Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 145. máls.

Þskj. 161  —  145. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög
(einföldun reglna við samruna og skiptingu).

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)



I. KAFLI
Lög um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 122. gr. laganna bætist ný málsgrein, 5. mgr., sem orðast svo:
    Ef allir hluthafar í samrunafélögum samþykkja er þess ekki krafist að óháðir, sérfróðir matsmenn geri skýrslu um samrunaáætlunina, m.a. um endurgjald fyrir hluti, sbr. 1.–3. mgr.


2. gr.

    5. tölul. 5. mgr. 124. gr. laganna orðast svo: Skýrsla matsmanna og yfirlýsing skv. 122. gr. nema neytt sé undanþágu skv. 5. mgr. þeirrar greinar.


3. gr.

    Í stað orðanna „1.–3. mgr. 122. gr.“ í 130. gr. laganna kemur: 1.–3. og 5. mgr. 122. gr.


4. gr.

    133. gr. d í lögunum fellur brott.


5. gr.

    Í stað orðanna „Ákvæði 133. gr. a – 133. gr. f“ í 4. mgr. 133. gr. g í lögunum kemur: Ákvæði 133. gr. a – c og 133. gr. e – f.


II. KAFLI
Lög um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum.
6. gr.

    Við 97. gr. laganna bætist ný málsgrein, 5. mgr., sem orðast svo:
    Ef allir hluthafar í samrunafélögum samþykkja er þess ekki krafist að endurskoðandi eða skoðunarmaður geri skýrslu um samrunaáætlunina, m.a. um endurgjald fyrir hluti, sbr. 1.–3. mgr.

7. gr.

    5. tölul. 5. mgr. 99. gr. laganna orðast svo: skýrsla endurskoðanda eða skoðunarmanns og yfirlýsing skv. 97. gr. nema neytt sé undanþágu skv. 5. mgr. þeirrar greinar.

8. gr.

    Í stað orðanna „1.–3. mgr. 97. gr.“ í 105. gr. laganna kemur: 1.–3. og 5. mgr. 97. gr.


9. gr.

    107. gr. e í lögunum fellur brott.


10. gr.

    Í stað orðanna „Ákvæði 107. gr. b – 107. gr. g“ í 4. mgr. 107. gr. h í lögunum kemur: Ákvæði 107. gr. b – d og 133. gr. f.


11. gr.

    Með lögum þessum er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/63/EB frá 13. nóvember 2007 um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/855/EBE og 82/891/EBE að því er varðar kröfu um skýrslu óháðs sérfræðings í tengslum við samruna eða skiptingu hlutafélaga.
    Ríkisstjórninni er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 58/2008 frá 25. apríl 2008 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992.


12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem samið er í viðskiptaráðuneytinu, felur í sér innleiðingu EES-reglna um einföldun ákvæða við samruna og skiptingu hlutafélaga, nánar tiltekið tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/63/EB frá 13. nóvember 2007 um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/855/EB og 82/891/EB að því er varðar kröfu um skýrslu óháðs sérfræðings í tengslum við samruna eða skiptingu hlutafélaga. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 58/2008 frá 25. apríl 2008 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992.
    Tilskipunin tekur til hlutafélaga en gert er ráð fyrir samsvarandi breytingum til einföldunar í lögum um einkahlutafélög og í lögum um hlutafélög enda ákvæði um samruna og skiptingu svipuð í báðum lögunum. Breytingar má rekja til breytinga á 3. og 6. félagaréttartilskipuninni sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn og leiddu á sínum tíma til breytinga á hlutafélagalöggjöf hér á landi. Breytingarnar á almennum ákvæðum um samruna og skiptingu leiða síðan til þess að gera þarf samtímis smávægilegar breytingar á ákvæðum framangreindra laga um millilandasamruna og millilandaskiptingu þar sem reglur eru einfaldari fyrir, sbr. lög nr. 54/2007, um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (millilandasamruni og millilandaskipting).
    Ákvæðin eiga rætur sínar að rekja til áætlunar Evrópusambandsins um að draga úr stjórnsýslubyrðum. Þótt 3. og 6. félagaréttartilskipunin hafi miðað að því að vernda lánardrottna og hluthafa í minni hluta við samruna og skiptingu er talið að nægilegs öryggis verði gætt með nýju ákvæðunum. Gert er ráð fyrir samþykki allra hluthafa til að sleppa megi viðkomandi skýrslugjöf utanaðkomandi aðila og er því talið að ákvæðin dragi helst úr kostnaði hjá litlum félögum, t.d. við samruna innan samstæðu. Má þá nefna tvö systurfélög sem einn og sami hluthafi á. Slíkur samruni getur alloft átt sér stað. Þunginn í ákvæðum hlutafélagalöggjafarinnar snýr að innanlandssamruna en í ákvæðum um millilandasamruna er almennt vísað til ákvæðanna um innanlandssamruna. Í ákvæðum um millilandaskiptingu er almennt vísað í ákvæði um innanlandsskiptingu og þau ákvæði vísa jafnvel til ákvæða um innanlandssamruna eftir því sem við á.
    Gert er ráð fyrir að nýju ákvæðin nái til samruna og skiptingar sem ákvörðun verður tekin um eftir gildistöku fyrirhugaðra laga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er að finna sams konar undanþágu frá skyldu til að láta óháða, sérfróða matsmenn gera skýrslu um samrunaáætlun, m.a. um endurgjald fyrir hluti, og er nú í 133. gr. d í lögum um hlutafélög um millilandasamruna.
    Vegna tilvísunar 133. gr. laga um hlutafélög um skiptingu í 122. gr. sömu laga um samruna þarf ekki að kveða sérstaklega á um framangreinda undanþágu með tilliti til skiptingar.

Um 2. og 3. gr.


    Þessar greinar fela í sér nauðsynlegar breytingar vegna breytinga skv. 1. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.


    Grein þessi um undanþágu frá því að óháðir, sérfróðir matsmenn geri skýrslu um samrunaáætlun við millilandasamruna verður óþörf eftir fyrirhugaða breytingu á lögunum með frumvarpi þessu, þ.e. vegna tilvísunar í 122. gr. laga um hlutafélög þar sem eru almenn ákvæði um undanþáguna hvort sem um samruna er að ræða innan lands eða milli landa.

Um 5. gr.


    Þessi breyting er tæknilegs eðlis þar eð gert er ráð fyrir að 133. gr. d í lögum um hlutafélög verði felld niður.

Um 6.–10. gr.


    Greinar þessar geyma tillögur um svipaðar breytingar til einföldunar á lögum um einkahlutafélög og felast í ákvæðum frumvarpsins um breytingar á lögum um hlutafélög.

Um 11. gr.


    Í greininni er tilgreind sú EES-gerð sem innleiða á í lög hér á landi og gert ráð fyrir heimild til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar varðandi upptöku hennar í EES-samninginn.

Um 12. gr.


    Greinin geymir ákvæði um gildistöku.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum
um einkahlutafélög (einföldun reglna við samruna og skiptingu).

    Frumvarp þetta felur í sér innleiðingu á EES-reglum er hafa það að markmiði að einfalda ákvæði núgildandi laga er snúa að samruna og skiptingu hlutafélaga.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.