Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 419. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 712  —  419. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

Flm.: Birkir J. Jónsson, Eygló Harðardóttir, Helga Sigrún Harðardóttir,


Höskuldur Þórhallsson, Magnús Stefánsson, Siv Friðleifsdóttir,


Valgerður Sverrisdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að útfæra og koma til framkvæmdar eftirfarandi aðgerðum til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs:
     1.      Vextir verði lækkaðir í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
     2.      Lífeyrissjóðum verði veitt heimild til gjaldeyrisviðskipta.
     3.      Samið verði við erlenda eigendur krónueigna.
     4.      Settur verði á fót uppboðsmarkaður með krónur.
     5.      Lokið verði við stofnun nýju bankanna fyrir 1. apríl 2009.
     6.      Kröfuhafar fái hlut í nýju bönkunum.
     7.      Unnið verði að sameiningu og endurskipulagningu banka og fjármálastofnana.
     8.      Ríkið ábyrgist lán til skamms tíma á milli banka.
     9.      Peningamagn í umferð verði aukið.
     10.      Veitt verði heimild til skráningar hlutafjár í erlendri mynt.
     11.      Gerð verði drög að fjárlögum til ársins 2012.
     12.      Komið verði á fót samráðsvettvangi með útflutningsfyrirtækjum og atvinnugreinum.
     13.      Ríkið verði bakhjarl vegna fjármögnunar útflutnings.
     14.      Stutt verði við rannsókna- og þróunarstarf.
     15.      Fasteignamarkaðurinn verði örvaður.
     16.      Stimpilgjöld verði afnumin.
     17.      Skattar verði lagðir á eignir erlendis.
     18.      Skuldir verði felldar niður að hluta til bjargar skuldsettum heimilum og fyrirtækjum.

Greinargerð.


    Eftir fall bankakerfisins í byrjun október 2008 hefur skapast ástand í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar sem verður að bregðast við af öllu afli. Við óvenjulegar aðstæður eins og nú eru þarf að beita óhefðbundnum aðgerðum, sem þessi tillaga felur í sér.
    Minnihlutaríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tók til starfa 1. febrúar 2009. Framsóknarflokkurinn hefur heitið því að verja minnihlutaríkisstjórnina vantrausti á Alþingi og setti fyrir því tiltekin skilyrði. Í því fólst fyrst og fremst að þá strax yrði ráðist í efnahagslegar aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs. Framsóknarflokkurinn var þeirrar skoðunar að ekki mætti bíða með aðgerðir til að forða þjóðinni frá frekari áföllum en orðið höfðu. Þegar tillaga þessi er lögð fram á Alþingi er liðinn rúmlega einn mánuður frá því að minnihlutaríkisstjórnin tók til starfa og telja framsóknarmenn að ríkisstjórnin hafi ekki ráðist í þær nauðsynlegu og aðkallandi aðgerðir sem voru forsendur þess að ríkisstjórnin var mynduð með atbeina Framsóknarflokksins. Af þeim ástæðum er þessi þingsályktunartillaga lögð fram sem framlag Framsóknarflokksins til þess að ráðist verði í aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs og skapa forsendur til endurreisnar efnahagslífinu. Hér á eftir er gerð grein fyrir einstökum liðum tillögunnar.

