Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 144. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 159  —  144. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um Smáríkjastofnun Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Þór Sigurðsson,


Ásta R. Jóhannesdóttir, Bjarni Benediktsson, Ellert B. Schram,
Guðfinna S. Bjarnadóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson,
Kolbrún Halldórsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson,
Lúðvík Bergvinsson, Magnús Stefánsson.


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra, í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis, að kanna grundvöll þess að Ísland bjóðist til að hafa forustu um að byggja upp og hýsa stofnun um málefni smáríkja á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 135. löggjafarþingi en kom ekki til umræðu. Tillagan er nú endurflutt óbreytt.
    Frá því að tillagan var fyrst lögð fram hefur mikil gróska átt sér stað í rannsóknum hérlendis. Þannig hefur Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands eflt samstarf sitt við fjölda annarra háskóla og alþjóðastofnana, m.a. smáríkjasamtök Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankann. Útlit er fyrir að þessi samvinna muni aukast enn á komandi missirum. Sú ánægjulega þróun eykur enn möguleika Íslands á að hýsa stofnun um málefni smáríkja á vegum Sameinuðu þjóðanna. Að öðru leyti er vísað til greinargerðarinnar sem fylgdi tillögunni á 135. löggjafarþingi:
    „Á undanförnum árum hefur mátt merkja ákveðna vitundarvakningu um að Ísland eigi í auknum mæli að axla ábyrgð og hafi hlutverki að gegna í alþjóðasamfélaginu. Þessu ber að sjálfsögðu að fagna og það er meira en tímabært að Íslendingar leitist við að leggja sitt af mörkum í samræmi við aukin efni í stað þess að vera þiggjandi fremur en veitandi í samfélagi þjóðanna. Til marks um þessa viðhorfsbreytingu má nefna að fjárframlög til þróunarsamvinnu eru nú loks tekin að aukast þó að enn þurfi að gera miklu betur í þeim efnum. Virkari þátttaka Íslendinga í margs konar alþjóðasamvinnu, svo ekki sé minnst á framboð til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, er einnig þróun af sama toga.
    Þegar lagðar eru línur um stöðu og hlutverk Íslands í alþjóðasamskiptum er mikilvægt að samþætta sjálfstraust og heilbrigðan metnað fyrir hönd lands og þjóðar án þess að menn ætli sér um of. Ætíð þarf að leggja raunsætt mat á hagsmuni Íslands í samskiptum þess við önnur ríki og ríkjasambönd. Þegar hagsmunir landsins eru gaumgæfðir í samanburði við önnur ríki blasir við að staða þess er dæmigerð fyrir smáríki.
    Enginn algildur mælikvarði gildir raunar um hvenær ríki teljast til smáríkja eða til stærri ríkja. Stundum er miðað við að íbúatala smáríkja liggi undir 10 milljónum og teljast þau þá alls vera 116 sem er drjúgur meiri hluti allra sjálfstæðra ríkja. Einnig er rætt um smáríki sem ríki með færri en eina milljón íbúa og nemur fjöldi þeirra þá 44. Ýmsir fræðimenn hafa viljað gera greinarmun á smáríkjum og örríkjum (micro-state) sem hafa mjög fáa íbúa og/eða yfir mjög takmörkuðu landsvæði að ráða. Enda þótt t.d. Möltubúar séu fjórðungi fjölmennari en Íslendingar mundi gjörólíkt flatarmál ríkjanna þannig skipa Möltu á bekk með örríkjum en Íslandi með smáríkjum.
    Hvað sem skilgreiningaratriðum líður er ljóst að um Ísland gilda svipuð lögmál og önnur smáríki. Yfirleitt eru þau berskjölduð gagnvart efnahagslegum þvingunum, hvað þá hervaldi, sem stærri ríki, einkum nágrannaríki, geta beitt þau og þurfa á alþjóðastofnunum að halda og skuldbindingum sem þau gangast undir til þess að tryggja öryggi sitt og efnahagslega hagsmuni. Það gefur því auga leið að smáríki hafa mikinn hag af því að gæta sameiginlegra hagsmuna sinna og þurfa að eiga sér viðeigandi vettvang og geta beitt árangursríkum aðferðum til þess.
