Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 26. maí 2009, kl. 15:26:55 (265)


137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[15:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra greindi frá því að hann hefði í huga að leggja fram frumvarp um svokallaðar strandveiðar greindi hann frá því að einn megintilgangurinn væri sá að einfalda fiskveiðistjórnarkerfið og ryðja út úr því þætti sem valdið hefði ágreiningi og vísaði þá sérstaklega til byggðakvótans.

Nú hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra greint frá því að horfið hafi verið frá því að einfalda kerfið og þess í stað hafi verið ákveðið að flækja það enn frá því sem það er í dag. Hæstv. ráðherra hefur greint okkur frá því að ráðstafa eigi hluta, eða 55% af byggðakvótanum, til hinna svokölluðu strandveiða. Þá vaknar spurningin: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra úthluta þeim byggðakvóta sem eftir stendur, um 2.000 tonnum, sem er allt og sumt sem ætlað er til þess að koma til móts við veikustu byggðirnar í sjávarútvegi í landinu? Hvernig hyggst hæstv. ráðherra úthluta þessum aflaheimildum?

Nú liggur það fyrir að það er að styttast mjög í fiskveiðiárinu, það eru rétt rúmir þrír mánuðir þangað til fiskveiðiárinu lýkur og ákaflega mikilvægt að menn fari að fá einhverja vissu um það hvernig staðið verður að úthlutun þess litla sem eftir stendur varðandi byggðakvótann. Hæstv. ráðherra verður auðvitað í þessari umræðu, áður en lengra er haldið, að upplýsa okkur um það hvernig hann ætlar að vinna þessi mál. Er hæstv. ráðherra tilbúinn með þær reglur sem á að vinna eftir? Hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að skerða þá almennt talað þau byggðarlög sem hafa átt rétt á byggðakvóta og hafa átt rétt á byggðakvóta á grundvelli þeirra reglna sem hafa gilt eða hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að fækka þeim byggðarlögum sem fá byggðakvótann? Hæstv. ráðherra verður að greina frá þessu. Það kemur ekki fram, hvorki í ræðu hans né í athugasemdum við þetta frumvarp, og þess vegna er ákaflega mikilvægt áður en þessari umræðu vindur fram að hæstv. ráðherra útskýri þetta mál betur.