Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 177. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 263  —  177. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Rúnar Guðmundsson og Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Benedikt Jónsson og Högna S. Kristjánsson frá utanríkisráðuneyti, Lárus Finnbogason og Ársæl Hafsteinsson frá skilanefnd Landsbanka Íslands og Steinar Þór Guðgeirsson frá skilanefnd Kaupþings. Nefndin kynnti sér fjölmörg gögn sem orðið hafa til í tengslum við málið, svo sem minnisblöð og bréfleg samskipti stjórnvalda og Eftirlitsstofnunar EFTA frá því í október og nóvember 2008, frásagnir af fundum íslenskra stjórnvalda og samninganefndar Íslands með fulltrúum Hollands og Bretlands frá því í október 2008, fundi fjármálaráðherra ESB og EFTA-ríkjanna og fundi sjö fastafulltrúa ESB með Íslandi frá 4. nóvember 2008 og fundi með sendiherrum sjö ESB-ríkja vegna álits lögfræðihóps um innstæðutryggingar frá 12. nóvember. Jafnframt kynnti nefndin sér ýmsar lögfræðilegar greinargerðir um málið sem unnar voru á tímabilinu október–nóvember 2008.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis ríkisstjórninni til handa til að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.
    Nefndin ræddi efnisþætti málsins á fundum sínum. Fram kom að málið snýst nær einvörðungu um skuldir gamla Landsbanka Íslands vegna svokallaðra Icesave-reikninga. Talið er að ekki muni reyna á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta vegna skulda gamla Kaupþings, en formaður skilanefndar upplýsti að útlit væri fyrir að sala á eignum bankans gæti staðið undir kröfum í búið vegna svokallaðra Kaupþing Edge reikninga. Þá var starfsemi gamla Glitnis erlendis með þeim hætti að afar ólíklegt er að reyni á tryggingarsjóðinn.
    Nefndin kynnti sér eigna- og skuldastöðu gamla Landsbanka Íslands, væntanlegar kröfur tryggingarsjóðsins á hann og hvað mætti gera ráð fyrir að fengist upp í þær kröfur við sölu á eignum bankans. Mikil óvissa er enn um það virði sem fæst fyrir eignirnar en á grundvelli upplýsinga frá skilanefnd Landsbanka Íslands má áætla að um 150 milljarðar kr. geti staðið út af að því ferli loknu. Þessi niðurstaða er eins og áður segir háð mikilli óvissu. Sá möguleiki er því fyrir hendi að eignir Landsbankans dugi fyrir forgangskröfum þannig að ekkert falli á ríkissjóð. Niðurstaða um þetta atriði ræðst fyrst og fremst af tvennu. Annars vegar af endanlegu virði eigna gamla Landsbankans, en talið er að hámarksverðmæti fáist fyrir þær með því að selja þær ekki að svo stöddu. Er gert ráð fyrir að eignirnar verði varðveittar í gamla Landsbankanum í u.þ.b. 3 ár. Hins vegar ræðst niðurstaðan af þeim samningum sem hér er leitað heimildar til að gera.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við tillöguna varðandi lagalega stöðu málsins hafa íslensk stjórnvöld byggt á því sjónarmiði að skýr lagaskylda væri ekki til staðar um ábyrgð íslenska ríkisins ef greiðslur til innlánseigenda færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir. Nefndin hefur farið yfir þau lögfræðilegu álitaefni sem málið snýst um og ljóst er að önnur aðildarríki EES-samningsins eru ekki sammála skilningi íslenskra stjórnvalda um að óvissa ríki að þessu leyti. Hugmyndir um að úr þessu yrði skorið fyrir hlutlausum úrskurðaraðila eða dómstól hafa ekki náð fram að ganga í viðræðum aðila.