1. Vextir verði lækkaðir í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
    Nauðsynlegt er að lækka vexti strax til að forða fjöldagjaldþrotum heimila og fyrirtækja og koma efnahagskerfinu aftur í gang. Hið háa vaxtastig er nú þegar langt komið með að þurrka upp lausafé fyrirtækja. Auk þess stefnir það fjölda heimila í greiðsluþrot og hindrar nýsköpun.
    Til þess að Seðlabankinn geti lækkað vexti hratt þurfa stjórnvöld að kynna Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) kröfu stjórnvalda um að bankanum verði heimilað að lækka vexti. Ítarlegar upplýsingar þurfa að fylgja um samsetningu verðbólgu sem sýna að ástæðulaust sé að óttast áhrif vaxta á verðbólgu við núverandi aðstæður. Við þessar aðstæður er erfitt fyrir AGS að hafna slíkri beiðni. Verðbólgukúfurinn vegna gengislækkunar síðustu þriggja mánaða ársins 2008 er að mestu genginn yfir. Nú eru ekki lengur sjáanlegir neinir umtalsverðir verðbólguhvatar í kerfinu. Gögn Seðlabankans staðfesta þetta. Í raun hefur skapast hætta á verðhjöðnun seinna á árinu. Aðrar þjóðir hafa lækkað vexti allt niður í núll prósent þrátt fyrir að það kunni að valda því að raunvextir verði neikvæðir til skamms tíma. Sé það ekki gert hér er íslensku atvinnulífi og heimilum veruleg hætta búin.
    Aðkallandi er að nú þegar verði ráðist í lækkun vaxta.

2. Lífeyrissjóðum verði veitt heimild til gjaldeyrisviðskipta.
    Lífeyrissjóðir eiga miklar eignir erlendis. Gera þarf þeim kleift að selja erlendar eignir og fjárfesta innan lands, kjósi þeir svo, með því að heimila þeim að eiga gjaldeyrisviðskipti. Þannig gætu lífeyrissjóðirnir keypt krónur á hagstæðum kjörum af þeim erlendu aðilum sem eiga krónueignir og vilja selja þær. Lífeyrissjóðirnir gætu með þessu móti selt minni hluta erlendra eigna sinna en ella fyrir sama magn af krónum og þannig nýtt ástandið sér til hagsbóta. Þann 12. febrúar sl. voru 38 fyrirtæki undanþegin reglum Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti.
    Mikilvægt er að þessar aðgerðir komist nú þegar til framkvæmda.

3. Samið verði við erlenda eigendur krónueigna.
    Talið er að erlendir aðilar eigi eignir í íslenskum krónum sem nemi 350–500 milljörðum. Þar er um að ræða jöklabréf en einnig ríkisskuldabréf og innstæður á bankareikningum. Þetta skapar þrýsting á krónuna, til veikingar, og ekki er hægt að afnema gjaldeyrishöft fyrr en þessum þrýstingi hefur verið aflétt. Rétt er að gefa erlendum eigendum krónueigna kost á að semja um að þeir losi eignir sínar á ásættanlegu verði. Ekki er þó hægt að treysta á að þeir verði allir losaðir út með slíkum samningum. Ríkisvaldið getur stuðlað að viðræðum þótt Seðlabankinn eða viðskiptabankarnir annist þær enda hafa þeir náin tengsl við umrædda aðila. Einnig geta lífeyrissjóðir komið að slíkum samningum og keypt krónur á hagstæðum kjörum með því að nýta heimild sína til að eiga viðskipti með gjaldeyri.
    Lokið verði við þessa samninga í mars og apríl 2009.

4. Settur verði á fót uppboðsmarkaður með krónur.
    Létta má þrýstingi á krónuna umfram það sem náð verður með fyrrgreindum aðgerðum með því að Seðlabankinn setji á fót uppboðsmarkað með íslenskar krónur. Það mun flýta fyrir því að gjaldeyrishöft verði afnumin án þess að hafa í för með sér stórfellda veikingu krónunnar með tilheyrandi vanda fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Í slíkum uppboðum gæfist erlendum aðilum kostur á að selja krónur en lífeyrissjóðum, erlendum aðilum og ríkinu að kaupa krónur. Uppboðin gætu verið reglulega, til dæmis tvisvar í mánuði. Þetta tryggir hagstætt verð frá þeim erlendu krónueigendum sem vilja losna og á sama tíma fengju lífeyrissjóðirnir krónur á hagstæðu verði. Kaupi lífeyrissjóðir krónur á uppboðunum losnar um þrýsting frá erlendum krónueigendum án þess að ríkið þurfi að ganga á gjaldeyrisforða sinn. Lífeyrissjóðirnir koma um leið eignum heim með eins hagkvæmum hætti og kostur er. Ávinningurinn er því tvöfaldur.

