Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 80. máls.

Þskj. 80  —  80. mál.
Prentað upp.

    Brottfall texta.





Frumvarp til laga

um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna
sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




I. KAFLI
Heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna
sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

1. gr.

    Við sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta.
    Með sérstökum aðstæðum er átt við sérstaka fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki, m.a. líkur á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis séu líklega fyrir hendi eða líkur standi til að það geti ekki uppfyllt kröfur um lágmarks eigið fé og að úrræði Fjármálaeftirlitsins séu ekki líkleg til þess að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Þá er með sérstökum aðstæðum m.a. átt við ef fjármálafyrirtæki hefur óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamninga eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota.
    Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki gilda ekki hvað varðar heimild ríkisins til að eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki samkvæmt þessum lögum. Ákvæði laga um verðbréfaviðskipti um yfirtökuskyldu og lýsingar gilda ekki um öflun og meðferð eignarhlutar ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum samkvæmt þessum lögum. Ákvæði laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum gilda ekki um yfirtöku fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta samkvæmt lögum þessum. Við stofnun hlutafélags í því skyni að taka við rekstri fjármálafyrirtækis að hluta til eða í heild sinni skal það félag undanþegið ákvæðum hlutafélagalaga um lágmarksfjölda hluthafa skv. 2. mgr. 3. gr. svo og ákvæðum 6.–8. gr. laganna um sérfræðiskýrslu. Fyrirtæki sem stofnað er samkvæmt þessari grein hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

2. gr.

    Við þær sérstöku aðstæður sem greinir í 1. gr. er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisjóðs heimilt að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans. Ríkissjóður fær stofnfjárbréf eða hlutabréf í sparisjóðnum sem endurgjald í samræmi við eiginfjárframlag sem lagt er til. Fjárhæð útgefinna stofnfjárhluta til ríkissjóðs skal að nafnverði nema sömu upphæð og það fjárframlag sem innt er af hendi og skal það stofnfé njóta sömu stöðu og aðrir stofnfjárhlutir í viðkomandi sjóði. Þegar um er að ræða sparisjóð sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki skal hið nýja hlutafé nema sama hlutfalli gagnvart öðru útgefnu hlutafé og fjárframlagið er í hlutfalli við bókfært eigin fé félagsins. Ákvæði þetta tekur jöfnum höndum til stofnfjársparisjóða og þeirra sparisjóða sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga þessara eftir því sem við á. Ef stjórn sparisjóðs samþykkir er heimilt að víkja frá ákvæðum 66. gr. laga um fjármálafyrirtæki um boðun fundar stofnfjáreigenda og forgangsrétt þeirra til aukningar stofnfjár eða hlutafjár.

II. KAFLI
Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

3. gr.

    6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: hafi ráðstafanir sem gripið hefur verið til á grundvelli ákvæða um inngrip Fjármálaeftirlitsins í eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis skv. 100. gr. a ekki náð árangri eða hafi verið kveðinn upp úrskurður um slit fyrirtækisins skv. XII. kafla.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. 70. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að um sé að ræða aðkomu ríkissjóðs skv. 2. gr. laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.
     b.      Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar ríkissjóður er stofnfjáreigandi í sparisjóði fer fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs með atkvæði í samræmi við stofnfjáreign ríkisjóðs í sparisjóðnum. Sama gildir um atkvæðisrétt vegna hlutafjár í sparisjóði sem breytt hefur verið í hlutafélag.

5. gr.

    Á eftir 100. gr. laganna kemur ný grein, 100. gr. a, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Sérstakar ráðstafanir.


