Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 420. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 713  —  420. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga frá Neytendastofu til Brunamálastofnunar.

Frá umhverfisnefnd.



1. ÞÁTTUR
Breyting á löggjöf umhverfisráðuneytis.
I. KAFLI     
Breyting á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: hafa eftirlit með framkvæmd laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

2. ÞÁTTUR
Breyting á löggjöf viðskiptaráðuneytis.
II. KAFLI
Breyting á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, með síðari breytingum.

2. gr.

    Í stað orðsins „Neytendastofu“ í 3. gr. laganna og í stað sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, nema í 2. mgr. 9. gr., 12. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 5., 7. og 8. tölul. 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 15. gr., kemur í viðeigandi beygingarfalli: Brunamálastofnun.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Eftirlit með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga í mannvirkjum samkvæmt lögum þessum skal vera í höndum Brunamálastofnunar. Neytendastofa framkvæmir markaðseftirlit með rafföngum sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Neytendastofa skal skera úr ágreiningi um öryggi raffanga á markaði sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum, svo og skera úr um til hvaða öryggisráðstafana skuli grípa til að afstýra hættu og hver beri ábyrgð á og kostnað af framkvæmd úrbóta.

4. gr.

    Í stað orðanna „skal Neytendastofa“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: skal Brunamálastofnun eða Neytendastofa, sé um að ræða rafföng sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum.

5. gr.

    Á eftir 1. málsl. 10. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sömu heimildir skal Neytendastofa hafa sé um að ræða markaðseftirlit með rafföngum sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sé um að ræða tilkynningu sem varðar rafföng á markaði sem Neytendastofa hefur eftirlit með skal Brunamálastofnun framsenda málið Neytendastofu.
     b.      Við bætist ný málsgrein er verður 5. mgr., svohljóðandi:
             Sömu heimildir og greinir í 2.–4. mgr. hefur Neytendastofa sé um að ræða rafföng á markaði sem hún hefur eftirlit með.
     c.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi Neytendastofa upplýsingar um slík brot skal hún tilkynna það Brunamálastofnun án tafar.
     d.      Í stað 6.–8. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Stjórnvaldsákvarðanir Brunamálastofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem starfar á grundvelli 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, að undanskildum ákvörðunum um dagsektir. Um meðferð kæru og um kæruaðild fer samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.
                  Stjórnvaldsákvarðanir Neytendastofu sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru kæranlegar til áfrýjunarnefndar neytendamála, sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda, að undanskildum ákvörðunum um dagsektir. Um meðferð kæru og um kæruaðild fer samkvæmt ákvæðum laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.
                  Málskot skv. 7. og 8. mgr. frestar ekki framkvæmd ákvörðunar. Verða ákvarðanir Brunamálastofnunar og Neytendastofu ekki bornar undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála eða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála liggur fyrir.
                  Nú vill aðili ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála eða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndar eða úrskurðarnefndar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurða nefndanna né heimild til aðfarar.

7. gr.

    Á eftir orðinu „Starfsmenn“ í 1. málsl. 12. gr. laganna kemur: Brunamálastofnunar; og á eftir orðunum „fyrirstöðu að“ í 2. málsl. sömu greinar kemur: Brunamálastofnun eða.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna.
     a.      Á eftir orðunum „rafmagnsöryggismála sem“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Brunamálastofnun og.
     b.      Orðin „samkvæmt gjaldskrá sem Neytendastofa gefur út og ráðherra staðfestir“ í 2., 3., 6., og 8. tölul. 1. mgr. falla brott.
     c.      5. tölul. 1. mgr. orðast svo: Vegna yfireftirlits Brunamálastofnunar og eftirlits Neytendastofu með rafföngum á markaði sem stofnanirnar láta framkvæma skulu innflytjendur og innlendir framleiðendur greiða eftirlitsgjald af eftirlitsskyldum rafföngum sem má vera allt að 0,15% af tollverði innfluttrar vöru eða af sambærilegum gjaldstofni innlendrar vöru. Ráðherra setur í reglugerð yfirlit yfir tollflokka raffanga sem eru gjaldskyld og skiptingu eftirlits raffanga á milli stofnananna. Undanþegin þessari gjaldtöku eru rafföng sem eru seld úr landi.
     d.      7. tölul. 1. mgr. orðast svo: Brunamálastofnun og Neytendastofu er heimilt að láta prófa rafföng innlendra framleiðenda sem sett eru á markað í fyrsta sinn. Framleiðendur greiða viðkomandi stofnun fyrir slíkar prófanir. Eftirlit samkvæmt þessum tölulið skiptist samkvæmt sömu reglugerð og vísað er til í 5. tölul. þessarar málsgreinar.
     e.      Í stað orðsins „Neytendastofu“ í 1. málsl. 8. tölul. 1. mgr. kemur: Brunamálastofnun og Neytendastofu.

9. gr.

    Í stað orðsins „Neytendastofu“ í 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: Brunamálastofnunar eða Neytendastofu; og í stað orðsins „stofnunin“ í sama málslið kemur: viðkomandi stofnun.