Dæmi um uppboðsaðferð:

Sala á ISK Kaup á ISK
Magn (ISK) Verð (EUR/ISK) Magn (ISK) Verð (EUR/ISK)
100 180   50 210
  50 200 250 230
200 230 100 270
150 275

Miðað við tilboðin hér að ofan yrðu eftirfarandi viðskipti:

Magn Verð
150 275
200 230

    Þessi aðgerð verði komin til framkvæmdar í lok apríl 2009.

5. Lokið verði við stofnun nýju bankanna fyrir 1. apríl 2009.
    Forsenda þess að nýju bankarnir geti sinnt því hlutverki sínu að þjónusta heimili og fyrirtæki er að stofnefnahagsreikningur þeirra liggi fyrir. Ákveða þarf hvaða eignir og skuldbindingar gömlu bankanna færast yfir í nýju bankanna auk þess sem ljúka þarf verðmati á umræddum eignum og skuldum.
    Lokið verði við stofnun bankanna fyrir 1. apríl 2009.

6. Kröfuhafar fái hlut í nýju bönkunum.
    Með setningu neyðarlaga á Alþingi þann 6. október 2008 voru innlán gerð rétthærri öðrum skuldum bankanna og bönkunum skipt í gamla (slæma) og nýja (góða) banka. Sá gjörningur gæti hæglega bakað ríkinu gríðarmikla skaðabótaskyldu. Til að koma til móts við kröfuhafa má færa þeim hlutafé í nýju bönkunum sem nemur skerðingu krafna þeirra. Með þessu móti færu einnig saman hagsmunir ríkisins og íslensks efnahagslífs annars vegar og kröfuhafa hins vegar við uppbyggingu bankanna. Kröfuhafar sæju sér hag í því að færa eignir úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju á lægra verði í því augnamiði að styrkja nýju bankana. Ríkið legði svo inn aukið eigið fé og fengi hlutabréf til samræmis við það. Til að tryggja yfirráð ríkisins yfir bönkunum meðan á uppbyggingu þeirra stendur verða hlutabréf ríkisins A-hlutabréf, sem veita atkvæðisrétt, en aðrir eigendur fá B-hlutabréf sem gætu til dæmis veitt forgang að arðgreiðslum.
    Þar sem misræmi er milli þeirra skulda og eigna sem nýju bankarnir taka við af gömlu bönkunum munu nýju bankarnir afhenda gömlu bönkunum skuldabréf til að jafna þann mun. Einnig gætu nýju bankarnir afhent kröfuhöfunum sjálfum skuldabréf fyrir hluta skuldarinnar (þ.e. beint). Gömlu bankarnir fengju svo það sem eftir stendur greitt með skuldabréfi útgefnu af nýju bönkunum, sjá tillögu 2:

Tillaga 1 Tillaga 2
Gömlu bankarnir 100 65
Kröfuhafar     0 35

    Þessari framkvæmd verði lokið fyrir lok maímánaðar 2009.

7. Sameining og endurskipulagning banka og fjármálastofnana.
    Í kjölfar uppskiptingar bankanna þarf að huga að framtíðarrekstri þeirra. Uppbygging nýrra banka er flókið og krefjandi verkefni og því rétt að dreifa ekki kröftunum um of. Sameining tveggja ríkisbanka gæti verið fýsilegur kostur. Einnig mætti sameina einn ríkisbanka fjármálastofnun eða stofnunum í einkaeigu, sparisjóðum eða bönkum. Þannig færu saman erlend sambönd (lánalínur og sambönd vegna miðlunar) hinna einkareknu fjármálastofnana og efnahagur nýs banka og úr yrði öflugri banki sem gæti strax veitt atvinnulífinu fulla þjónustu.
    Þessari aðgerð verði lokið á næstu tólf mánuðum, eða fyrir lok febrúar 2010.