    Fjármálaeftirlitið getur gripið til sérstakra ráðstafana í samræmi við ákvæði þessarar greinar telji það þörf á vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Með sérstökum aðstæðum eða atvikum er átt við sérstaka fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki, m.a. líkur á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis séu líklega fyrir hendi eða líkur standi til að það geti ekki uppfyllt kröfur um lágmarks eigið fé og að önnur úrræði Fjármálaeftirlitsins séu ekki líkleg til þess að bera árangur. Þá er með sérstökum aðstæðum m.a. átt við ef fjármálafyrirtæki hefur óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamninga eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota.
    Við aðstæður eða atvik sem tilgreind eru í 1. mgr. getur Fjármálaeftirlitið boðað til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda. Fulltrúi Fjármálaeftirlitsins skal stýra fundi og hefur hann málfrelsi og tillögurétt. Fjármálaeftirlitið er við þessar aðstæður ekki bundið af ákvæðum hlutafélagalaga eða samþykkta fjármálafyrirtækis um fundarboðun, fresti til fundarboðunar eða tillögugerðar til breytinga á samþykktum.
    Séu aðstæður mjög knýjandi getur Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, m.a. takmarkað ákvörðunarvald stjórnar, vikið stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, tekið yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafað slíku fyrirtæki í heild eða að hluta meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki. Við slíka ráðstöfun gilda hvorki ákvæði laga um verðbréfaviðskipti um tilboðsskyldu né ákvæði laga um fjármálafyrirtæki um auglýsingu samruna fjármálafyrirtækja í Lögbirtingablaði. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að framselja öll réttindi að því marki sem nauðsynlegt er í slíkum tilfellum. Verði það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að samruni viðkomandi fjármálafyrirtækis við annað tryggi best þá hagsmuni sem í húfi eru gilda ákvæði samkeppnislaga og samrunaákvæði laga um fjármálafyrirtæki ekki um samrunann. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um yfirtöku á rekstri fjármálafyrirtækis skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna opinberlega. Starfræki fyrirtækið útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynningin send lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki.
    Ef nauðsyn krefur getur Fjármálaeftirlitið takmarkað eða bannað ráðstöfun fjármuna og eigna fjármálafyrirtækis. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga skuldbindingum fjármálafyrirtækis og láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem þörf krefur. Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilt að rifta sölu eigna sem átt hefur sér stað allt að mánuði áður en Fjármálaeftirlitið greip til sérstakra ráðstafana samkvæmt þessari grein.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að fjármálafyrirtæki sæki um greiðslustöðvun eða leiti heimildar til nauðasamninga í samræmi við ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, sbr. kafla XII. A, ef það er talið nauðsynlegur liður í að leysa úr fjárhags- eða rekstrarvanda fyrirtækisins. Val fyrirtækis á aðstoðarmanni við greiðslustöðvun skal staðfest af Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið getur jafnframt krafist þess að fjármálafyrirtæki verði tekið til gjaldþrotaskipta í samræmi við ákvæði laga um gjaldþrotaskipti.
    Grein þessi gildir óháð því hvort fjármálafyrirtæki hafi óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar, nauðasamninga eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota. Í þeim tilvikum hefur Fjármálaeftirlitið óskertar heimildir til ráðstöfunar réttindum og skyldum viðkomandi fjármálafyrirtækis eða þrotabús.
    Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um málsmeðferð og ákvarðanatöku Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessari grein.
    Forstjóri, starfsmenn og stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins eru ekki skaðabótaskyldir vegna ákvarðana og framkvæmdar samkvæmt þessari grein.
    Ríkissjóður ber ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins á grundvelli greinar þessarar, þar með talið skiptakostnaði ef til slíks kostnaðar stofnast.

6. gr.

    Við 103. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr., svohljóðandi:
    Við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

III. KAFLI

Breyting á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi,
nr. 87/1998, með síðari breytingum.

7. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr., svohljóðandi:
    Lendi eftirlitsskyldur aðili, annar en fjármálafyrirtæki, í sérstökum fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleikum þannig að Fjármálaeftirlitið telur þörf á að grípa til sérstakra ráðstafana í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði gilda ákvæði 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki um heimildir Fjármálaeftirlitsins til inngrips í starfsemina.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta,
nr. 98/1999, með síðari breytingum.

8. gr.

    Við 1. mgr. 9. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir er orðast svo: Sjóðnum er heimilt við endurgreiðslu andvirðis innstæðu úr innstæðudeild að inna greiðsluna af hendi í samræmi við skilmála er gilda um innstæðu eða verðbréf, t.d. hvað varðar binditíma, uppsögn og þess háttar. Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt. Sjóðnum er heimilt að nýta sér kröfur viðkomandi fjármálafyrirtækis á hendur viðskiptamanni til skuldajafnaðar gegn kröfu viðskiptamanns á greiðslu andvirði innstæðu.

9. gr.

    Við 3. mgr. 10. gr. laganna bætist nýr málsliður: Krafa sjóðsins nýtur rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti, en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.

V. KAFLI
Breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.
10. gr.

    Á eftir 2. tölul. 9. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Íbúðalánasjóði er heimilt að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja, sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Ekki þarf að leita samþykkis skuldara fyrir slíkri yfirfærslu.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Lánveitingar Íbúðalánasjóðs. Kaup skuldabréfa af fjármálafyrirtækjum.