    Ýmsar kenningar hafa verið uppi um almenna stöðu smáríkja í alþjóðasamskiptum. Sameiginleg einkenni smáríkja hafa þó enn sem komið er ekki verið nægilega rannsökuð. Þannig ríkir lítil sátt um hvort ein efnahagsstefna henti smáríkjum almennt séð betur en aðrar, t.d. hvort þau eigi að sérhæfa sig í fáum útflutningsafurðum. Að sama skapi hefur það verið álitamál hversu umsvifamikla utanríkisþjónustu smáríki eigi að reka. Á það hefur verið bent að styrkur smáríkja getur falist í öðru en mætti stórvelda, svo sem í því að vera vel stjórnað, vera öðrum þjóðum góð fyrirmynd í lýðræðislegum stjórnarháttum, umhverfisstefnu og fleiru.
    Segja má að aðstæður smáríkja hafi að undanförnu tekið þónokkrum breytingum. Eftir lok kalda stríðsins liðuðust ýmis sambandsríki í sundur og virðist þorri þegna þeirra heldur hafa kosið að lýsa yfir sjálfstæði og stofna smáríki í staðinn, þrátt fyrir þá ókosti sem því getur fylgt. Þannig hefur smáríkjum farið fjölgandi. Að sumu leyti er nú auðveldara fyrir smáríki að standa á eigin fótum en var fyrir einhverjum áratugum síðan. Kemur þar ýmislegt til: Alþjóðastofnanir hafa að mestu leyti staðið ágætlega vörð um rétt og öryggi smáríkja, samgöngur og þar með milliríkjaviðskipti eru orðin auðveldari og smáríkjum er smæðin því minni fjötur um fót.
    Nauðsynlegt er að huga vel að þessari margháttuðu þróun. Á undangengnum áratugum hafa sérfræðingar á sviði alþjóðastjórnmála sinnt smáríkjum langtum minna en samskiptum stórvelda. Þó virðast hin fyrrnefndu njóta aukins áhuga stjórnmálafræðinga eins og Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands ber vott um. Með enn meðvitaðri hætti en áður þyrfti að huga í senn að sameiginlegum hagsmunum smáríkja sem og að auknum rannsóknum á þróun þeirra og tækifærum í breyttum heimi.
    Fyrir utan að sinna hagsmunum smáríkja ætti smáríkjastofnun að vera vettvangur til að efla samstarf smáríkja sín á milli. Slíkt samstarf væri ekki aðeins æskilegt vegna þess að smáríki í svipaðri stöðu geta margt lært hvert af öðru, heldur líka vegna þess að í samskiptum smárra ríkja og stærri er hættan alltaf sú að sambandið einkennist af ójafnvægi þar sem hinn stóri nær fram vilja sínum á kostnað þess sem minni er. Samstarf smáríkja mundi á hinn bóginn einkennast af valdajafnvægi sem ekki er alltaf kostur á í öðru alþjóðasamstarfi og betur sameinuð en nú er yrðu smáríkin sterkari í samskiptum út á við.
    Eitt af því sem aukið samstarf smáríkja gæti haft í för með sér er sameiginlegar rannsóknir og þekkingarmiðlun á þróun smáríkja víða um heim, ekki síst í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Ísland er nú þegar fyrirmynd margra annarra smáríkja. Það eru ekki síst lítil og fátæk eyríki, einkum í Kyrrahafi og Karíbahafi, sem horfa til Íslands eftir ráðgjöf um það hvernig hægt sé að brjótast undan fátækt, gera einhæfan iðnað fjölbreyttari og ná áhrifum á alþjóðavettvangi. Eðli málsins samkvæmt eru mörg lítil eyríki í sömu aðstæðum og við Íslendingar vorum og erum að vissu marki enn; þau nýta fyrst og fremst auðlindir sjávar, og hafa þannig ríkra hagsmuna að gæta í alþjóðlegum hafréttarsamningum, og hafa mun færri valkosti í samgöngumálum og eru mjög háðar flugi um farþegaflutninga og skipasiglingum um þungaflutninga. Ekki þarf að velkjast í vafa um að Íslendingar hefðu margt fram að færa í því samhengi og það væri myndarleg viðbót við það þróunarstarf sem nú þegar fer fram á vegum utanríkisráðuneytisins að bæta við ráðgjöf til lítilla þróunarríkja.
