Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 207. máls.

Þskj. 280  —  207. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 116 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Í stað ártalanna „2009/2010“ í ákvæði til bráðabirgða I í lögunum kemur: 2014/2015.

2. gr.

    Í stað orðanna „1. september 2009“ í ákvæði til bráðabirgða V í lögunum kemur: 1. september 2012.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Með því er annars vegar lagt til að framlengdur verði gildistími ákvæðis til bráðabirgða I í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem veitir ráðherra heimild til að úthluta tilteknum aflaheimildum til áframeldis þorsks og hins vegar að framlengdur verði gildistími ákvæðis til bráðabirgða V í sömu lögum um frest aðila til að ráðstafa krókaaflahlutdeild þannig að hún rúmist innan tiltekinna marka sem sett eru í 2. og 3. mgr. 13. gr. laganna.
    Með b-lið 16. gr. laga nr. 85 16. maí 2002, um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, voru fyrst sett ákvæði í lög um úthlutun þorskeldiskvótans en með þeim var ráðherra heimilað að ráðstafa aflaheimildum sem námu allt að 500 lestum af óslægðum þorski til tilrauna með áframeldi. Heimild ráðherra til úthlutunar þorskeldiskvótans samkvæmt þeim lögum gilti til loka fiskveiðiársins 2005/2006. Með lögum nr. 28 14. apríl 2005 var heimildin framlengd um þrjú fiskveiðiár og gildir hún samkvæmt gildandi lögum til loka fiskveiðiársins 2009/2010 sem lýkur 31. ágúst 2010. Heimildin er nú í ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 116/2006. Ljóst er að miklar væntingar eru bundnar við eldi á sjávarfiski og því nauðsynlegt að styrkja frekari tilraunir á því sviði. Er því í 1. gr. þessa frumvarps lagt til að heimild þessi fyrir ráðherra til úthlutunar þorskeldiskvótans verði framlengd til loka fiskveiðiársins 2014/2015 eða um fimm fiskveiðiár. Með því móti verður kleift að efla frekari tilraunir og marka stefnu til lengri tíma.
    Þorskeldiskvótanum hefur að mestu leyti verið ráðstafað til tilrauna í þorskeldi. Tilraunir með eldi þorsks byggjast að mestu á söfnun ungþorsks og eldi hans. Tilraunaframleiðslan hefur á undanförnum árum verið 1–2 þúsund tonn á ári. Til að stuðla enn frekar að uppbyggingu þorskeldis hefur ráðuneytið veitt árlegan 25 millj. kr. styrk til kynbótastarfs og rannsókna í þorskeldi auk úthlutunar þorskeldiskvótans. Gert er ráð fyrir að á næstu árum muni kynbótastarfsemin leiða til þess að hægt verði að afnema úthlutun þorskeldiskvóta og framleiðslan í þorskeldinu byggist alfarið á eldisseiðum. Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir tilteknum aðlögunartíma áður en unnt verður að breyta framkvæmdinni í samræmi við framangreind áform.
    Með 2. gr. laga nr. 42 12. júní 2006, um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, voru settar takmarkanir á krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila. Þessi ákvæði eru í 2. og 3. mgr. 13. gr. núgildandi laga. Má samanlögð krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila ekki nema hærra hlutfalli en 4% af þorski, 5% af ýsu og 5% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar.
    Í ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 42/2006 sagði að ef krókaaflahlutdeild einstakra aðila reyndist hærri en fyrr greindi þá skyldi hlutaðeigandi aðili fyrir 1. september 2009 gera ráðstafanir þannig að krókaaflahlutdeildin yrði innan settra marka. Þetta ákvæði er nú ákvæði V til bráðabirgða í lögum nr. 116/2006.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að frestur aðila til að ráðstafa krókaaflahlutdeild, þannig að hún rúmist innan settra marka, verði lengdur um þrjú ár eða til 1. september 2012. Ástæða þess að þetta er lagt til er sú að vegna sérstakra aðstæðna í íslensku efnahagslífi er mjög erfitt að fjármagna viðskipti með krókaaflahlutdeildir og því lítill markaður fyrir þær. Þeir aðilar sem enn eru yfir tilsettum mörkum eiga þannig takmarkaða möguleika til þess að komast undir tilskilin mörk. Með því að fresta gildistöku umrædds bráðabirgðaákvæðis er aðilum veittur frekari aðlögunartími. Vænta má að sá frestur geri þeim kleift að komast undir tilsett mörk eftir að markaður fyrir krókaaflahlutdeildir hefur opnast að nýju.
    Gert er ráð fyrir að ákvæði laganna öðlist þegar gildi. Ákvæði 1. gr. mun hins vegar koma til framkvæmda þegar gildistími ákvæðis til bráðabirgða I rennur út 1. september 2010 eða við upphaf fiskveiðiársins 2010/2011 og ákvæði 2. gr. þegar gildistími ákvæðis til bráðabirgða V rennur út 1. september 2009 eða við upphaf fiskveiðiársins 2009/2010.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116 10. ágúst 2006,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að framlengdur verði gildistími ákvæðis til bráðabirgða I í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem veitir ráðherra heimild til að úthluta tilteknum hluta heildarafla til áframeldis í þorski. Hins vegar er lagt til að framlengdur verði gildistími ákvæðis til bráðabirgða V í sömu lögum um frest aðila til að ráðstafa krókaaflahlutdeild þannig að hún rúmist innan tiltekinna marka sem sett eru í 2. og 3. mgr. 13. gr. laganna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.