Undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 14:51:20 (660)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þótt hv. þm. Bjarni Benediktsson sé nú orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins fyndist mér nú fara honum betur að fara í þau föt sem hann var venjulega í þegar hann var formaður utanríkismálanefndar og talaði af meiri yfirvegun um mál en hann gerir hér og nú.

Staðreyndin er sú að tillaga ríkisstjórnarinnar gengur út á það að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Það er ljóst. Það segir líka að að loknum slíkum viðræðum eigi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðan er í athugasemdunum lýst ákveðnu ferli. Talað er um að víðtækt samráð verði haft við hagsmunaaðila um viðræðurnar, leitað verði eftir sem breiðastri samstöðu um umræðugrundvöll þeirra viðræðna. Það þýðir að sjálfsögðu m.a. samningsmarkmið um grundvallarhagsmuni okkar eðlilega, og að skipuð verði fagleg viðræðunefnd.

Hér er líka viðruð sú hugmynd að sett verði á laggirnar sérstök Evrópunefnd til að fara með tengslin milli þingsins og viðræðunefndarinnar. Það gæti út af fyrir sig orðið utanríkismálanefnd eins og tillaga stjórnarandstöðunnar gengur út á. Ég meina, það er að sjálfsögðu opið til umræðu. Ríkisstjórnin leggur þetta fram sem sínar hugmyndir. Þingið hefur að sjálfsögðu allan rétt til þess og alla möguleika að ræða það hvort það vill hafa hlutina með öðrum hætti og hvort það vill hafa meiri aðkomu að málinu en gert er ráð fyrir í upphaflega þingmálinu og þá gerir þingið það.

Það hefur að sjálfsögðu allt umboð til þess og þetta veit hv. þm. Bjarni Benediktsson mætavel, og hefur sjálfur oft einmitt sem formaður utanríkismálanefndar tekið þingmál frá ríkisstjórn sem hann studdi og gert á því breytingar vegna þess að þingið vildi hafa hlutina öðruvísi. Það er það sem við eigum að temja okkur. Við eigum einmitt að temja okkur það að þingið hafi meira að segja, styrkja þingræðið í sessi og við teljum að við séum að gera það.