Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 341. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 706  —  341. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um íslenskt merki fyrir ábyrgar fiskveiðar.

     1.      Hvernig gengur að koma á íslensku merki fyrir ábyrgar fiskveiðar?
    Á vettvangi Fiskifélags Íslands, fyrir hönd hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi, hefur á undanförnum árum verið unnið að verkefni til undirbúnings íslensks merkis um ábyrgar fiskveiðar. Var merkið kynnt á íslensku sjávarútvegssýningunni í byrjun október á síðasta ári. Hefur merkið nú þegar verið tekið í almenna notkun.
    Þá er, á vettvangi og á ábyrgð Fiskifélags Íslands, nú unnið að undirbúningi að vottun ábyrgra fiskveiða.

     2.      Hver er hlutur ríkisins við að koma merkinu á og hver er áætlaður kostnaður við það úr ríkissjóði?
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur stutt við undirbúning og vinnu við að koma merkinu á. Verkefnið er unnið í samvinnu ráðuneytisins og hagsmunaaðila í sjávarútvegi, sem standa að Fiskifélagi Íslands. Sérstakur starfshópur hefur unnið að verkefninu og hefur ráðuneytið átt fulltrúa í starfshópnum frá upphafi.
    Fjárframlög úr ríkissjóði, auk vinnu framlags starfsmanns ráðuneytisins (starfshópur), Hafrannsóknastofnunarinnar og Fiskistofu (tækninefnd), hafa verið eftirfarandi:
    AVS-styrkur vegna undirbúningsverkefnisins um vottun, sem er þriggja ára verkefni. Fengist hafa 6 millj. kr. á ári fyrir árin 2007 og 2008. Framhaldsumsókn fyrir síðasta árið, 2009, upp á 6 millj. kr., er til skoðunar hjá AVS-sjóðnum.
    Samningur, dags. 21. júlí 2008, milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og Fiskifélags Íslands. Styrkupphæð 5 millj. kr. Þannig hafa framlög ríkissjóðs til verkefnisins numið alls 17 millj. kr.

     3.      Hvernig er kröfulýsing sú sem vottunaraðila er ætlað að vinna eftir?
    Drög að kröfulýsingu (Specification for Responsible Fisheries) liggja fyrir. Drögin hafa verið unnin af starfshópi og eru þau í samræmi við efniskröfur leiðbeininga FAO um umhverfismerkingar og vottun.
    Tækninefnd, sem samanstendur af umræddum starfshópi auk fulltrúa frá Hafrannsóknastofnuninni og Fiskistofu, vinnur nú að frágangi kröfulýsingarinnar. Þegar endanleg gerð hennar liggur fyrir mun hún fara í opinbera kynningu í a.m.k. 60 daga, þar sem áhugasamir og hlutaðeigandi aðilar geta kynnt sér innihald hennar og komið athugasemdum á framfæri.

     4.      Hvernig samrýmist nýleg 30 þús. tonna viðbótarúthlutun þorskaflamarks gegn mótmælum Hafrannsóknastofnunarinnar ákvæðum þessarar kröfulýsingar og yfirlýsingu um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga frá ágúst 2007?

    Umrædd kröfulýsing er ekki frágengin og því ekki forsendur til þess að svara spurningunni á þeirri forsendu.
    Varðandi það hvernig breytt aflamark í þorski samræmist yfirlýsingu um ábyrgar fiskveiðar er nærtækast að vísa til yfirlýsingar fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í yfirlýsingu hans kemur fram að þótt uppbygging viðmiðunar- og hrygningarstofns þorsks verði hægari en fyrirhugað var sé ákvörðunin í samræmi við yfirlýst markmið um sjálfbærar veiðar á þorski sem og öðrum nytjastofnum hér við land. Þá kom fram að ákvörðunin sé m.a. tekin með hliðsjón af jákvæðari vísbendingum um stöðu þorskstofnsins sem fram komu í stofnmælingu botnfiska síðastliðið haust.