Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 26. maí 2009, kl. 14:39:10 (251)


137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[14:39]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég furða mig á síðustu orðum hv. þingmanns. Skil ég hann rétt, að það sé að hans mati ekki efni til þess að afgreiða það mál sem hann lýsti rétt áðan að væri mjög brýnt, fyrr en lokið er uppgjöri milli gömlu og nýju bankanna? Hvernig á að skilja orð þingmannsins?

Ég ætla ekki að endurtaka það sem áður hefur verið sagt í þessum ræðustóli í dag og í gær eða á fundum viðskiptanefndar um nauðsyn þess að halda sameiginlegan fund með hv. efnahags- og skattanefnd um það sem beðið hefur verið um, skýrslu Olivers Wymans og stöðuna í endurfjármögnun bankanna. Við munum leitast við að gera það, eins og ég sagði í gær, við fyrsta mögulega tækifæri. En ég lýsti því jafnframt bæði á fundi viðskiptanefndar í hádeginu og hér áðan að ég tel mjög mikilvægt að það mál sem hér er til umræðu og hefur verið afgreitt til þingsins með afbrigðum í dag verði vísað til nefndar og það fái forgang í störfum nefndarinnar þessa viku. Ég óska eftir því að fá afstöðu hv. þingmanns til þess.