12. gr.


    Á eftir orðunum „lánveitingar Íbúðalánasjóðs“ í 29. gr. laganna kemur: kaup skuldabréfa af fjármálafyrirtækjum sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.

VI. KAFLI

Gildistaka.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað binda lög þessi alla þegar við birtingu.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Að undanförnu hafa dunið yfir fjármálamarkaði hremmingar sem einkum hafa lýst sér í skorti á lausafé vegna takmarkaðs lánsframboðs. Íslensk fjármálafyrirtæki hafa ekki farið varhluta af þessum hremmingum frekar en fjármálafyrirtæki í öðrum löndum. Við þessar erfiðu aðstæður hafa stjórnvöld víða um heim neyðst til að grípa til ráðstafana er miða að því að tryggja virkni fjármálakerfisins og efla traust almennings á því.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði ákvæði sem heimila fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs við sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki í heild eða að hluta. Þá er lagt til að lögfest verði heimild fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans. Að auki eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, lögum um innstæðutryggingar fyrir fjárfesta og lögum um húsnæðismál. Eru þessar breytingar lagðar til í því skyni að gera stjórnvöldum kleift að bregðast við því ástandi sem nú er á fjármálamörkuðum.
    Í fyrsta lagi er lagt til í frumvarpinu að við sérstakar aðstæður, þ.e. sérstaka fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki verði fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að leggja fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki í heild eða að hluta. Í öðru lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að ríkissjóður geti við vissar aðstæður lagt sparisjóðunum fjárframlag sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé.
    Helstu breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem felast í frumvarpinu eru að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja með víðtækum hætti vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Meðal þess sem lagt er til er að Fjármálaeftirlitið geti gert er eftirfarandi:
          Boðað til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda, án tillits til samþykkta félags og ákvæða hlutafélagalaga.
          Tekið yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir m.a. takmarkað ákvörðunarvald stjórnar, vikið stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, tekið yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafað slíku fyrirtæki í heild eða að hluta meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki.
          Takmarkað eða bannað ráðstöfun fjármálafyrirtækis á fjármunum sínum og eignum. Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilað að taka í sínar vörslur eignir sem mæta eiga skuldbindingum fjármálafyrirtækis og láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem forsvaranlegt þykir.
          Krafist þess að fyrirtæki sæki um greiðslustöðvun eða leiti heimildar til nauðasamninga.
    Jafnframt er lagt til að í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi verði kveðið á um að framangreindar heimildir fjármálaeftirlitsins til inngripa í fjármálafyrirtæki nái einnig til annarra eftirlitsskyldra aðila en fjármálafyrirtækja.
    Helstu breytingar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi eru:
          Lagt er til að innstæður séu forgangskröfur við gjaldþrotaskipti.
          Kveðið er á um að ávallt sé heimilt að endurgreiða innstæður í íslenskum krónum.
          Kveðið er á um heimild til að endurgreiða innstæður af bundnum reikningum í samræmi við skilmála þeirra reikninga, þannig að greiðsluskylda skapist ekki á sjóðinn fyrr en innstæðueigandi hefði getað tekið innstæðu út úr banka samkvæmt skilmálum.
          Kveðið er á um að reglur um skuldajöfnuð gildi við uppgjör milli innstæðna og skulda í sama fjármálafyrirtæki.
    Loks er lagt til að lögfest verði heimild Íbúðalánasjóðs til að yfirtaka húsnæðislán.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að við sérstakar aðstæður verði fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að leggja fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta. Með sérstökum aðstæðum er átt við sérstaka fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki, m.a. líkur á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis séu líklega fyrir hendi eða líkur standi til að það geti ekki uppfyllt kröfur um lágmarks eigið fé og að úrræði Fjármálaeftirlitsins séu ekki líkleg til þess að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Þá er með sérstökum aðstæðum m.a. átt við ef fjármálafyrirtæki hefur óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamninga eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota.
    Traustur fjármálamarkaður er þjóðfélagslega mikilvægur. Ljóst er að fjárhags- og rekstrarvandi kerfislega mikilvægra banka getur haft mjög alvarleg keðjuverkandi áhrif á fjármálamarkaðinn og íslenskt hagkerfi og ógnað fjármálastöðugleika. Kostnaður þjóðfélagsins af gjaldþroti kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja yrði umtalsverður, ef á reyndi, og erfitt að byggja trúverðugleika upp á ný. Í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði er mikilvægt að stjórnvöld hafi heimild til að grípa til nauðsynlegra aðgerða, þar á meðal yfirtöku fjármálafyrirtækis, í heild eða að hluta, eftir atvikum með stofnun nýs fjármálafyrirtækis. Í síðastnefnda tilfellinu gæti Fjármálaeftirlitið m.a. flutt nafn viðkomandi fjármálafyrirtækis á hið nýja félag, sem sett yrði á laggirnar.
    Lagt er til að ákvæði laga um fjármálafyrirtæki um virka eignarhluta gildi ekki um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtæki samkvæmt þessum lögum. Aðilar sem hyggjast eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki verða samkvæmt gildandi lögum að leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram. Fjármálaeftirlitið metur hæfi umsækjanda til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis. Íslenska ríkið uppfyllir óumdeilanlega skilyrði laganna til slíks eignarhalds.
    Lagt er til að ákvæði laga um verðbréfaviðskipti um yfirtökuskyldu gildi ekki um yfirtöku fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta samkvæmt lögum þessum. Samkvæmt gildandi lögum skal aðili sem beint eða óbeint nær yfirráðum í hlutafélagi þar sem einn eða fleiri flokkar hlutabréfa hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eigi síðar en fjórum vikum eftir að yfirráðum var náð gera öðrum hluthöfum félagsins yfirtökutilboð, þ.e. tilboð um að kaupa hluti þeirra í félaginu. Með yfirráðum er m.a. átt við að aðili og þeir sem hann er í samstarfi við hafi samanlagt eignast a.m.k. 40% atkvæðisréttar í félaginu eða öðlast rétt til þess að tilnefna eða setja af meiri hluta stjórnar í félaginu.
    Lagt er til að ákvæði laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum gildi ekki um yfirtöku fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta samkvæmt lögum þessum. Ef ráðstafa þarf einstökum rekstrareiningum eða hluta af rekstri fjármálafyrirtækis er nauðsynlegt að sá sem við tekur hafi svigrúm til að hagræða í rekstri og yfirtaki ekki óhjákvæmilega sérstakar skyldur samkvæmt eldri ráðningarsamningum.

