Flutningskostnaður á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. júní 2009, kl. 14:48:44 (741)


137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

flutningskostnaður á landsbyggðinni.

22. mál
[14:48]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir viðbrögðin. Það verður bara því miður að viðurkennast að það er ákaflega lítið útlit fyrir að hægt verði að auka framlög til þessa málaflokks á næstu missirum. Ég held að við verðum bara að horfa á það alveg blákalt. Síðan þegar betur árar verður að sjálfsögðu hægt að taka þessa umræðu upp á ný og þá hefði ég mjög gaman af því að fjalla reyndar á breiðari grundvelli um það hvernig sé hægt og æskilegt að beita sér fyrir jöfnun á aðstöðumun eftir landshlutum. Þess má reyndar geta þótt það skipti kannski ekki öllu máli í þessu samhengi að ég varði nokkrum árum ævi minnar í að skrifa doktorsritgerð um byggðaþróun og búsetuþróun á Íslandi þannig að mér er þetta mál mjög skylt og hugleikið þótt ég hafi ekki sérstaklega fjallað þar um verðjöfnunarsjóð olíuvara.

Eins og staðan er núna held ég að það sé því miður varla á dagskrá að setja meira fé í þetta. Hins vegar held ég að hið háa Alþingi hljóti á næstu árum vitaskuld eins og reyndar á undanförnum áratugum að taka til skoðunar byggðamál og lífskjör eftir landshlutum og hvað sé æskilegt og hvað sé eðlilegt að gera þar. Ég er ekkert viss um að út úr þeirri umræðu komi endilega að menn vilji leggja gjöld á vörur um allt land til þess að niðurgreiða flutning þeirra til einstakra landshluta. Það getur vel verið að menn komi með einhverjar betri aðferðir og auðvitað verður það allt saman skoðað í samhengi við framlög til vegamála og samgöngumála almennt. Þeirri umræðu fagna ég. En því miður er varla núna tími til þess að vera með umræðu um frekari ríkisútgjöld.