8. Ríkið ábyrgist lán til skamms tíma á milli banka.
    Millibankamarkaður með krónur hefur nánast lagst af eftir bankahrunið í október 2008. Ein afleiðing þess er að fjármálastofnanir þurfa að liggja með meira reiðufé í sjóðum. Það fé liggur því ónotað og bankarnir geta síður lánað fyrirtækjum fé til skemmri tíma vegna þessa. Ríkið ætti að ábyrgjast lán milli fjármálastofnana til skamms tíma, til dæmis lánveitingar til viku eða skemmri tíma, til að koma millibankamarkaðnum aftur í gang.
    Mikilvægt er að koma þessari aðgerð til framkvæmdar nú þegar.

9. Aukning peningamagns í umferð.
    Eftirspurn í hagkerfinu er núna í lágmarki. Núverandi verðbólga stafar fyrst og fremst af mikilli veikingu krónunnar síðastliðið ár. Til að örva eftirspurn þarf að auka peningamagn í umferð eins og gert hefur verið víðast hvar á Vesturlöndum. Slíkt má til dæmis gera með því að setja upp sjóð sem kaupir eignir af bönkum fyrir ríkisbréf.
    Aðgerðinni verði komið til framkvæmdar fyrir lok júní 2009.

10. Heimild til skráningar hlutafjár í erlendri mynt.
    Það mun styðja við erlenda fjárfestingu fái hlutafélög heimild til skráningar hlutafjár í erlendri mynt. Enn fremur mun það treysta innlendan hlutafjármarkað. Nú þegar hafa íslensk hlutafélög heimild til uppgjörs í erlendri mynt og hafa mörg félög nýtt sér þá heimild.
Heimild þessi komi til framkvæmdar fyrir lok mars 2009.

11. Drög að fjárlögum til ársins 2012.
    Brýnt er að gera áætlanir um fjárþörf og fjárhag ríkissjóðs til lengri tíma litið. Í því skyni þarf að gera drög að fjárlögum til ársins 2012. Raunhæf drög að fjárlögum sem miða að því að ná jöfnuði innan fárra ára eru nauðsynleg til að endurheimta nokkuð af því trausti á efnahagsstjórn landsins sem glatast hefur á síðustu missirum. Það er mikilvægt út á við en einnig gagnvart íslenskum almenningi, stofnunum og fyrirtækjum sem þurfa að fá skýrari mynd af því sem er í vændum til að geta gert skynsamlegar ráðstafanir.
    Drög að fjárlögum til ársins 2012 liggi fyrir við upphaf haustþings 2009.

12. Samráðsvettvangur með útflutningsfyrirtækjum og atvinnugreinum.
    Komið verði á fót formlegum samráðsvettvangi ríkisstjórnarinnar með helstu útflutningsfyrirtækjum og útflutningsatvinnugreinum í því augnamiði að koma í veg fyrir að starfsemi einhverra þeirra fari úr landi, til að örva starfsemi þeirra til lengri tíma og skemmri og leita leiða til að raunvöxtur útflutningsatvinnugreina verði sem mestur. Ríkisstjórnin skipi fulltrúa í slíka nefnd sem og helstu útflutningsfyrirtæki og samtök tengd útflutningi.
    Þessum samráðsvettvangi verði komið á nú þegar.

13. Ríkið verði bakhjarl vegna fjármögnunar útflutnings.
    Útflutningsfyrirtæki eiga í vanda m.a. sökum þess að tryggingar útgefnar af íslenskum bönkum eru ekki viðurkenndar erlendis. Þessi vandi er brýnn en vonandi tímabundinn og því er æskilegt að ríkið tryggi starfsemi útflutningsfyrirtækja þar til aðrar tryggingar verða í boði.
    Hafinn verði undirbúningur þessa nú þegar og honum lokið á tveimur vikum.

