Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 371. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 626  —  371. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004, með síðari breytingum.

Frá viðskiptanefnd.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 19. gr. skal eftirlitsgjald ekki innheimt fyrir árið 2009. Kostnaður við starf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala á árinu 2009 skal greiðast úr sjóði nefndarinnar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa skulu fasteignasalar greiða árlegt eftirlitsgjald fyrir 1. júlí ár hvert. Fjárhæð gjaldsins nemur 100.000 kr. og skal standa straum af kostnaði við störf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala. Frá því að innheimta eftirlitsgjaldsins hófst hefur safnast digur sjóður. Í frumvarpi til nýrra heildarlaga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa sem lagt var fram í apríl 2008 var gert ráð fyrir að gjaldið yrði lækkað í 80.000 kr., en gjaldið yrði þó ekki innheimt fyrr en 1. júlí 2010. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu.
    Með hliðsjón af því ástandi sem nú ríkir, þar sem sala fasteigna hefur m.a. stórlega minnkað, er með frumvarpi þessu lagt til að gjaldið verði ekki innheimt á árinu 2009. Nú stendur yfir heildarendurskoðun á lögunum og er gert ráð fyrir að frumvarp í þeim efnum verði lagt fram á Alþingi næsta vetur.