    Ljóst er að miklir hagsmunir eru í húfi um niðurstöðu slíks máls fyrir báða aðila. Óhagstæð niðurstaða úr slíku máli um skuldbindingu Íslands hefði alvarlegar afleiðingar fyrir ríkissjóð. Á hinn bóginn má leiða að því líkur að lagaleg óvissa um þetta atriði gæti vegið að fjárhagslegum stöðugleika og trúverðugleika þess lagaumhverfis sem fjármálafyrirtækjum sem starfa innan vébanda Evrópusambandsins hefur verið skapað. Hagur þess að lausn finnist við samningaviðræður er því ótvíræður. Þess má geta að á meðan ágreiningur aðila um þetta efni var óleystur var sú hætta fyrir hendi að Evrópusambandsríkin gripu til aðgerða gagnvart Íslandi sem settu EES-samninginn að hluta eða í heild í hættu. Þá var ljóst að Norðurlöndin voru sammála um að nauðsynlegt væri að Ísland semdi um lausn á þessu máli, til að þau gætu séð sér fært að taka þátt í fjárhagslegri fyrirgreiðslu í tengslum við efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sama gilti um afstöðu annarra ríkja sem Ísland leitaði fyrirgreiðslu hjá. Með vísan í allt sem að framan greinir er að áliti meiri hlutans ljóst að leita þurfti pólitískrar lausnar á vandamálinu.
    Frumforsenda þess að leitað væri pólitískrar lausnar á málinu var að tryggt yrði að tekið yrði tillit til hinna erfiðu aðstæðna sem nú eru uppi á Íslandi. Þau umsömdu viðmið sem þingsályktunartillagan fjallar um fela í sér viðunandi forsendur fyrir lausn að áliti meiri hlutans. Ekki er fallið frá þeim lagarökum sem Ísland hefur sett fram, en fallist á að leita samninga á grundvelli sameiginlegra viðmiða. Þau eru annars vegar að tilskipunin gildi með sama hætti hér á landi og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar að samningar um lausn taki mið af sérstakri og fordæmislausri stöðu Íslands. Hvorugar þessara forsendna geta talist íþyngjandi fyrir Ísland eða íslenska hagsmuni. Í þessu sambandi var nefndin upplýst um þau meginsamningsmarkmið sem stjórnvöld hafa sett sér og fram kom að stöðu Íslands verði haldið á lofti í þeim viðræðum sem í hönd fara þannig að sem hagstæðust niðurstaða fáist fyrir Ísland. Leiði samningar ekki til ásættanlegrar niðurstöðu fyrir Ísland er það sjálfstætt úrlausnarefni hvernig stjórnvöld og Alþingi vinna úr þeirri stöðu, en hin umsömdu viðmið fela ekki í sér að stjórnvöld afsali sér með einhverjum hætti lagalegri stöðu að þjóðarétti sem ríkið hefur í dag.
    Meiri hlutinn lítur svo á að í samþykkt þessarar tillögu felist pólitískur stuðningur við stefnumörkun stjórnvalda í yfirstandandi samningum. Í tillögunni kemur fram að endanlegar niðurstöður samninga sem nást í viðræðunum verði lagðar fyrir Alþingi til öflunar viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast. Álit meiri hlutans er að þetta verði að sjálfsögðu gert í samræmi við stjórnskipulegar kröfur og eðli þeirra samninga sem nást. Þá hefur komið fram af hálfu utanríkisráðherra að utanríkismálanefnd verði upplýst um framgang samningaviðræðna eftir því sem þeim vindur fram, í samræmi við ákvæði 24. gr. þingskapalaga.
    Í meðferð nefndarinnar kom einnig til umræðu hvernig ríkissjóður mundi standa undir skuldbindingum sem samningar sem hér er óskað eftir heimild til að leiða til lykta leggja á hann. Ákveðið var að ræða þau atriði í samfellu við efnislega úrlausn á 161. máli, tillögu til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
         Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur meiri hlutinn óhjákvæmilegt að ráðast í þá samningagerð sem tillagan gerir ráð fyrir og leggur til að hún verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 5. des. 2008.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Árni Páll Árnason.


Ásta R. Jóhannesdóttir.



Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Lúðvík Bergvinsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.