Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 410. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 798  —  410. mál.
Breyting.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Sigurð Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti, Guðlaug Stefánsson frá Samtökum atvinnulífsins og Marinó G. Njálsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá ríkisskattstjóra, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Hagsmunasamtökum heimilanna, Viðskiptaráði Íslands, Ríkisendurskoðun, Samtökum atvinnulífsins, Félagi eldri borgara og Alþýðusambandi Íslands.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tilgreindum viðmiðunarfjárhæðum vaxtabóta sem koma til framkvæmda á árinu 2009 vegna tekna, eigna og skulda frá árinu áður. Er því um að ræða afturvirka aðgerð sem er ívilnandi og gerð til að létta fjárhagsstöðu heimilanna.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um heildarkostnað vegna frumvarpsins og hvernig ríkissjóður mundi standa undir honum. Þá var rætt hvort aðrar leiðir hefðu verið æskilegri til að ná markmiðum þess, t.d. með því að hækka framlög ríkissjóðs til atvinnuleysistrygginga. Fram komu sjónarmið um að frumvarpinu væri ekki beint nægilega að stöðu þeirra heimila sem verst væru stödd í fjárhagslegu tilliti, t.d. þeirra sem tekið hefðu húsnæðislán í erlendum gjaldeyri og þeirra sem þola hefðu mátt atvinnumissi.
    Nefndin bendir á að umsagnir sem henni bárust eru almennt jákvæðar. Þó komu fram ábendingar um að róttækari aðgerða væri þörf til bjargar heimilunum og í því sambandi vísað til nýlegrar úttektar Seðlabanka Íslands um áhrif fjármálakreppu á efnahag heimilanna. Nefndin tekur fram að nú þegar hefur verið gripið til margháttaðra aðgerða í þágu heimilanna og mörg önnur úrræði eru til meðferðar hjá Alþingi eða hafa þegar verið samþykkt.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um nokkrar útfærslur til breytinga á vaxtabótakerfinu, m.a. þá að hækka hámarksvaxtabætur um 55% í stað 25% eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Að óbreyttu hefði heildarkostnaður frumvarpsins eftir þá breytingu verið áætlaður 4 milljarðar kr. Nefndin ræddi einnig hvort samfara þessu væri tilefni til að hækka viðmiðunarhlutfall þeirrar fjárhæðar sem draga skal frá vaxtagjöldum af samanlögðum tekjuskattsstofni til að heildarkostnaður vegna frumvarpsins héldist óbreyttur þrátt fyrir hækkun hámarksvaxtabóta. Við nánari athugun var fallið frá þessari hugmynd þar sem hún hefði leitt til þess að tilteknir hópar yrðu fyrir skerðingu á vaxtabótum, en það er ekki tilgangur frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að viðmið hámarksvaxtabóta hækki um 30% í stað 25% eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Frumvarpið gerir enn fremur ráð fyrir að hámarksviðmið vaxtagjalda hækki um 25% en nefndin leggur til að frá því verði fallið. Nefndin leggur til að viðmiðunarhlutfall hámarksvaxtagjalda af skuldum hækki úr 5% í 7%.
    Tilgangurinn með þeim breytingum sem nefndin leggur til er að gera frumvarpið markvissara og að það nýtist betur þeim tekjuminni. Hækkun á viðmiðunarhlutfalli hámarksvaxtagjalda af skuldum er enn fremur ætlað að koma til móts við þær fjölskyldur sem þurft hafa að taka dýr skammtímalán til að mæta greiðsluerfiðleikum á undanförnum mánuðum. Nefndin tekur einnig fram að með þessum breytingum er stefnt að því að enginn fái minni bætur en hann hefði fengið samkvæmt núgildandi lögum.
    Fjármálaráðuneytið áætlar að verði frumvarpið að lögum með þeim breytingum sem nefndin leggur til muni heildarkostnaður ríkissjóðs verða um 2 milljarðar kr. en í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu ráðuneytisins sem fylgdi frumvarpinu var gert ráð fyrir að hann yrði rúmir 2 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs vegna úttektar séreignarsparnaðar verði umfram þann kostnað.
    Álitinu fylgja yfirlit um áhrif þeirra breytinga sem nefndin leggur til og unnin voru af fjármálaráðuneyti.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
          1.      Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 3. mgr. B-liðar 68. gr. laganna skal viðmiðunarhlutfall hámarksvaxtagjalda af skuldum, sem þar er tilgreint, vera 7% við ákvörðun vaxtabóta á árinu 2009 vegna tekna, eigna og skulda á árinu 2008.
          2.      Þrátt fyrir ákvæði 10. og 12. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laganna skulu viðmiðunarfjárhæðir, sem þar eru tilgreindar, vera 246.944, 317.589, 408.374 og 900 við ákvörðun vaxtabóta á árinu 2009 vegna tekna, eigna og skulda á árinu 2008.

    Pétur H. Blöndal og Ragnheiður E. Árnadóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Bjarni Benediktsson og Jón Bjarnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur álitinu.

Alþingi, 31. mars 2009.



Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Ellert B. Schram.



Árni Þór Sigurðsson.


Ragnheiður E. Árnadóttir,


með fyrirvara.


Birkir J. Jónsson.



Katrín Júlíusdóttir.



Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneytið, tekju- og lagaskrifstofa.
(Apríl 2009.)

                   
Áhrif breytinga á vaxtabótum eftir tekjubilum.
Árstölur 2008, kr.
    Stofn til vaxtabóta     Vaxtabætur Áhrif á vaxtabætur
Hjón Hjón Hjón
Tekjur Núv. kerfi Frv. 1 Frv. 2 Núv. kerfi Frv. 1 Frv. 2 Frv. 1 Frv. 2
3.000.000 570.000 570.000 720.000 314.134 392.668 408.374 78.534 94.240
3.500.000 540.000 540.000 690.000 314.134 392.668 408.374 78.534 94.240
4.000.000 510.000 510.000 660.000 314.134 392.668 408.374 78.534 94.240
5.000.000 450.000 450.000 600.000 314.134 392.668 408.374 78.534 94.240
6.000.000 390.000 390.000 540.000 314.134 390.000 408.374 75.866 94.240
7.000.000 330.000 330.000 480.000 314.134 330.000 408.374 15.866 94.240
8.000.000 270.000 270.000 420.000 270.000 270.000 408.374 0 138.374
9.000.000 210.000 210.000 360.000 210.000 210.000 360.000 0 150.000
10.000.000 150.000 150.000 300.000 150.000 150.000 300.000 0 150.000
11.000.000 90.000 90.000 240.000 90.000 90.000 240.000 0 150.000
12.000.000 30.000 30.000 180.000 30.000 30.000 180.000 0 150.000
13.000.000 0 0 120.000 0 0 120.000 0 120.000
14.000.000 0 0 60.000 0 0 60.000 0 60.000
15.000.000 0 0 0 0 0 0 0 0
16.000.000 0 0 0 0 0 0 0 0
Forsendur:
Íbúðarskuldir í árslok, kr. 15.000.000 15.000.000 15.000.000
Greidd vaxtagjöld, kr. 900.000 900.000 900.000
Greidd vaxtagjöld, % 6,0 6,0 6,0
Hámark vaxtagjalda, kr.
af íbúðarskuldum, %
5 5 7
Nettóeign í árslok, kr. 11.000.000 11.000.000 11.000.000
Tekjuskerðingarhlutfall, % 6 6 6
Hámarksvaxtagjöld, kr. 901.158 1.126.448 901.158
Hámarksvaxtabætur, kr. 314.134 392.668 408.374
Fylgiskjal II.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.