Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 467. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 904  —  467. mál.




Fyrirspurn



til iðnaðarráðherra um fyrirgreiðslu, fjármögnun lögboðinna verkefna sveitarstjórna, peningagreiðslur orkufyrirtækja til sveitarfélaga o.fl.

Frá Álfheiði Ingadóttur.



     1.      Hafa orkufyrirtæki:
              a.      gert sérstaka samninga við tiltekin sveitarfélög um fjárframlög í þeim tilgangi að liðka fyrir gerð eða breytingu á skipulagsáætlunum vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda í viðkomandi sveitarfélagi,
              b.      greitt fyrir gerð deiliskipulaga í sveitarfélögum og þá hvaða, eða greitt fyrir gerð aðalskipulags eða fyrir skipulagsvinnu umfram það sem heimilt er samkvæmt lögum um kostnað við gerð skipulagsáætlana og þá í hvaða tilfellum,
              c.      greitt sérstaklega fyrir aðra þætti óskylda skipulagi, svo sem fjarskiptasamband, vegi, íþróttamannvirki, svo sem sundlaugar, eða annað því um líkt í tengslum við gerð skipulagsáætlana,
              d.      keypt eða leigt jarðir eða fasteignir í viðkomandi sveitarfélögum í tengslum við gerð skipulagsáætlana og umsókn um framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar,
              e.      greitt eingreiðslur til sveitarfélaga í tengslum við undirbúning virkjanaframkvæmda og gerð skipulagsáætlana,
              f.      lagt viðkomandi sveitarfélögum til lögfræðing eða greitt fyrir lögfræðikostnað vegna svara við athugasemdum við skipulagsáætlanir frá hagsmunaaðilum, m.a. íbúum?
     2.      Ef svo er, um hversu háar fjárhæðir er að ræða í hverju tilfelli?
     3.      Ef sú er raunin sem um er spurt í 1. tölul.:
              a.      hafa orkufyrirtæki þá tekið ábyrgð á öðrum framkvæmdum eða áætlunum fyrir tiltekin sveitarfélög í tengslum við undirbúning virkjanaframkvæmda og útgáfu framkvæmdaleyfis og samþykkt skipulagsáætlana,
              b.      telur ráðherra að þátttaka orkufyrirtækja af þessu tagi í gerð skipulagsáætlana sé eðlileg,
              c.      telur ráðherra að gætt hafi verið að hæfi viðkomandi sveitarstjórnarmanna með tilliti til sérstakra og persónulegra hagsmuna sem þeir kynnu að hafa af fjárframlögum orkufyrirtækis til einstakra framkvæmda eða almennra stuðningsaðgerða,
              d.      hefur í þessu sambandi, að mati ráðherra, verið farið að því markmiði 1. gr. skipulags- og byggingarlaga „að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi“?


Skriflegt svar óskast.