Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 369. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 623  —  369. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að endurmeta byggingu hátæknisjúkrahúss.

Flm.: Jón Gunnarsson, Jón Magnússon, Kjartan Ólafsson.



    Alþingi ályktar að vegna breytinga á stöðu þjóðarbúsins skuli endurmeta hugmyndir um byggingu svokallaðs hátæknisjúkrahúss á Landspítalalóð.

Greinargerð.


    Við bankahrunið í október sl. var ljóst að aðstæður Íslendinga höfðu gjörbreyst og að ríkið þyrfti að taka á sig miklar skuldir og skuldbindingar sem mundu takmarka mjög möguleika á því að ráðast í ýmsar framkvæmdir sem ráð var fyrir gert og æskilegt væri að yrðu að veruleika þegar aðstæður breytast á nýjan leik til batnaðar. Mikil skuldsetning ríkisins kallar á endurmat einstakra verkefna.
    Flutningsmenn telja brýnt að heilbrigðisþjónustan hér á landi sé jafnan í fremstu röð og þess gætt að húsnæði sé gott og búnaður góður.
    Nú er brýnt að stjórnvöld móti nýja stefnu til að efla og tryggja uppbyggingu þeirrar heilbrigðis- og sjúkrahússþjónustu sem fyrir er. Ljóst er að brýn viðhaldsverkefni og endurnýjun búnaðar í heilbrigðiskerfinu hefur setið á hakanum. Á fjárlögum þessa árs eru háar fjárhæðir ætlaðar til undirbúnings byggingar hátæknisjúkrahúss. Ljóst er að fresta verður þeirri framkvæmd um óákveðinn tíma vegna stöðu þjóðarbúsins. Flutningsmenn telja því eðlilegt að byggja upp og styrkja þær sjúkrastofnanir sem fyrir eru og endurskoða t.d. byggingar við Landspítala til að bæta þjónustuna. Bygging nýs hátæknisjúkrahúss getur hins vegar ekki verið á dagskrá fyrr en staða þjóðarbúsins verður önnur og mun betri en nú er.