Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 156. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 288  —  156. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði.

     1.      Hverjar eru upphæðir endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggingaraðila vegna vinnu á byggingarstað sl. þrjú ár, sundurliðað eftir nýbyggingum, endurbótum eða viðhaldi á íbúðarhúsnæði?
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra eru endurgreiðslur vegna nýbyggingar eða endurbóta og viðhalds á íbúðarhúsnæði til eigin nota sem hér segir:

2005 2006 2007 2008*
Endurbætur og viðhald kr. 372.000.000 506.000.000 532.000.000 299.000.000
Nýbyggingar kr. 161.000.000 244.000.000 472.000.000 264.000.000
Samtals kr. 533.000.000 750.000.000 1.004.000.000 563.000.000
* Tímabilið janúar.ágúst 2008.

     2.      Hefur verið lagt mat á hvort og þá hve stór hluti af heildarlaunum fyrir þessa vinnu er ekki gefinn upp til skatts?
    Ekki liggur fyrir sérstakt mat á því hvort eða hve stór hluti af heildarlaunum vegna vinnu við íbúðarhúsnæði er ekki gefinn upp til skatts. Í þessu sambandi má benda á að í skýrslu fjármálaráðherra um umfang skattsvika sem lögð var fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002.2003 kemur fram að erfitt sé að leggja mat á það hvort svört atvinnustarfsemi hafi aukist vegna lækkunar á endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 100% í 60% árið 1997 og þá hversu mikið.

     3.      Kemur til greina að hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskattsins? Hefur ráðherra slíkar aðgerðir til skoðunar og hverjir væru kostir og gallar við að hækka endurgreiðsluhlutfallið verulega?
    
Upphaflega var endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði 100% en hlutfallið var lækkað í 60% á árunum 1996–1997. Sú breyting tengdist aukinni fjárþörf ríkisins vegna breytinga á lögum um vörugjald. Upphaflega endurgreiðslan var lögfest þar sem ljóst þótti að full skattskylda á þessu sviði hefði í för með sér hækkun á byggingarkostnaði og þar með byggingarvísitölu. Helsti kostur þess að hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts er hvatning til eigenda íbúðarhúsnæðis að fara út í endurbætur eða viðhald á eign sinni en aftur á móti mundi hækkun á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts auka útgjöld ríkissjóðs sem tæpast eru forsendur fyrir um þessar mundir. Slíkar aðgerðir eru því ekki til skoðunar sem stendur.