Um 2. gr.


    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ríkissjóður geti við vissar aðstæður lagt sparisjóðunum fjárframlag sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé. Nauðsynlegt þykir að heimild sé fyrir hendi til að ríkissjóður geti tryggt sparisjóðastarfsemina í landinu ef þörf reynist á styrkingu eiginfjárhlutfalls vegna sérstakra aðstæðna á fjármagnsmarkaði.

Um 3. gr.


    Ef ríkissjóður kaupir stofnfé eða hlutafé í sparisjóðum samkvæmt heimild í 2. gr. frumvarpsins fer sú eignarhlutdeild að líkindum yfir þau 10% mörk sem eru á leyfilegu eignarhaldi að stofnfé í sparisjóðum. Af þeim sökum er nauðsynlegt að bæta við ákvæði 2. mgr. 70. gr. nýjum lið, c-lið, þar sem tekin eru af tvímæli um hámark á eignarhluta í sparisjóði eigi ekki við um ríkissjóð þegar umræddri heimild er beitt.

Um 4. gr.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir að við 3. mgr. 70. gr. bætist ný málsgrein sem kveður á um að fjármálaráðherra fari fyrir hönd ríkissjóðs með atkvæði í samræmi við stofnfjáreign sína í sparisjóði. Um er að ræða undantekningu frá því að stofnfjáreigendum sé aldrei heimilt, fyrir sjálfs síns hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Þykir eðlilegt að ríkissjóður fari með atkvæði í samræmi við stofnfjáreign sína, þegar aðkoma hans er með þeim hætti sem greinir í 3. gr. frumvarpsins. Vegna ákvæða 75. gr. laganna um takmörkun á atkvæðisrétti í sparisjóðum sem breytt hefur verið í hlutafélag þykir rétt að kveða skýrt á um að ríkissjóður fari með atkvæðarétt til samræmis við hlutafjáreign sína.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á VIII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, breytingarnar fela í sér að lögfest verði heimild sem ætlað er að styrkja rekstur sparisjóðs ef sérstakar ástæður mæla með því. Lagt er til að þegar stjórn sparisjóðs telur sérstakar aðstæður mæla með því verði fjármálaráðherra heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að leggja til allt að 20% eiginfjárframlag til sparisjóðs. Í greininni er kveðið á um að ríkissjóður fái stofnfjárbréf í sparisjóðnum sem endurgjald fyrir eiginfjárframlag sitt. Um er að ræða undantekningu frá því að enginn megi fara með virkan eignarhlut í sparisjóði. Þær sérstöku aðstæður sem kunna að vera fyrir hendi gætu t.d. verið vegna þrengingar á fjármálamörkuðum.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að ný grein, 100. gr. a, bætist við lög um fjármálafyrirtæki, undir fyrirsögninni „Sérstakar ráðstafanir“.
    Í 1. mgr. er að finna skilgreiningu á þeim aðstæðum og atvikum sem leitt geta til sérstakra ráðstafana af hálfu Fjármálaeftirlits samkvæmt greininni. Þó svo að Fjármálaeftirlitið hafi nú þegar tiltekin úrræði til þess að bregðast við rekstrarvanda eftirlitsskyldra aðila, lögum samkvæmt, veita þau ekki jafnvíðtækar heimildir og frumvarp þetta gerir ráð fyrir til inngripa. Ljóst er að úrræðum þessum verður aðeins beitt við afar sérstakar aðstæður og einkum þegar hætta er á að erfiðleikar fjármálafyrirtækis kunni að hafa víðtæk áhrif á rekstur og afkomu annarra fjármálafyrirtækja (smitáhrif). Slíkar aðstæður gætu t.d. verið að fjármálafyrirtæki er ekki kleift að standa við skuldbindingar sínar þannig að greiðslufall hefði áhrif á viðskiptakjör annarra fjármálafyrirtækja, að