Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 221. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 299  —  221. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um árlegan vestnorrænan dag.

Flm.: Karl V. Matthíasson, Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson,


Guðjón A. Kristjánsson, Jón Gunnarsson,
Birkir J. Jónsson, Jón Bjarnason.


    Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um stofnun vestnorræns dags sem haldinn verði hátíðlegur árlega.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 4/2008 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 27. ágúst 2008 í Grundarfirði. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að stofna til vestnorræns dags sem haldinn verði hátíðlegur árlega lokahelgi ágústmánaðar í öllum vestnorrænu löndunum frá og með árinu 2010. Ráðið hvetur vestnorræn stjórnvöld til að skipuleggja daginn í samvinnu við Vestnorræna ráðið, ræðis- og sendiskrifstofur, borgaryfirvöld, ferðamálaráð og listastofnanir, sem og stjórnendur Norrænu húsanna.
     Rökstuðningur.
    Hugmyndin um vestnorrænan dag, sem haldinn verði hátíðlegur árlega á öllum Vestur- Norðurlöndunum, á rætur sínar að rekja til vestnorræna dagsins sem haldinn var hátíðlegur í annað sinn helgina 26.–27. apríl 2008 á Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn. Meðan á helgarhátíðinni stóð var hvert Vestur-Norðurlandanna með sinn eigin landkynningarbás þar sem tónlistaratriði voru flutt, auk þess sem sala fór fram á mat og öðrum vörum.
    Markmið vestnorræna dagsins á Vestur-Norðurlöndunum yrði að marka vestnorræna sögu og menningu á Vestur-Norðurlöndunum og auka þar með samband og samkennd þjóðanna sem í hlut eiga.
    Ráðið hvetur vestnorræn stjórnvöld til að skipa verkefnastjóra innan menningarmálaráðuneytis hvers lands sem hafi það hlutverk að vinna að undirbúningi dagsins í samvinnu við Vestnorræna ráðið, ræðis- og sendiskrifstofur, borgaryfirvöld, ferðamálaráð og listastofnanir landanna, sem og stjórnendur Norrænu húsanna.
    Lagt er til að halda vestnorræna daginn í fyrsta sinn hátíðlegan lokahelgi ágústmánaðar árið 2010 í tengslum við fyrirhugaða útgáfu bókar um sameiginlega sögu og menningu Vestur-Norðurlanda sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Lagt er til að haldið verði upp á daginn á öllum Vestur-Norðurlöndunum með hátíð sem samanstandi af margs konar listviðburðum, kynningu á matarmenningu þjóðanna, tónlistarhefðum og íþróttum. Einnig er lagt til að árlega sé vestnorræni dagurinn haldinn sérstaklega hátíðlegur til skiptis í Færeyjum, Grænlandi og Íslandi.
    Mælt er með að fyrsti undirbúningsfundur að stofnun vestnorræns dags fari fram á vegum menningarmálaráðuneyta landanna og Vestnorræna ráðsins eigi síðar en fyrir þinglok vorið 2009.“