14. Stuðningur við rannsókna- og þróunarstarf.
    Framsóknarflokkurinn telur afar mikilvægt að styðja við frumkvöðlastarf og nýsköpun. Í því augnamiði er lagt til að fyrirtæki fái skattafslátt vegna rannsókna- og þróunarstarfs. Fyrirtækjum verði heimilt að draga tvöfaldan kostnað við rannsókna- og þróunarstarf frá skatti. Þetta mun hvetja til rannsókna og þróunar og um leið miða að fjölgun starfa. Verði sú raunin nemur skattafslátturinn vart hærri upphæð en sparast með lægri greiðslum vegna atvinnuleysis. Þetta á sérstaklega við nú þegar óvenjumikill fjöldi fólks með menntun á sviðum sem tengjast rannsóknar- og þróunarstörfum hefur misst vinnu eða er líklegt til þess.
    Þessari aðgerð verði komið til framkvæmdar fyrir lok apríl 2009.

15. Aðgerðir til að örva fasteignamarkaðinn.
    Nauðsynlegt er að koma fasteignamarkaðnum í gang. Reglur Íbúðalánasjóðs taka mið af þörfum þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð þar sem hámarkslán er 20 millj. kr. og lánshlutfall er allt að 80%. Hækka á hámarkslán Íbúðalánasjóðs í 30 millj. kr. en lækka um leið lánshlutfall í 70%. Þannig nýtast lán frá Íbúðalánasjóði til kaupa á fleiri eignum en áhætta sjóðsins yrði um leið minnkuð vegna lægra lánshlutfalls. Lánshlutfall á lánum sem nema allt að 20 millj. kr. yrði þó áfram 80%. Einnig er æskilegt að heimila yfirtöku lána við íbúðarkaup, sama hver lánveitandinn er.
    Þessum aðgerðum til að örva fasteignamarkaðinn verði komið til framkvæmda fyrir lok maí 2009.

16. Stimpilgjöld afnumin.
    Stimpilgjöld lána vegna fasteignaviðskipta hafa verið afnumin að hluta til en lagt er til að þau verði afnumin að fullu. Nauðsynlegt er að koma fasteignamarkaðnum í gang aftur og mun þessi aðgerð stuðla að því.
    Afnám stimpilgjalda verði komið að fullu til framkvæmdar fyrir lok mars 2009.

17. Skattar af eignum erlendis.
    Þeim sem eiga óskattlagðar eignir erlendis, sem ekki hefur verið gerð grein fyrir, verði gefinn kostur á að gefa þær upp og greiða af þeim skatta auk vaxta og hugsanlegrar sektar, innan ákveðins frests, og gera þar með hreint fyrir sínum dyrum. Um leið fari fram rannsókn á eignum Íslendinga erlendis og í kjölfarið verði þeir sem ekki gáfu upp skattskyldar eignir beittir viðurlögum. Benda má á að bæði Þjóðverjar og Bretar hafa farið þessa leið.
    Þessari aðgerð verði komið til framkvæmdar fyrir 1. mars 2010.

18. Aðgerðir til bjargar skuldsettum heimilum og fyrirtækjum.
    Lagt er til að ráðist verði í niðurfellingu á hluta af skuldum heimila og atvinnufyrirtækja. Þess má geta að ýmsir aðilar hafa komið fram með hugmyndir um niðurfærslu skulda. Þær hugmyndir hafa verið misjafnlega útfærðar en átt það sammerkt að ganga út á niðurfellingu á hluta af skuldum. Athyglisvert er að sömu aðilar hafa gagnrýnt þær tillögur um niðurfærsluleið sem hér er gerð grein fyrir en hugmyndir þeirra hinna sömu hafa í raun gengið út á það sama.
    Hér verður annars vegar gerð grein fyrir 20% niðurfellingu skulda heimila með hugsanlegu hámarki á heildarfjárhæðir. Hins vegar er gerð grein fyrir tillögum um 20% niðurfærslu skulda atvinnufyrirtækja:

HEIMILI


Jafnræði skuldara.