fjármálafyrirtæki er komið niður fyrir lögbundið eiginfjárhlutfall og ekki líkur til þess að stjórnendum þess takist að auka svo eigið fé að fullnægjandi geti talist eða að viðvarandi taprekstur stefni hagsmunum innstæðueigenda eða annarra kröfuhafa í hættu. Sérstakar ráðstafanir samkvæmt nýrri 100. gr. a eru þess eðlis að stjórn Fjármálaeftirlitsins þarf að samþykkja þær, en Seðlabanki Íslands tilnefnir einn af þremur aðalstjórnarmönnum Fjármálaeftirlitsins. Er því tryggt að Seðlabanki Íslands, sem eftirlit hefur með lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja sé vel upplýstur um stöðu hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis og þær ráðstafanir sem Fjármálaeftirlitið kann að þurfa að grípa til.
    Í 2. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti boðað til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda. Mikilvægt er að Fjármálaeftirlitið geti með skjótum hætti tekið upp viðræður við stjórnendur fjármálafyrirtækis um mögulegar ráðstafanir sem grípa þarf til. Gert er ráð fyrir að fulltrúi Fjármálaeftirlitsins stýri fundi, hafi málfrelsi og tillögurétt. Núgildandi lög heimila ekki slíkt inngrip inn í starfsemi eftirlitsskyldra aðila í neinum tilvikum, en nauðsynlegt kann að vera fyrir Fjármálaeftirlitið að geta brugðist hratt við í þeim tilvikum sem fjármálafyrirtæki glímir við rekstrarerfiðleika, t.d. með það fyrir augum að leggja fram tillögu um hlutafjáraukningu eða samruna við annað fyrirtæki. Í ákvæðinu kemur jafnframt fram að Fjármálaeftirlitið sé ekki bundið af ákvæðum hlutafélagalaga né samþykkta eftirlitsskyldra aðila hvað varðar fundarboðun eða fresti til fundarboða eða dagskrá. Fjármálaeftirlitið gæti því t.d. boðað til fundar með skemmri fyrirvara en hlutafélagalög kveða á um og boðað til fundar t.d. með birtingu auglýsingar í víðlesnu dagblaði. Eðlilegt er þó að Fjármálaeftirlitið taki mið af ákvæðum hlutafélagalaga eftir því sem unnt er hverju sinni. Í norskum lögum er kveðið á um sambærilega heimild til handa þarlendum eftirlitsaðila (Kredittilsynet). Samkvæmt þeirri heimild getur norski eftirlitsaðilinn boðað til hluthafafundar með skömmum fyrirvara ef ástæða er til að ætla að banki sé um það bil að lenda í rekstrarvandræðum og bankinn hefur ekki framkvæmt nauðsynlegar aðgerðir sem miða að því að greiða úr erfiðleikunum.
    Í 3. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti tímabundið tekið yfir völd hluthafafundar eða stofnfjáreigendafundar. Mikilvægt er að Fjármálaeftirlitið geti gripið inn í starfsemi fjármálafyrirtækis með þessum hætti, ef alvarlegar aðstæður koma upp, með það að markmiði að reyna að finna grundvöll til áframhaldandi reksturs fyrirtækisins, sameina fyrirtækið eða einstakar rekstrareiningar þess öðru fyrirtæki eða vinna að öðrum nauðsynlegum aðgerðum til þess að takmarka tjón sem hlotist gæti af því að starfsemi viðkomandi fari í þrot. Með hliðsjón af því hversu nauðsynlegt það er að geta gripið til aðgerða án tafar gerir frumvarpið ráð fyrir að ekki þurfi að afla samþykkis Samkeppniseftirlitsins fyrir samrunanum. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna opinberlega og ef fyrirtækið starfrækir útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynningin send þarlendum lögbærum eftirlitsaðilum.
