Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 824, 136. löggjafarþing 420. mál: breyting á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga (flutningur yfirstjórnar málaflokksins til umhverfisráðuneytis).
Lög nr. 29 1. apríl 2009.

Lög um breytingu á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga frá Neytendastofu til Brunamálastofnunar.


1. ÞÁTTUR
Breyting á löggjöf umhverfisráðuneytis.
I. KAFLI
Breyting á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: hafa eftirlit með framkvæmd laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

2. ÞÁTTUR
Breyting á löggjöf viðskiptaráðuneytis.
II. KAFLI
Breyting á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, með síðari breytingum.

2. gr.

     Í stað orðsins „Neytendastofu“ í 3. gr. laganna og í stað sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, nema í 2. mgr. 9. gr., 12. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 5., 7. og 8. tölul. 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 15. gr., kemur í viðeigandi beygingarfalli: Brunamálastofnun.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Eftirlit með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga í mannvirkjum samkvæmt lögum þessum skal vera í höndum Brunamálastofnunar. Neytendastofa framkvæmir markaðseftirlit með rafföngum sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum.
  3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Neytendastofa skal skera úr ágreiningi um öryggi raffanga á markaði sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum, svo og skera úr um til hvaða öryggisráðstafana skuli grípa til að afstýra hættu og hver beri ábyrgð á og kostnað af framkvæmd úrbóta.


4. gr.

     Í stað orðanna „skal Neytendastofa“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: skal Brunamálastofnun eða Neytendastofa, sé um að ræða rafföng sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum.

5. gr.

     Á eftir 1. málsl. 10. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sömu heimildir skal Neytendastofa hafa sé um að ræða markaðseftirlit með rafföngum sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sé um að ræða tilkynningu sem varðar rafföng á markaði sem Neytendastofa hefur eftirlit með skal Brunamálastofnun framsenda málið Neytendastofu.
  2. Við bætist ný málsgrein er verður 5. mgr., svohljóðandi:
  3.      Sömu heimildir og greinir í 2.–4. mgr. hefur Neytendastofa sé um að ræða rafföng á markaði sem hún hefur eftirlit með.
  4. Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi Neytendastofa upplýsingar um slík brot skal hún tilkynna það Brunamálastofnun án tafar.
  5. Í stað 6.–8. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  6.      Stjórnvaldsákvarðanir Brunamálastofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem starfar á grundvelli 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, að undanskildum ákvörðunum um dagsektir. Um meðferð kæru og um kæruaðild fer samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.
         Stjórnvaldsákvarðanir Neytendastofu sem teknar eru á grundvelli laga þessara eru kæranlegar til áfrýjunarnefndar neytendamála, sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda, að undanskildum ákvörðunum um dagsektir. Um meðferð kæru og um kæruaðild fer samkvæmt ákvæðum laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.
         Málskot skv. 7. og 8. mgr. frestar ekki framkvæmd ákvörðunar. Verða ákvarðanir Brunamálastofnunar og Neytendastofu ekki bornar undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála eða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála liggur fyrir.
         Nú vill aðili ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála eða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndar eða úrskurðarnefndar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurða nefndanna né heimild til aðfarar.


7. gr.

     Á eftir orðinu „Starfsmenn“ í 1. málsl. 12. gr. laganna kemur: Brunamálastofnunar; og á eftir orðunum „fyrirstöðu að“ í 2. málsl. sömu greinar kemur: Brunamálastofnun eða.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna.
  1. Á eftir orðunum „rafmagnsöryggismála sem“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Brunamálastofnun og.
  2. Orðin „samkvæmt gjaldskrá sem Neytendastofa gefur út og ráðherra staðfestir“ í 2., 3., 6. og 8. tölul. 1. mgr. falla brott.
  3. 5. tölul. 1. mgr. orðast svo: Vegna yfireftirlits Brunamálastofnunar og eftirlits Neytendastofu með rafföngum á markaði sem stofnanirnar láta framkvæma skulu innflytjendur og innlendir framleiðendur greiða eftirlitsgjald af eftirlitsskyldum rafföngum sem má vera allt að 0,15% af tollverði innfluttrar vöru eða af sambærilegum gjaldstofni innlendrar vöru. Ráðherra setur í reglugerð yfirlit yfir tollflokka raffanga sem eru gjaldskyld og skiptingu eftirlits raffanga á milli stofnananna. Undanþegin þessari gjaldtöku eru rafföng sem eru seld úr landi.
  4. 7. tölul. 1. mgr. orðast svo: Brunamálastofnun og Neytendastofu er heimilt að láta prófa rafföng innlendra framleiðenda sem sett eru á markað í fyrsta sinn. Framleiðendur greiða viðkomandi stofnun fyrir slíkar prófanir. Eftirlit samkvæmt þessum tölulið skiptist samkvæmt sömu reglugerð og vísað er til í 5. tölul. þessarar málsgreinar.
  5. Í stað orðsins „Neytendastofu“ í 1. málsl. 8. tölul. 1. mgr. kemur: Brunamálastofnun og Neytendastofu.

9. gr.

     Í stað orðsins „Neytendastofu“ í 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: Brunamálastofnunar eða Neytendastofu; og í stað orðsins „stofnunin“ í sama málslið kemur: viðkomandi stofnun.

10. gr.

     18. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Starfsmenn Neytendastofu sem vinna að þeim verkefnum sem færast til Brunamálastofnunar skulu eiga forgangsrétt til starfa hjá Brunamálastofnun. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt ákvæði þessu.

III. KAFLI
Breyting á lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005, með síðari breytingum.

12. gr.

     Í stað orðsins „rafmagnsöryggismála“ í 1. gr. laganna kemur: markaðseftirlits með rafföngum.

13. gr.

     Í stað orðsins „rafmagnsöryggismál“ í 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: markaðseftirlit með rafföngum.

14. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 25. mars 2009.