10. gr.

    18. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Starfsmenn Neytendastofu sem vinna að þeim verkefnum sem færast til Brunamálastofnunar skulu eiga forgangsrétt til starfa hjá Brunamálastofnun. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt ákvæði þessu.

III. KAFLI
Breyting á lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005,
með síðari breytingum.

12. gr.

    Í stað orðsins „rafmagnsöryggismála“ í 1. gr. laganna kemur: markaðseftirlits með rafföngum.

13. gr.

    Í stað orðsins „rafmagnsöryggismál“ í 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: markaðseftirlit með rafföngum.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er komið til vegna samkomulags umhverfisráðuneytis og viðskiptaráðuneytis um að færa rafmagnsöryggissvið Neytendastofu til Brunamálastofnunar og þar með yfirstjórn málaflokksins frá viðskiptaráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Er það mat ráðuneytanna að málaflokkurinn falli mun betur að þeim verkefnum sem tilheyra Brunamálastofnun heldur en Neytendastofu þar sem rafmagnsöryggi bygginga tengist óhjákvæmilega brunavörnum. Er hins vegar lagt til að Neytendastofa sinni áfram því hlutverki er snýr að markaðseftirliti með rafföngum, en það eftirlit snýr að vöruöryggi og þar með því hlutverki Neytendastofu er snýr að neytendum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lögð til viðbót við lögbundið hlutverk Brunamálastofnunar í 5. gr. laga um brunavarnir, nr. 75/2000, þ.e. að stofnunin hafi einnig það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

Um 2. gr.


    Lagt er til að í viðeigandi greinum í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, verði hlutverk Neytendastofu hvað varðar yfireftirlit með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga í mannvirkjum fært til Brunamálastofnunar.

Um 3. gr.


    Í samræmi við tilgang frumvarpsins er lagt til að sú breyting verði gerð á lögum nr. 146/1996 að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum. Þá verði eftirlit með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga í mannvirkjum í höndum Brunamálastofnunar og mun Neytendastofa framkvæma markaðseftirlit með rafföngum sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum. Mun þá hlutverk Neytendastofu sem tilgreint er í 2. mgr. 6. gr. laganna færast yfir til Brunamálastofnunar en við greinina bætist hins vegar ný málsgrein þar sem segir að Neytendastofa skuli skera úr ágreiningi um öryggi þeirra raffanga sem hún hefur eftirlit með og skera úr um til hvaða öryggisráðstafana skuli grípa til að afstýra hættu og hver beri ábyrgð á og kostnað af framkvæmd úrbóta.

Um 4. gr.


    Lagt er til að Brunamálastofnun verði auk Neytendastofu heimilt að annast skoðanir á tilteknu sviði í þeim tilvikum sem ekki eru fyrir hendi faggiltar skoðunarstofur til að annast þær skoðanir.

Um 5. gr.


    Í kjölfar þeirra breytinga sem lagðar eru til munu starfsmenn Brunamálastofnunar í stað Neytendastofu hafa óhindraðan aðgang að raforkuvirkjum, neysluveitum, starfsstöðvum rafverktaka og rafföngum sem til skoðunar eru hverju sinni og rétt til að taka sýni og gera þær athuganir og rannsóknir sem nauðsynlegar eru taldar í því skyni að varna hættu á tjóni af völdum rafmagns. Þessar heimildir hafa starfsmenn rafskoðunarstofa einnig samkvæmt lögum nr. 146/1996. Lagt er til í greininni að Neytendastofa hafi einnig umræddar heimildir sem takmarkist þó við hlutverk hennar, sem er eftirlit með rafföngum sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum.

Um 6. gr.


