Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 470. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 918  —  470. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um listfræðilegt mat á listaverkasöfnum banka.

Frá viðskiptanefnd.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að fram fari listfræðilegt mat á listaverkasöfnum bankanna, Íslandsbanka hf., Nýja Kaupþings banka hf. og NBI hf., í því skyni að undirbúa kaup á þeim listaverkum sem teljast þjóðargersemar og öðrum verkum er þýðingu kunna að hafa fyrir íslenska listasögu og gætu verið verðug viðbót við listaverkaeign Listasafns Íslands.
    Leitast skal við að tryggja að þjóðargersemar og þýðingarmikil listaverk verði varðveitt og þau ekki seld eða látin af hendi úr framangreindum listaverkasöfnum án þess að þau verði fyrst boðin Listasafni Íslands til kaups.
    Listfræðilegu mati skv. 1. mgr. verði lokið eigi síðar en 1. október 2009 og verði niðurstaða þess þá kynnt í ríkisstjórn.

Greinargerð.


    Með tillögunni er lagt til að fram fari mat á listaverkasöfnum ríkisbankanna í þeim tilgangi að undirbúa kaup á þeim listaverkum sem telja má þjóðargersemar og öðrum verkum sem kunna að hafa þýðingu fyrir íslenska listasögu og gætu verið verðug viðbót við listaverkaeign Listasafns Íslands. Þá er í 2. mgr. lagt til að Listasafni Íslands verði tryggður forkaupsréttur að þeim verkum sem metin hafa verið og teljast þjóðargersemar eða þýðingarmikil. Í 3. mgr. er svo kveðið á um að listfræðilegu mati skv. 1. mgr. skuli ljúka eigi síðar en 1. október 2009.
    Tillaga þessi er tilkomin vegna tveggja mála sem viðskiptanefnd hefur haft til umfjöllunar, frumvarps til laga um listaverk í eigu Landsbanka Íslands, Kaupþings og Glitnis (100. máls) og tillögu til þingsályktunar um breytingu á eignarhaldi og varðveislu listaverka ríkisbankanna (102. máls). Fjallað var samhliða um málin í 1. umræðu og var þeim vísað saman til nefndarinnar. Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að afhenda Listasafni Íslands til eignar og varðveislu listaverk í eigu hinna nýju ríkisbanka. Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að þau listaverk sem voru í eigu Landsbanka Íslands, Kaupþings og Glitnis skuli frá 7. október 2008 teljast vera eign ríkisins. Nefndinni bárust umsagnir um málin frá Aðalsteini Ingólfssyni listfræðingi, Fjármálaeftirlitinu, Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, NBI hf., Sambandi íslenskra myndlistarmanna, safnaráði og skilanefnd Glitnis.
    Við einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands árið 2003 runnu listaverk þeirra til einkaaðila. Í kjölfar bankahrunsins í október 2008 hafa vaknað spurningar um afdrif listaverkanna eins og rakið er í greinargerðum með frumvarpinu og tillögunni. Efnislega eru málin samhljóða og fela í sér að staðfestur verði eignarréttur almennings á téðum listaverkum og fjallaði nefndin því um bæði málin í senn. Talið er að við bankahrunið hafi verið um 4.000 verk í eigu gömlu bankanna og eru þau hluti af íslenskum menningararfi. Markmið tillögunnar og frumvarpsins er hið sama: að tryggja varðveislu íslensks menningararfs og er gert ráð fyrir að Listasafn Íslands, meginsafn íslenskrar myndlistar í eigu ríkisins, fái listaverk úr eigu bankanna þriggja til eignar.
    Viðskiptanefnd ákvað eftir umfjöllun málanna að flytja tillögu til þingsályktunar um að fram færi listfræðilegt mat á listaverkum ríkisbankanna þannig að hægt yrði að tryggja að þjóðargersemar og þýðingarmikil listaverk yrðu varðveitt og þau því boðin Listasafni Íslands til kaups áður en þau yrðu seld eða látin af hendi úr listaverkasöfnum bankanna.
    Um eignarhald á listaverkunum er fjallað í umsögn Fjármálaeftirlitsins þar sem fram kemur að við færslu eigna frá gömlu bönkunum til nýju bankanna hafi öll listaverk fylgt með. Jafnframt kemur þar fram að endurskoðunarfyrirtæki sem eftirlitið hefur ráðið til að gera verðmat á eignum nýju bankanna áætli að ljúka því um miðjan apríl nk. Því er ljóst að listaverkin munu verða eign Nýja Kaupþings banka hf., Íslandsbanka hf. og NBI hf., sem allir eru í ríkiseigu.
    Almennur áhugi er á að listaverkin verði áfram eign ríkisins, hvernig sem eignum hinna nýju banka verður ráðstafað að öðru leyti. Bent hefur verið á að Listasafn Íslands er höfuðsafn á sviði myndlistar og því eðlilegast að ef ákvörðun verður tekin um að listaverkasöfnin verði eign ríkisins til frambúðar verði ábyrgð á þeim færð til Listasafnsins, sem þá getur ráðstafað þeim með viðeigandi hætti, m.a. í samráði við nýju bankana. Einnig kæmi til álita að Listasafn Íslands fengi hluta safnanna til varðveislu en aðrir hlutar þeirra yrðu áfram eign bankanna. Enn fremur að mögulegt yrði að hafa verkin áfram í húsnæði bankanna og þá almenningi til sýnis en í eigu Listasafns Íslands.
    Forsenda slíkra ákvarðana er að fram fari frekari fagleg könnun á umræddum listaverkum. Fram kom fyrir nefndinni að fyrirliggjandi skrár um listaverkaeign hvers banka eru misnákvæmar. Mörg þeirra eru í byggingum bankanna víðs vegar um land eða jafnvel hjá útibúum eða dótturfyrirtækjum þeirra erlendis, en önnur eru í geymsluhúsnæði. Þá eru sum verkanna hluti viðkomandi bygginga eins og freskur Jóhannesar Kjarvals í Landsbankahúsinu við Austurstræti. Ekki er ljóst hversu auðvelt er að samhæfa umræddar skrár skrásetningarkerfi Listasafns Íslands en bent hefur verið á að a.m.k. einn bankanna hafi yfir að ráða öflugra skráningarkerfi en safnið. Þá hefur ekki verið kannað hversu mikill hluti listaverka bankanna gæti verið verðug viðbót við listaverkaeign Listasafnsins, en í umsögn til nefndarinnar var bent á að það gæti verið minna en helmingur. Þá er eðlilegt að leggja mat á hversu mikill hluti safnanna telst ekki nauðsynlegur fyrir þá heildarsýn sem safneign Listasafns Íslands er ætlað að veita yfir þróun íslenskrar listasögu.