Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 450. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 926  —  450. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Birgis Ármannssonar um ný skattþrep í tekjuskatti einstaklinga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver yrði tekjuauki ríkissjóðs ef hugmyndir fjármálaráðherra um nýtt 3% viðbótarskattþrep á allar tekjur einstaklinga yfir 500 þús. kr. næðu fram að ganga?
    Hver yrði tekjuaukinn ef þessu til viðbótar yrði komið á sérstöku 5% skattþrepi á allar tekjur einstaklinga yfir 700 þús. kr. þannig að skattgreiðendur með slíkar tekjur þyrftu samanlagt að greiða 8% hærra tekjuskattshlutfall en almennt gerist?
    Óskað er eftir upplýsingum um tekjuaukann á einu ári miðað við endurskoðaðar forsendur fjármálaráðuneytisins um skattskyldar tekjur einstaklinga á árinu 2009.


    Engar tillögur liggja fyrir í fjármálaráðuneytinu um ný skattþrep. Af þeim ástæðum liggja ekki fyrir neinir útreikningar um tekjur af slíku skattþrepi eða öðru. Þá skal tekið fram að í fjármálaráðuneytinu liggur ekki enn fyrir áætlun um skattskyldar tekjur einstaklinga 2009 sérgreind með þeim hætti að áætla megi tekjubreytingar eins og farið er fram á og verður væntanlega ekki fyrr en lokið hefur verið álagningu tekjuskatts á einstaklinga á þessu ári.
    Þá skal vakin athygli á því að embætti ríkisskattstjóra hefur um nokkurra ára skeið veitt stjórnvöldum, Alþingi og þingflokkum þá þjónustu að veita talnalegar upplýsingar um skatta, þar á meðal að reikna út væntanleg áhrif breytinga á sköttum, sem þessir aðilar kunna að hafa áhuga á að kanna.