    Ekki má gleyma því hlutverki sem Ísland hefur að gegna í samstarfi á norðurslóðum þar sem stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Háskólinn á Akureyri eru ásamt stofnunum Heimskautaráðsins, PAME og CAFF, í lykilhlutverki. Nú þegar er starfrækt Rannsóknarþing norðursins sem sinnir rannsóknum er tengjast ýmsum hliðstæðum þáttum og smáríkjastofnun mundi sinna. Má nefna umhverfismál, öryggismál, félagslega stefnumótun og áhrif hnattrænna breytinga á viðkomandi svæðum. Smáríkjastofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna væri rökrétt og lofsverð útvíkkun á þessari starfsemi.
    Öllum má ljóst vera að í tilviki smáríkja er það viðvarandi og krefjandi verkefni að viðhalda eigin tungumáli og menningu. Engum dylst að á undanförnum árum hefur margbreytileiki tungumála og menningar minnkað vegna yfirgnæfandi áhrifa frá stórum mál- og menningarsamfélögum. Smáríkjastofnun gæti haft það hlutverk m.a. að leita leiða til að varðveita fjölbreytileikann sem fyrirfinnst meðal hinna mörgu smáríkja heims. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, alþjóðlegt starf hennar og góður orðstír, leggur nú þegar góðan grunn að þessum þætti.
    Það færi vel á því að Ísland, sem lengi vel var smæsta sjálfstæða ríkið sem var fullgildur aðili að Sameinuðu þjóðunum, skipaði sér í fremstu röð og yrði ein af miðstöðvum aukins samstarfs smáríkja. „Smáríkjastofnun Sameinuðu þjóðanna á Íslandi“ gæti t.d. vaxið út úr Rannsóknasetri um smáríki við Háskóla Íslands og orðið sjálfstæð alþjóðastofnun fyrir frumkvæði og með rausnarlegum stuðningi gistilandsins Íslands. Rétt væri að leita samstarfs við sambærilegar stofnanir í öðrum löndum, en af þeim má nefna Rannsóknarstofnunina um eyjar og smáríki (Islands and Small States Institute) við Háskólann á Möltu og Samstarfsnet smárra vanþróaðra eyríkja (Small Island Developing States Network).
    Það væri myndarbragur á því ef hér sæti framkvæmdastjóri Smáríkjastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem þess vegna gæti verið einn af aðstoðarframkvæmdastjórum Sameinuðu þjóðanna, og hér færi fram ýmis starfsemi sem tengdist smáríkjum, sjálfsstjórnarsvæðum, minnihlutahópum og réttindum þeirra og loks varðveisla tungumála og menningar smáþjóða eða lítilla mál- og menningarsvæða. Þannig gæti Ísland sannarlega lagt sitt af mörkum sem boðberi þeirrar friðsamlegu, lýðræðislegu og lögmætu alþjóðasamvinnu sem smáríki eiga allt undir.
    Að lokum er rétt að taka fram að frumkvæði Íslands að slíkri stofnun fengi án nokkurs vafa jákvæð viðbrögð hjá mörgum þjóðum heims, ekki síst þeim fjölmörgu ríkjum sem telja sig til smáríkja. Ætti vinskapur og velvild þessara ríkja að vera markmið í sjálfu sér fremur en til dæmis liður í kosningabaráttunni í tengslum við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hvort sem tillaga af þessu tagi yrði samþykkt eða ekki á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þá væri flutningur hennar sem slíkur án nokkurs vafa jákvætt innlegg í átt að auknu samstarfi smáríkja innan samtakanna og meiri samstöðu þeirra á meðal.“