Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 177. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 262  —  177. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá 3. minni hluta utanríkismálanefndar.



    Tillaga þessi gengur út á það að Alþingi veiti opna heimild til samningagerðar um ábyrgð Íslands vegna svokallaðra Icesave-reikninga í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu. 3. minni hluti fellst ekki á slíkt opið samþykki án þess að gerðar séu eftirfarandi kröfur:
     a.      Að áður en til samninga verður gengið aflétti Bretar beitingu hryðjuverkalaga gagnvart íslenskum aðilum.
     b.      Lagt verði mat á eignatapið og Bretar bæti þann skaða sem beiting hryðjuverkalaga hefur haft á verðmæti eigna þeirra aðila sem hryðjuverkalögin bitnuðu á.
     c.      Bretar samþykki að þær bætur gangi til þess að greiða ábyrgðir af Icesave-reikningum og leggi fram ábyrgð breska ríkisins fyrir þeim upphæðum sem tapast hafa vegna beitingar hryðjuverkalaga.
    Að þessu gerðu verði gengið til samninga um ábyrgð Íslands og að verðmæti eignasölu gangi fyrst á móti ábyrgðum sem Íslendingar taka á sig.
    Sá samningur sem gerður verður og kveður á um fjárskuldbindingar og greiðslur Íslendinga vegna Icesave-reikninga verði lagður í heild sinni fyrir Alþingi Íslendinga til samþykktar.
    Þriðji minni hluti mælist til þess að málinu verði breytt eða það unnið með þeim hætti að látið verði reyna á framangreind skilyrði í samningum við Breta áður en gengið verður frá endanlegu samkomulagi við þá. Verði ekki fallist á þessar tillögur munu þingmenn Frjálslynda flokksins ekki sjá sér fært að samþykkja tillögu þessa.

Alþingi, 4. des. 2008.



Jón Magnússon.