að ábyrgðarsamningur sé skriflegur. Þar skulu koma fram þær upplýsingar sem lágu fyrir við samningsgerðina enda skoðast þær sem hluti samnings.
    Í síðari málsgreininni kemur fram að lánveitandi geti ekki svo gilt sé áskilið sér rétt til einhliða breytinga á ábyrgðarsamningi ef þær breytingar eru ábyrgðarmanni í óhag. Er byggt á því að breyting á láni sem ábyrgð er ætlað að tryggja jafngildi breytingum á skilmálum ábyrgðar. Þetta á þó ekki við um breytingar á vöxtum, vísitölu eða öðrum eðlilegum kostnaðarliðum sem lánveitandi hefur gert skýran fyrirvara um í samningi sínum við lántaka.
    

Um 7. gr.


    Í greininni er fjallað um tilkynningaskyldu lánveitanda og afleiðingar þess að henni er ekki sinnt. Er kveðið á um að lánveitanda beri skylda til að tilkynna ábyrgðarmanni svo fljótt sem unnt er við nánar greindar aðstæður, eins og vanskil lántaka, brottfall trygginga, andlát lántaka og gjaldþrotaskipti á búi hans. Meginsjónarmiðið er að lánveitandi tilkynni ábyrgðarmanni um öll þau atvik sem áhrif geta haft á forsendur ábyrgðar ábyrgðarmanni í óhag.
    Lánveitanda ber einnig að tilkynna ábyrgðarmanni um hver áramót um stöðu láns sem hann er í ábyrgðum fyrir, þ.m.t. um vanskil og hversu mikil þau séu. Eins og fram kemur telja flutningsmenn nauðsynlegt vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur hér á landi að ábyrgðarmenn fái a.m.k. einu sinni á ári yfirlit yfir ábyrgðir sem þeir hafa gengist í.
    Forsenda þess að lánveitandi geti innheimt dráttarvexti og annan vanskilakostnað er að hann hafi tilkynnt ábyrgðarmanni með hæfilegum fyrirvara um vanefndir lántaka. Hugsunin er sú að ábyrgðarmaður eigi þess ávallt kost að grípa inn í og greiða gjaldfallna afborgun eins og hún stendur á gjalddaga. Sams konar hugsun kemur fram í lokamálsgrein greinarinnar en þar er mælt fyrir um réttarstöðu ábyrgðarmanns við gjaldfellingu láns.
    Lánveitandi ber sönnunarbyrðina um að tilkynningarskyldu hafi verið gætt enda stendur honum það nær en ábyrgðarmanni.

Um 8. gr.


    Í þessari grein er mælt fyrir um að ekki verði gerð aðför í fasteign ábyrgðarmanns sem hann býr í eða fjölskylda hans ef krafa á rót sína að rekja til persónulegrar ábyrgðar.
    Heimili ábyrgðarmanns og fjölskyldu hans telst sá staður þar sem fjölskyldan hefur að jafnaði bækistöð. Í því felst að heimilið er sá staður þar sem viðkomandi einstaklingur geymir þá hluti sem honum eru nauðsynlegir í dagsins önn og eru til þess fallnir að halda eðlilegt heimili. Það má orða þessa skilgreiningu svo að heimili manns sé sá staður hvaðan viðkomandi gerir út sína tilveru. Við skilgreiningu á orðinu heimili þarf að sjálfsögðu að athuga hvar viðkomandi einstaklingur hefur skráð lögheimili, en það þarf þó ekki að vera úrslitaatriði. Á hinn bóginn takmarkar reglan ekki að aðför verði gerð í öðrum fasteignum eða eignum ábyrgðarmanns sem ekki eru undanskildar aðför, sbr. lög nr. 90/1989, þó svo að aðfararheimild eigi rót sína að rekja til ábyrgðarsamnings. Ef ábyrgðarmaður heldur tvö heimili skal ekki gerð aðför í þeirri fasteign sem vegur þyngra í heimilishaldi fjölskyldunnar.
    Til að því markmiði verði náð að undanþiggja heimili aðför telja flutningsmenn nauðsynlegt að lögfesta reglu um að gjaldþrotaskipta verði ekki krafist á búi ábyrgðarmanns vegna kröfu sem á rót að rekja til persónulegrar ábyrgðar. Ef til gjaldþrotaskipta kemur á heimili ábyrgðarmanns vegna annarra ástæðna njóta ábyrgðarkröfur stöðu samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti.
    Markmiðið með þessari reglu er að sporna gegn þeirri þróun að einstaklingar missi algerlega fótanna í sinni efnahagslegu tilveru vegna þess eins að þeir hafi ábyrgst skuldbindingar annarra sem síðar hafi fallið á þá. Í núgildandi aðfararlögum, nr. 90/1989, er víða að finna ákvæði sama efnis, þ.e. að tiltekin verðmæti skuli undanþegin aðför, m.a. í VI. kafla. Þar kemur m.a. fram í 43. gr. að ekki skuli gert fjárnám í hlutum sem nauðsynlegir eru til að halda látlaust heimili. Er það mat flutningsmanna að ekki sé verið að vega að meginreglunni um samningsfrelsi enda munu einstaklingar áfram sem hingað til geta veðsett tilgreindar eigur sínar eins og samningar takast um.

Um 9. gr.


    Hér er skýrt kveðið á um að lánveitandi eigi ekki að geta fengið lán sitt tvígreitt vegna tilvistar ábyrgðarmanns. Hér er skírskotað til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað annars staðar að lánveitendur geta keypt sér greiðslufallstryggingu vegna hugsanlegra vanefnda lántaka.
    Ábyrgð á því að kröfu sé lýst í bú þrotamanns er alfarið á herðum lánveitanda og hann ber hallann af því vanræki hann að lýsa kröfu sinni í búið.
    Geri lánveitandi samning við lántaka um að hann greiði aðeins hluta láns hefur slíkur samningur sams konar áhrif gagnvart ábyrgðarmanni. Ábyrgðarmaður ábyrgist aðeins lán lántaka eins og það stendur hverju sinni gagnvart lánveitanda þannig að ábyrgðarmaður verður ekki sóttur sérstaklega vegna greiðslna sem felldar eru niður í samningi lánveitanda og lántaka.

Um 10. gr.


    Ljóst er að ábyrgðarmaður getur aldrei orðið ábyrgur hafi lántaki aldrei orðið skuldbundinn samkvæmt lánssamningi. Sem dæmi um slíkt má nefna að geti lántaki ekki skuldbundið sig vegna lögræðisskorts verður ábyrgðarmaður ekki bundinn af ábyrgð sinni.
    Ef lánveitandi samþykkir einhliða breytingar á öðrum tryggingarráðstöfunum sem gera stöðu ábyrgðarmanns verri en ella er hann ekki lengur bundinn af ábyrgðarsamningi. Ef aðrar jafngóðar tryggingar eru settar í stað þeirra trygginga sem fyrir eru má ætla að staða ábyrgðarmanns verði ekki verri en ella.
    Veiti lánveitandi lántaka einhliða greiðslufrest á gjalddaga og hann reynist ógjaldfær þegar kemur að nýjum gjalddaga er ábyrgðarmaður ekki bundinn af ábyrgðarsamningi vegna þeirrar greiðslu nema lánveitandi geti sýnt fram á að gjaldfresturinn hafi ekki haft áhrif á greiðslugetu lántaka á upphaflegum gjalddaga.

Um 11. og 12. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að í tengslum við síðarnefndu greinina er miðað við að frumvarpið taki til samninga um ábyrgðir sem gerðir eru frá og með gildistöku.