    Öll húsnæðislán verða færð frá bönkunum til Íbúðalánasjóðs miðað við þá afskrift sem varð eða verður á lánasöfnum við flutninginn frá gömlu bönkunum til nýju bankanna (e.t.v. 50%). Íbúðalánasjóður veitir svo flata 20% skuldaniðurfellingu allra húsnæðislána. Þetta er gert til að tryggja jafnræði milli þeirra sem voru með húsnæðislán hjá bönkunum og hjá Íbúðalánasjóði. Í þessu skyni eru húsnæðislán bankanna afskrifuð meira en ella hefði verið við flutning frá gömlu bönkunum í þá nýju. Til mótvægis eru lán til fyrirtækja afskrifuð um hlutfallslega lægri upphæð en tilefni var til og bönkunum bætt það með stuðningi ríkisins við fyrirtæki í vanda (sjá 9. tölul.).
    Þetta felur ekki í sér útgjöld fyrir ríkið þar eð með þessu er verið að gera upp tap erlendra kröfuhafa. Hins vegar gæti ríkið þurft að kaupa fasteignalán með afslætti af lífeyrissjóðum og sparisjóðum til að setja inn í Íbúðalánasjóð fyrir skuldaniðurfellinguna (til að tryggja jafnræði viðkomandi lántakenda). Raunar voru sparisjóðir í samstarfi við Íbúðalánasjóð og sumir sparisjóðanna hafa þegar selt Íbúðalánasjóði lánin. Kostnaðurinn við það næmi innan við 10% af því sem til stendur að verja í endurfjármögnun bankanna. Með því yrði staða sparisjóða og lífeyrissjóða auk þess styrkt.
    Skoða mætti að endurgreiða þeim sem greiddu upp lán eftir 30. september 2008 20% af upphæðinni á tilteknu tímabili (óveruleg fjárhæð miðað við heildina) til að gæta jafnræðis allra sem skulduðu húsnæðislán við upphaf bankahrunsins.

Fjármagn losað í annað á meðan niðursveiflan er mest.


    Hlutfallslega hærri hluti niðurfellingarinnar kæmi til á næstu mánuðum til að ýta enn frekar undir flæði fjármagns í hagkerfin og gefa fólki aukið svigrúm til að greiða af öðrum lánum. Íbúðalánasjóður mundi því greiða bönkunum fyrir lánin með því að afhenda þeim helming bréfanna strax og helming seinna.
    Æskilegt væri að Íbúðalánasjóður gæfi út langtímabréf til bankanna sem samsvarar greiðsluflæði lánanna. Þessi bréf yrðu afhent nýju bönkunum og þeir gætu selt þau eða átt. Kysu þeir að halda bréfunum gætu þeir lagt þau inn í Seðlabankanum og fengið reiðufé gegn veði í bréfunum.
    Þetta gæfi Íbúðalánasjóði færi á að gefa út uppgreiðanleg skuldabréf og minnka þannig uppgreiðsluáhættu sjóðsins.

Álitamál.


    Það gæti þótt gagnrýni vert að þeir sem tóku óhóflega há lán skuli með þessari aðferð fá umtalsvert meiri niðurfellingu en þeir sem tóku lægri lán. Sá sem tók 10 millj. kr. lán í erlendri mynt en skuldar nú 20 millj. kr. fengi þannig 4 millj. kr. niðurfellingu en sá sem tók 100 millj. kr. lán sem nú stendur í 200 millj. fengi 40 millj. kr. niðurfellingu. Það ber þó að hafa í huga að sá síðarnefndi skuldar eftir sem áður 160 millj. kr. sem gæti verið töluvert meira en viðkomandi getur borgað. Sé hugsunin sú að skuldaniðurfærslan sé réttlætt á þeim forsendum að lántakendur hafi mátt þola ófyrirséða atburði sem hafi breytt þeim forsendum sem þeir gengu út frá við lántökuna (t.d. gengishrun eða 20% verðbólgu án þess að tekjur fylgdu verðlagsþróun) er eðlilegt að þeir sem skulda mikið fái hlutfallslega sömu niðurfærslu og þeir sem skulda lítið. Þeir sem skulda verðtryggð lán eru því álíka vel staddir og þeir hefðu verið ef hinir ófyrirséðu atburðir hefðu ekki orðið en þeir sem skulda gengistryggð lán fá einnig niðurfellingu og eiga von um að gengið styrkist frekar í framtíðinni. Skuldlausir eru vel settir eftir sem áður og er forðað frá afleiðingum þess að fjöldagjaldþrot rýri verðmæti eigna þeirra.

