Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 302. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 600  —  302. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um sameiginlega sjúkraskrá fyrir landið allt.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir tillögum stýrihóps um upplýsingatækni í nýlegri áfangaskýrslu um uppbyggingu og rekstur rafrænnar sjúkraskrár og varða:
     a.      uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár og sameiningu sjúkraskráa heilbrigðisumdæma,
     b.      rafrænt sjúkraskrárkerfi sem uppfylli kröfulýsingu heilbrigðisráðuneytis,
     c.      nýja miðstöð sjúkraskrár,
     d.      rafrænt fyrirmælakerfi,
     e.      aðgengi sjúklinga að eigin upplýsingum á netinu?
    Óskað er eftir svari fyrir hvern lið.


    a. Að óbreyttum lögum er ekki heimilt að sameina sjúkraskrár tveggja eða fleiri heilbrigðisstofnana. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um sjúkraskrár. Frumvarpið gerir m.a. ráð fyrir því að hægt verði að samtengja sjúkraskrárkerfi á milli heilbrigðisstofnana og þar með einnig innan heilbrigðisumdæma. Þannig mun heilbrigðisstarfsfólk hafa greiðan og öruggan aðgang að mikilvægum heilbrigðisupplýsingum hvar og hvenær sem þörf er á, óháð skráningarstað. Með þarfir sjúklingsins í huga er nokkuð ljóst að mjög mikilvægt er að læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður, sem kemur að greiningu hans og meðferð, hafi aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum. Ein samræmd sjúkraskrá hvers einstaklings frá „vöggu til grafar“ er líka ein af forsendum þess að sjúklingurinn sjálfur geti fengið aðgang að eigin sjúkraskrárupplýsingum, óháð skráningarstað, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ráðherra leggur því áherslu á að frumvarpið verði samþykkt á þessu þingi.
    Verði frumvarp um sjúkraskrár að lögum skapast nýr grundvöllur til uppbyggingar samræmdrar sjúkraskrár einstaklings. Það er skoðun heilbrigðisráðherra að hefja skuli sameiningu innan heilbrigðisumdæma annars vegar og hins vegar á milli Landspítala og Kragasjúkrahúsa (Heilbrigðisstofnunarinnar á Akranesi, Heilbrigðisstofnunarinnar á Suðurlandi, Heilbrigðisstofnunarinnar á Suðurnesjum, St. Jósefsspítala — Sólvangs), eins og stýrihópur um upplýsingatækni á heilbrigðissviði leggur til, enda verði öllum öryggisstöðlum og nauðsynlegum aðgangsstýringum með rekjanleika fylgt til hins ýtrasta. Ráðherra mun beita sér fyrir því að þessi hugmynd starfshópsins verði að veruleika eins fljótt og verða má.

    b. Skýrslan Almenn kröfulýsing um sjúkraskrárkerfi Lágmarkskröfur var gefin út af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu (nú heilbrigðisráðuneytinu) í mars árið 2001. Í kröfulýsingunni eru settar fram grunnkröfur fyrir almenn sjúkraskrárkerfi, svo sem um gagnauppbyggingu í sjúkraskrám, gagnaöryggi, upplýsingaflæði og annað sem öll sjúkraskrárkerfi skulu uppfylla. Ætlunin var að ekki yrði heimilt að nota sjúkraskrárkerfi á Íslandi sem ekki uppfylltu alla þætti almennu kröfulýsingarinnar. Kröfulýsingin hefur þó einungis verið í formi tilmæla, þar sem lagagrundvöll skortir til að fylgja henni eftir. Í frumvarpi til laga um sjúkraskrár er hins vegar gert ráð fyrir því að heilbrigðisráðherra setji reglugerð um kröfulýsingu sjúkraskrárkerfa og geti þar með breytt tilmælum í fyrirmæli.
    Mikilvægt er að endurskoða hina almennu kröfulýsingu, en ýmsar framfarir hafa orðið í upplýsingatæknimálum á þeim átta árum sem liðin eru frá því hún var skrifuð. Vinnuhópar hafa nú þegar verið myndaðir til að endurskoða kröfulýsinguna og koma með tillögur um vottunarferli. Vinnuhóparnir skila af sér fyrstu drögum í júní næstkomandi. Stefnt er að því að hin endurskoðaða almenna kröfulýsing öðlist gildi með reglugerð eins fljótt og auðið er, ef lög um sjúkraskrár verða samþykkt. Heilbrigðisráðherra telur það mjög brýnt. Ákveðinn tími verður gefinn til að aðlaga þau sjúkraskrárkerfi sem þegar eru í notkun að settum kröfum. Ekki liggur fyrir ákvörðun um útboð, en verði farið út í slíkt mun hin endurskoðaða almenna kröfulýsing liggja því til grundvallar.

    c. Stýrihópur um upplýsingatækni á heilbrigðissviði hefur lagt til að sett verði á stofn miðstöð sem skuli annast samræmingu og framkvæmd stefnu ráðuneytisins um rafræna sjúkraskrá og heilbrigðisnet. Hvort sem framkvæmd verkefnisins verður falin einni af núverandi undirstofnunum ráðuneytisins eða nýrri stofnun er mikilvægt að heilbrigðisráðuneytið tryggi með samhæfðri stefnumótun að uppbygging og rekstur rafrænnar sjúkraskrár og innleiðing heilbrigðisnets á landsvísu verði á einni hendi. Á síðari stigum málsins verður tekin afstaða til þessa þáttar. Það er í þessu sambandi vilji heilbrigðisráðherra að huga sérstaklega að því hvort miðstöð af þessu tagi mætti setja niður utan Reykjavíkur.

    d. Stýrihópurinn leggur til að hafin verði þróun rafræns fyrirmælakerfis (CPOE — Computerized Physician Order entry) fyrir samræmda rafræna sjúkraskrá. Næstu skref eru að greina frekar þörfina fyrir slíkt kerfi.

    e. Stýrihópurinn um upplýsingatækni á heilbrigðissviði hefur lagt til að sjúklingar eigi þess kost að geta nálgast heilsufarsupplýsingar sínar á netinu og verði aðgangur að lyfjaupplýsingum settur í forgang. Forsenda þess að sjúklingur geti nálgast eigin heilsufarsupplýsingar miðlægt er samtenging sjúkraskráa einstaklingsins hjá öllum meðferðaraðilum innan heilbrigðiskerfisins. Einnig verður þörf á innleiðingu rafrænna skilríkja þannig að ekki fari á milli mála hvaða aðili opnar sjúkraskrána. Ljóst er að um mikið öryggismál og hagræði er að ræða fyrir sjúklinga. Heilbrigðisráðherra mun láta framkvæma nánari greiningu og kostnaðarmat verkefnisins. Þá hyggst heilbrigðisráðherra láta kanna sérstaklega ýmis lagaleg og siðfræðileg atriði sem upp kynnu að koma með því að sjúklingar fengju rafrænan (remote) aðgang að heilsufarsupplýsingum sínum.