    Í 4. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti takmarkað eða bannað ráðstöfun fjármálafyrirtækis á fjármunum sínum og eignum ef það er liður í aðgerðum til að koma fjárhag fyrirtækisins á réttan kjöl. Með þessu er t.d. átt við bann við útborgun innlána, veitingu útlána og greiðslu skulda til kröfuhafa. Fjármálaeftirlitið gæti jafnframt á grundvelli þessa ákvæðis lagt bann við því að fyrirtæki auki við skuldbindingar sínar. Nauðsynlegt kann að vera fyrir Fjármálaeftirlitið að grípa til slíkra aðgerða á meðan unnið er að því að leysa úr erfiðleikum í rekstri eftirlitsskyldra aðila. Nefna má að Fjármálaeftirlitið hefur nú þegar slíka heimild í 90. gr. laga um vátryggingastarfsemi og skv. 3. mgr. 9. gr. laga um fjármálafyrirtæki er Fjármálaeftirlitinu heimilt að banna tiltekna starfsemi sem fjármálafyrirtæki er heimil skv. IV. kafla laganna. Áður en til þess kemur að banna starfsemi samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu skal veittur hæfilegur frestur til úrbóta, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 9. gr. Ef um alvarlegar aðstæður er að ræða kann hins vegar að vera nauðsynlegt fyrir Fjármálaeftirlitið að grípa inn með skjótari hætti. Ákvæði 4. mgr. frumvarpsins kveður jafnframt á um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að taka í sínar vörslur eignir sem mæta eiga skuldbindingum fjármálafyrirtækis, láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem forsvaranlegt þykir. Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilt að rifta sölu eigna sem átt hefur sér stað allt að mánuði áður en Fjármálaeftirlitið greip til sérstakra ráðstafana samkvæmt þessari grein.
    Í 5. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti krafist þess að fjármálafyrirtæki sæki um greiðslustöðvun í samræmi við ákvæði laga um gjaldþrotaskipti. Ákvæði laga um gjaldþrotaskipti skuli gilda um greiðslustöðvun, en val aðila á aðstoðarmanni skuldara skal þó staðfest af Fjármálaeftirlitinu.
    Í 6. mgr. er lagt til að grein þessi gildi óháð því hvort fjármálafyrirtæki hafi óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar, nauðasamninga eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota. Í þeim tilvikum hefur Fjármálaeftirlitið óskertar heimildir til ráðstöfunar réttindum og skyldum viðkomandi fjármálafyrirtækis eða þrotabús, burtséð frá ákvæðum laga um réttindi og skyldur umsjónarmanns, tilsjónarmanns eða skiptastjóra.
    Í 7. og 8. mgr. er hnykkt á nauðsyn þess að Fjármálaeftirlitið geti brugðist hratt við ef hætta steðjar að fjármálastöðugleika á Íslandi. Gert er ráð fyrir að ákvæðum stjórnsýslulaga um andmælarétt o.fl. verði vikið til hliðar við sérstakar ráðstafanir skv. 100. gr. a, sem kalla á skjót viðbrögð, enda væri að öðrum kosti útilokað að grípa til nauðsynlegra aðgerða. Enn fremur er lagt til að starfsmenn og stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins verði undanþegnir skaðabótaábyrgð vegna mögulegra afleiðinga ákvarðanatöku á grundvelli 100. gr. a. Tryggja verður að starfsfólk og stjórnarmenn stofnunarinnar veigri sér ekki við að grípa til aðgerða sem nauðsynlegar teljast, en ágreiningur kann að verða um vegna skerts hags eða réttinda, svo sem hluthafa eða stofnfjáreigenda. Fjármálaeftirlitið sem stofnun kann hins vegar að baka sér skaðabótaábyrgð líkt og nú er.