Fjármögnun.


    Nýju bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna með verulegum afslætti (50%). Það er því ekki ríkið sem tapar á skuldaniðurfærslunni heldur erlendu kröfuhafarnir. Fyrir erlendu fjárfestana er skaðinn þó þegar skeður og flestir þeirra hafa fært niður íslenskar eignir, margir niður í 0%, þ.e. afskrifað þær með öllu.
    Það er hagur þessara kröfuhafa og þeirra sem ekki skulda (m.a. óskuldsettra heimila) að ráðist verði í aðgerðir til að koma íslenska hagkerfinu aftur af stað og forða fjöldagjaldþrotum. Íslenskir eigendur eiginfjár (þ.e. fólk og fyrirtæki sem á meira en það skuldar) og erlendir kröfuhafar tapa á því ef þeir skuldsettu ná sér ekki á strik. Geri þeir það eiga kröfuhafarnir von um að fá eitthvað upp í skuldir. Jafnframt er þetta mikilvægt fyrir óskuldsett eða lítið skuldsett heimili til að vandamálin færist ekki yfir á þau, þ.e. ef stór hluti fólks getur ekki staðið undir fasteignalánum og missir húsnæði sitt hrynur fasteignaverð enn frekar en ella. Þá lenda sífellt fleiri heimili í því að eigið fé þeirra verður neikvætt.

Afskriftir hjá öllum eða hvert tilvik metið.


    Flöt niðurfelling er tekin fram yfir þann kost að meta hvert tilvik fyrir sig til að forðast öll þau praktísku vandamál sem mundu fylgja seinni kostinum. Við núverandi aðstæður hafa bankar og stjórnvöld hvorki getu né tíma til að leggja mat á stöðu hvers einasta heimilis og úthluta þeim tiltekinni skuldaniðurfellingu. Slíkt mundi auk þess skapa endalaus álitamál og gæti orðið jarðvegur spillingar. Þegar niðurfellingin hefur verið framkvæmd verða þó eftir sem áður einhver heimili í vandræðum. Það verður þó vonandi viðráðanlegri fjöldi og þá getur Íbúðalánasjóður tekið á vanda þess fólks samkvæmt þeim úrræðum sem hann býr nú yfir.

FYRIRTÆKI


    Það sama á við um fyrirtæki og heimili. Raunhæfasta og sanngjarnasta leiðin er sú að eitt sé látið yfir alla ganga. Það er æskilegast hvort sem um er að ræða mjög illa stödd, sæmilega stödd eða vel stödd fyrirtæki.
    Fyrirtæki sem er mjög illa statt fjárhagslega verður líklega gjaldþrota hvort sem það fær 20% skuldaniðurfellingu eða ekki. Það felst því enginn skaði í því fyrir kröfuhafann að gefa eftir 20% skuldarinnar, enda eru þeir peningar líkast til hvort eð er tapaðir. Fyrir sæmilega stæð fyrirtæki getur 20% skuldaniðurfelling hins vegar skipt sköpum (samhliða vaxtalækkun). Þau geta þá haldið áfram rekstri og komist hjá því að segja upp fólki. Vel stödd fyrirtæki sem fá skuldaniðurfellinguna eru hins vegar ekki síður mikilvæg. Það eru fyrirtækin sem munu þá hafa eigið fé til uppbyggingar, þ.e. til að kaupa önnur félög (m.a. þau sem fara í þrot), standa að nýsköpun og stuðla að uppbyggingu atvinnulífsins.
    Þessar aðgerðir verði hafnar fyrir miðjan apríl 2009.