Flutningskostnaður á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. júní 2009, kl. 14:46:31 (740)


137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

flutningskostnaður á landsbyggðinni.

22. mál
[14:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Það er einkenni á þessari ríkisstjórn að hæstv. samgönguráðherra kom hér upp og talaði eingöngu um fortíðina en ekki framtíðina, ekki hvað þessi ríkisstjórn ætlaði sér að gera (Gripið fram í.) til þess að lækka flutningskostnað á landsbyggðinni. Ég vil minna hæstv. ráðherra á, af því að hæstv. ráðherra fór með ósannindi hér um að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefði lagt fram tillögur um að leggja flutningssjóð olíuvara niður þá vil ég rifja það upp með hæstv. ráðherra að það frumvarp kom oftsinnis í þingflokk Framsóknarflokksins og þingflokkur Framsóknarflokksins sagði nei við því að fella niður flutningssjóð olíuvara. Hin vegar var það á fyrsta þingi ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að sú tillaga var lögð fram. Þar var hæstv. ráðherra í þeirri ríkisstjórn Kristján Lúðvík Möller og það var mín fyrsta fyrirspurn hér það haust á Alþingi til hæstv. viðskiptaráðherra Björgvins G. Sigurðssonar hvort virkilega stæði til að leggja niður flutningssjóð olíuvara. Sú ríkisstjórn var hrakin frá þeirri ákvörðun sinni þannig að mér finnst það vera býsna langsótt hjá hæstv. ráðherra að ætla að kenna Framsóknarflokknum um það sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks lagði fram. Þetta kallast að snúa málum gjörsamlega á haus. Sú ákvörðun sem ríkisstjórnin ákvað núna í vikunni, að hækka verð á olíu sérstaklega, mun enn frekar leiða til þess að flutningur á landsbyggðinni mun hækka.

Við heyrðum ræðu hæstv. ráðherra hér áðan sem talaði bara um fortíðina. Það eru engar lausnir. Það eru engar tillögur. Þegar menn koma hér upp og ræða um vanda atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni og heimilanna þá fá þeir bara hér skít og skömm. Það er bara talað um eitthvað sem gerðist árið 1990 og eitthvað. Það er ekkert rætt um hvað eigi að fara að gera. (Samgrh.: Hvað hefur Framsóknarflokkurinn gert?) Síðan eru menn mjög undrandi á því að óþol gagnvart þessari ríkisstjórn sé að aukast í samfélaginu. (Gripið fram í.)

Hins vegar vil ég að lokum enn og aftur óska hæstv. viðskiptaráðherra góðs gengis í sínum störfum og ég vona að hann verði málefnalegri í sínum málflutningi (Forseti hringir.) en hæstv. samgönguráðherra.