    Í greininni eru lagðar til ákveðnar breytingar á 11. gr. laga nr. 146/1996. Í kjölfar þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu mun starfsmönnum rafveitna, rafskoðunarstofa og rafverktökum bera skylda til að tilkynna til Brunamálastofnunar í stað Neytendastofu telji þær að neysluveita, rafföng eða hlutar raforkuvirkja séu varhugaverðir eða uppfylli ekki skilyrði laganna. Verður skoðunarstofum þá gert skylt að tilkynna til Brunamálastofnunar telji þeir tiltekna aðila ekki uppfylla ákvæði laganna, en samkvæmt núgildandi lögum ber þeim að tilkynna slík tilvik til Neytendastofu. Í ljósi þessa er lagt til að Brunamálastofnun skuli framsenda þau mál Neytendastofu sem varða rafföng á markaði sem Neytendastofa hefur eftirlit með. Þá er lagt til að Neytendastofa hafi sömu heimildir og skyldur og Brunamálastofnun hvað varðar svið Neytendastofu til að rannsaka rafmagnsbúnað, leiki grunur á að hann uppfylli ekki skilyrði laganna eða reglugerða á grundvelli þeirra, og mögulega að banna sölu eða notkun á búnaðinum og jafnvel banna uppsetningu og krefjast niðurtöku og innköllunar. Með greininni er lögð sú skylda á Neytendastofu að tilkynna Brunamálastofnun telji hún að einstaklingur eða lögaðili hafi brotið ákvæði leyfis eða löggildingar samkvæmt lögunum. Samkvæmt gildandi lögum eru ákvarðanir Neytendastofu, aðrar en ákvarðanir um dagsektir, kæranlegar til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli laga um Neytendastofu og talsmann neytenda. Með greininni eru lagðar til þær breytingar að ákvarðanir Brunamálastofnunar verði kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, í ljósi þess að eftirlit Brunamálastofnunar lýtur að rafmagnsöryggi bygginga. Verða ákvarðanir Neytendastofu áfram kæranlegar til áfrýjunarnefndar neytendamála. Er þó lagt til að ákvarðanir um dagsektir verði áfram undanskildar, sem er í samræmi við gildandi lög. Leiða önnur ákvæði greinarinnar ekki til efnislegra breytinga á ákvæðum 11. gr. laganna.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 14. gr. núgildandi laga. Eftir breytinguna verður kveðið á um hvernig afla skuli fjár til reksturs rafmagnsöryggismála sem bæði Brunamálastofnun og Neytendastofu eru falin samkvæmt lögunum. Lagt er til að í 2., 3., 6. og 8. tölul. 1. mgr. falli brott að Neytendastofa skuli gefa út gjaldskrá vegna gjalda í tilefni af ýmsum skoðunum skv. 14. gr. laganna. Hefur reynslan sýnt að óþarfi er að setja umræddar gjaldskrár þar sem skoðanir eru framkvæmdar af skoðunarstofum sem notast við eigin gjaldskrár við innheimtu skoðunargjalda. Í 14. gr. laganna er kveðið á um eftirlitsgjald innflytjenda og innlendra framleiðenda af eftirlitsskyldum rafföngum og er í samræmi við tilgang frumvarpsins lagt til að fram komi í lögunum að eftirlitsgjaldið sé vegna yfireftirlits Brunamálastofnunar og eftirlits Neytendastofu með rafföngum á markaði, sem stofnanirnar láta framkvæma. Er þá lagt til að ráðherra setji í reglugerð yfirlit yfir tollflokka raffanga sem eru gjaldskyld og mæli þar fyrir um skiptingu eftirlits raffanga á milli Brunamálastofnunar og Neytendastofu. Hvað varðar heimildir til að láta prófa rafföng innlendra framleiðenda sem sett eru á markað í fyrsta sinn er lagt til að Brunamálastofnun hafi auk Neytendastofu slíkar heimildir. Einnig er lagt til að Brunamálastofnun verði ásamt Neytendastofu heimilt að láta framkvæma aukaskoðanir eða auka tíðni úrtaksskoðana hjá aðilum sem ítrekað hafa orðið uppvísir að því að uppfylla ekki skilyrði laganna eða reglugerða.

Um 9. gr.


    Í 15. gr. laga nr. 146/1996 er mælt fyrir um heimildir Neytendastofu til að leggja dagsektir á þá sem ekki fara að ákvörðunum eða fyrirmælum Neytendastofu. Nauðsynlegt er að bæði Brunamálastofnun og Neytendastofa hafi umræddar heimildir til að knýja á um að farið verði að ákvörðunum eða fyrirmælum þeirra hverju sinni.

Um 10. gr.


    Lagt er til að 18. gr. laga nr. 146/1996 verði felld brott í ljósi þess að ákvæðið kveður á um allt að tólf mánaða aðlögunartíma rafveitna hvað varðar eftirlit með rafmagnslögnum og tækjum í sambandi við veitur þeirra, frá gildistöku laganna, og hefur ákvæðið þar af leiðandi runnið sitt skeið.

Um 11. gr.


    Með ákvæði til bráðabirgða er lagt til að þeir starfsmenn Neytendastofu sem nú þegar vinna að þeim verkefnum sem færast til Brunamálastofnunar skuli eiga forgangsrétt til starfa hjá Brunamálastofnun. Í samræmi við það er lagt til að ekki verði skylt að auglýsa þau störf opinberlega eins og kveðið er á um í ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Um 12. gr.


    Lögð er til sú breyting á 1. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005, að Neytendastofa skuli starfa, auk annarra stjórnsýsluverkefna, að stjórnsýsluverkefnum á sviði markaðseftirlits með rafföngum í stað rafmagnsöryggismála eins og kveðið er á um í 1. gr. laganna. Er sú breyting í samræmi við það markmið frumvarpsins að færa rafmagnsöryggismálin að mestu leyti til Brunamálastofnunar.

Um 13. gr.


    Sú breyting sem lögð er til í greininni á 2. gr. laga nr. 62/2005 er í samræmi við breytinguna í 11. gr. frumvarpsins.

Um 14. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi þar sem brýnt þykir að rafmagnsöryggissvið Neytendastofu færist sem fyrst til Brunamálastofnunar vegna þeirrar hagræðingar sem það er talið hafa í för með sér.