Um 6. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um rétthæð innstæðna við gjaldþrot fjármálafyrirtækis.

Um 7. gr.


    Nauðsynlegt þykir að tryggja að Fjármálaeftirlitið geti gripið til sérstakra ráðstafana vegna alvarlegra fjárhags- eða rekstrarerfiðleika annarra eftirlitsskyldra aðila en fjármálafyrirtækja. Því er lagt til að lögfest verði ný málsgrein 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með tilvísun til þeirra heimilda til inngrips sem 2. gr. frumvarpsins kveður á um.

Um 8. gr.


    Í 8. gr. er lagt til að við 1. mgr. 9. gr. laganna bætist þrír nýir málsliðir. Í fyrsta lagi er lagt til að Tryggingasjóði verði heimilt við endurgreiðslu úr sjóðnum að inna af hendi greiðslu andvirðis innstæðu úr innstæðudeild í samræmi við skilmála sem um innstæðuna og verðbréfin gilda, t.d. er varðar binditíma, uppsögn og þess háttar. Er þar m.a. átt við að hafi innlánsreikningur í aðildarfyrirtæki verið bundinn reikningur til tiltekins tíma þá sé Tryggingasjóði heimilt að endurgreiða innstæðu að þeim tíma liðnum. Þannig skapist greiðsluskylda Tryggingasjóðs ekki fyrr en innstæðueigandi hefði getað tekið innstæðu út úr banka samkvæmt skilmálum. Forsendur ákvæðisins eru þær að ekki sé eðlilegt að Tryggingasjóði beri skylda til að greiða andvirði innstæðu fyrr en aðildarfyrirtæki hefði borið.
    Í öðru lagi er lagt til að Tryggingasjóði skuli ávallt heimilt að endurgreiða innstæður í íslenskum krónum, óháð því hvort innstæða hefur í öndverðu verið í annarri mynt. Í lögum er ekki tekin afstaða til þessa atriðis og því þykir eðlilegt að taka af öll tvímæli um það í hvaða mynd Tryggingasjóður skuli endurgreiða. Í því tilfelli sem eign viðskiptamanns er í erlendri mynt yrði krafan umreiknuð miðað við sölugengi á þeim degi er Fjármálaeftirlitið gefur út álit um að aðildarfyrirtæki sé ekki fært um að inna af hendi tafarlaust eða í nánustu framtíð greiðslu á andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár eða þann dag sem úrskurður um töku bús aðildarfyrirtækis til gjaldþrotaskipta er kveðinn upp.
    Í þriðja lagi er lagt til að réttur viðskiptamanns til greiðslu takmarkist af skuldajafnaðarheimild sem sjóðnum er ávallt heimilt að beita við uppgjör skuldbindingarinnar. Rétt þykir að skýrt sé kveðið á um það í lögum að skuldajöfnun sé heimil.

Um 9. gr.


    Þá er lagt til að við 3. mgr. 10. gr. bætist nýr málsliður er kveður á um að kröfur vegna innstæðna njóti rétthæðar við gjaldþrotaskipti skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

Um 10.–12. gr.


    Gert er ráð fyrir því í þessum greinum að heimildir Íbúðalánasjóðs samkvæmt lögum um húsnæðismál verði rýmkaðar þannig að honum verði heimilt að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem teljast til hefðbundinna íbúðalána. Slík ráðstöfun getur verið þáttur í nauðsynlegum aðgerðum við endurskipulagningu rekstrar fjármálafyrirtækja og er til þess fallin að liðka fyrir fjármögnun. Þá er lagt til að ráðherra geti sett ferkari fyrirmæli í reglugerð um þessar heimildir.

Um. 13. gr.


    Lagt er til að frumvarpið bindi alla við birtingu. Í lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað er kveðið á um að lög bindi alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt. Vegna eðlis ákvæða frumvarpsins er nauðsynlegt að það bindi alla þegar við birtingu þeirra.